Utanríkisstefna forsetans

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, var í viðtali við stórblaðið Financial Times sem birtist 2. september sl. Í viðtalinu reifar hann mál ljóðskáldsins kínverska sem vill kaupa stórt landssvæði á Grímsstöðum.

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, var í viðtali við stórblaðið Financial Times sem birtist 2. september sl. Í viðtalinu reifar hann mál ljóðskáldsins kínverska sem vill kaupa stórt landssvæði á Grímsstöðum. Um er að ræða 300 ferkílómetra landssvæði sem ætlað er að nýta að hluta til ferðaþjónustu.

Í viðtalinu dásamar forsetinn samninginn þar sem tengsl Íslands við Kína og Indland hafi blómstrað á meðan Evrópusambandið og Bandaríkin hafi gleymt vinum sínum í norðri. Indland og Kína hafi rétt fram hjálparhönd á meðan Evrópa var fjandsamleg og Bandaríkin afskiptalaus. Forsetinn heldur áfram og segir að engin ástæða sé til þess að óttast fjárfestingar Kínverja, heldur frekar fagna þeim þar sem tengslin við hinar hefðbundnu NATO þjóðir hafi orðið stirðari.

Erfitt er að skilja þessi orð öðruvísi en að stirðari samskipti Íslands við Nato ríkin, að mati forsetans, auðveldi þá ákvörðun að kínverska ljóðskáldið kaupi hér land. Það séu meðvituð viðbrögð Íslands að opna landið fyrir Kína. Forsetinn segir frá því að hann hafi sett samskipti við Indland og Kína í forgang í sínum störfum. Hann hafi heimsótt Kína fimm sinnum á síðastliðnum sex árum og segist hafa tekið á móti fleiri sendinefndum frá Kína á sínum forsetaferli en frá Bandaríkjunum, Bretlandi, Þýskalandi, Frakklandi, Ítalíu og Spáni samanlagt.

Forsetinn talar fyrir hönd margra þegar hann bendir á að framkoma sumra hefðbundinna vinaþjóða okkar hafi verið forkastanleg. Skandinavísku frændþjóðir okkar neituðu til að byrja með að greiða út lán til Íslands meðan Icesave deilan væri óleyst og Bretar settu á okkur hryðjuverkalög. Það er ástæða til að halda á lofti því óþokkabragði sem Bretar sýndu okkur í kjölfar gjaldþrots Landsbankans.

Það er augljóst að hagsmunum Íslands er mun betur borgið með því að eiga góð samskipti við hin rísandi veldi Asíu en ekki. Kínverjar liggja á ógrynni ríkisskuldabréfa sem þeir vilja ávaxta með arðbærari hætti og gætu verið mjög mikilvægur viðskiptaaðili í framtíðinni. Eins er það alveg augljóst að hagsmunum Íslands er mun betur borgið með því að eiga góð samskipti við Bandaríkin og ríki Evrópu heldur en ekki.

Fréttin af forsvarsmönnum ríkisstjórnarinnar, þar sem því er haldið fram að Ísland hafi útskrifast með láði úr prógrammi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, er enn volg. Sjóður sem stjórnað er að mestu og fjármagnaður af Bandaríkjamönnum og löndum Evrópusambandsins. Ísland er með umsókn um að ganga í Evrópusambandið. Ísland er með tvíhliða varnarsamning við Bandaríkin og aðili að Atlantshafsbandalaginu. Á sama tíma gefur forseti landsins það í skyn að það séu meðvituð viðbrögð landsins, vegna stirðra samskipta við ríki Atlantshafsbandalagsins, að opna landið fyrir Kína.

Ólafur Ragnar hefur talað máli Íslendinga á erlendri grundu með mun áhrifameiri hætti heldur en talsmenn ríkisstjórnarinnar síðustu árin. Hann hefur verið duglegur að benda á framkomu Breta í okkar garð og hjólaði í matsfyrirtækin þegar þau höfðu hótað því að lækka lánshæfismat landsins vegna Icesave atkvæðagreiðslunnar. Þrátt fyrir það, gengur það ekki til lengdar að forseti tali fyrir annarri utanríkisstefnu en ríkisstjórnin.

Skynsamasta leiðin er að mynda góð tengsl við rísandi þjóðir Asíu, án þess að eitra fyrir samskipti við þjóðir Atlantshafsbandalagsins. Ef vilji er fyrir því nota áhuga Kína á Íslandi sem vogarstöng við vesturlönd, þá er það annarra að móta þá stefnu.

Latest posts by Vignir Hafþórsson (see all)

Vignir Hafþórsson skrifar

Vignir hóf að skrifa á Deigluna í október 2009.