Hvernig karlmaður gerir svona?

Í dag verður Druslugangan svokallaða haldin í Reykjavík. Gengið verður frá Skólavörðuholti kl. 14 og niður á Ingólfstorg. Hugmyndin er fengin erlendis frá, en víðs vegar um heiminn hafa nýlega verið haldnar druslugöngur (e. slut walks). Megintilgangurinn er að mótmæla þeirri hugmynd að nauðgun megi á einhvern hátt útskýra með því að vísa til klæðaburðar fórnarlambsins.

Í dag verður Druslugangan svokallaða haldin í Reykjavík. Gengið verður frá Skólavörðuholti kl. 14 og niður á Ingólfstorg. Hugmyndin er fengin erlendis frá, en víðs vegar um heiminn hafa nýlega verið haldnar druslugöngur (e. slut walks). Megintilgangurinn er að mótmæla þeirri hugmynd að nauðgun megi á einhvern hátt útskýra með því að vísa til klæðaburðar fórnarlambsins.

Fyrsta gangan var farin í Kanada í apríl á þessu ári eftir að kanadískur lögreglumaður lét þau ummæli falla að konur „ættu ekki að klæða sig eins og druslur“ og þannig koma í veg fyrir að þeim væri nauðgað. Ummælin vöktu gríðarlega hörð viðbrögð og urðu kveikjan að fyrstu göngunni. Slík ummæli eru því miður alls ekkert einsdæmi og hafa síðustu misseri nokkur slík ummæli hér á landi vakið upp umræður.

Á Íslandi er það viðhorf of viðtekið að ábyrgðin liggi hjá þolendum kynferðisafbrota. Allt of oft er skýringa leitað hjá fórnarlambinu sjálfu, sem í flestum tilvikum eru konur. „Hún var alltof drukkin“, „Hún var þannig klædd“ eru skýringar sem við heyrum allt of oft. Umræðan um kynferðisbrot snýst því of mikið um að segja konum hvernig þær eigi að haga sér og klæða sig til að koma í veg fyrir að þeim verði nauðgað.

Ég man eftir að hafa séð bandarískan bækling eitt sinn sem snerist einmitt um það. Þar var bandarískum konum ráðlagt að hafa ekki fléttu í hárinu, því það væri svo auðvelt að grípa í hana og ná þannig taki á konunni, einnig var ráðlagt að ganga frekar í buxum en pilsi, því nauðgarar settu það fyrir sig að reyna að ná konum úr buxum. Enn eitt ráðið var að labba utarlega á gangstéttinni svo það væri ekki of auðvelt að kippa þeim inn í hliðarstræti og nauðga þeim. Ég man ekki eftir að hafa séð bækling til karlmanna með þeim einföldu skilaboðum sem myndu leysa vandann: Ekki nauðga!

Það er þó vissulega þannig að heimurinn sem við lifum í er hættulegur. Hættur leynast víðsvegar, ekkert síður hér á landi en annars staðar. Víða er fólk sem er hættulegt öðrum. Við þurfum því sífellt að vera á varðbergi gagnvart allskyns glæpum. Það þýðir þó ekki að fórnarlömbum afbrota sé um að kenna. Sökin er alveg skýr. Gerandanum er um að kenna. Skömmin er hans. Klæðaburður kvenna getur á engan hátt útskýrt, hvað þá afsakað, að þeim hafi verið nauðgað.

Konur eru mun líklegri en karlar til að verða fyrir nauðgun. Karlar eru svo aftur mun líklegri en konur til að verða fyrir alvarlegri líkamsárás. Skilaboðin til kvenna eru að haga sér og klæða sig á ákveðinn hátt til að forðast nauðgun. Ekki virðist samt verið að senda sérstök skilaboð til karla um hvernig þeir eigi að haga sér eða klæða til að þeir verði ekki fyrir líkamsárás.

Yfirlýst markmið Druslugöngunnar í Reykjavík í dag eru einföld:

Við viljum færa ábyrgð frá þolendum kynferðisafbrota yfir á gerendur.
Við viljum uppræta þá samfélagslegu fordóma sem endurspeglast í þeirri ofur-áherslu sem lögð er á klæðaburð, ástand og atferli þolenda í umræðunni um kynferðisofbeldi.*

Þetta eru holl skilaboð fyrir alla, hvort sem við tökum þátt í göngunni eða ekki. Breytum hugarfari okkar gagnvart kynferðisbrotum. Hættum að velta því fyrir okkur þegar við heyrum af nauðgun: „hvernig var hún klædd?“ eða „hún hlýtur að hafa ofurölvi“.

Hugsum frekar „hvernig karlmaður gerir svona?“

*tekið af heimasíðunni http://drusluganga.org/

Latest posts by Helga Lára Haarde (see all)

Helga Lára Haarde skrifar

Helga Lára hóf að skrifa á Deigluna í ágúst 2006.