Gefum sumarbústaðnum frí

Kaldasti júnímánuður í hálfa öld er að baki. Örvæntingarfullir Íslendingar líta út um gluggann á hverjum morgni í þeirri veiku von að geta klæðst stutterma skyrtunni eða sumarkjólnum. Forsíður dagblaða og lokasekúndur fréttatímanna hafa vandræðalega sjaldan skartað fáklæddum sóldýrkendum í Nauthólsvík og fólk er hálft í hvoru farið að velta fyrir sér hvort þetta sé árið sem sumarið gleymdi.

Kaldasti júnímánuður í hálfa öld er að baki. Örvæntingarfullir Íslendingar líta út um gluggann á hverjum morgni í þeirri veiku von að geta klæðst stutterma skyrtunni eða sumarkjólnum. Forsíður dagblaða og lokasekúndur fréttatímanna hafa vandræðalega sjaldan skartað fáklæddum sóldýrkendum í Nauthólsvík og fólk er hálft í hvoru farið að velta fyrir sér hvort þetta sé árið sem sumarið gleymdi.

En þó að Íslendingar hafi unun af því að velta veðrinu fyrir sér þá hafa þeir ekki verið þekktir fyrir að láta það hafa mikil áhrif á sig og sýnir ný könnun MMR að rúm 80% Íslendinga hyggjast ferðast á Íslandi í sumar. Helmingur aðspurðra ætlaði einungis að ferðast á Íslandi. Þetta eru góðar fréttir – bæði fyrir þau 255 þúsund sem munu leggja land undir fót og fyrir öll þau fyrirtæki og einstaklinga á landsbyggðinni sem taka á móti ferðalöngunum. Nýjustu tiltæku tölur yfir fjölda starfa í ferðaþjónustu eru frá 2009 og voru þau þá 8.500 sem er svipaður fjöldi og árið 2007. Störf í ferðaþjónustu voru 5,1% af heildarfjölda starfa á landinu árið 2009.

Til viðbótar við þennan fjölda Íslendinga sem ætla að ferðast um landið sitt bætast erlendir ferðamenn. Fyrir rúmum þrjátíu árum, árið 1980, komu 65.000 erlendir ferðamenn til Íslands og í fyrra voru þeir 500.000 talsins. Gjaldeyristekjur ferðaþjónustunnar hafa aukist að því marki að þær eru nú um 20% af heildargjaldeyristekjum þjóðarbúsins.

Það er áhugavert að bera saman ferðavenjur íslenskra og erlendra ferðamanna á Íslandi. Þegar erlendir ferðamenn eru spurðir um hvaða afþreyingu þeir nýttu sér skorar náttúruskoðun langhæst með 82%. Þar á eftir koma sundlaugar og náttúruböð, gönguferðir og fjallgöngur, söfn og sýningar, hvalaskoðun, bátsferðir, gallerí og handverksmiðstöðvar, dagsferðir með leiðsögn, spa og heilsulindir, og eldfjallaferð. Aðspurðir um hvað var minnistæðast úr ferðinni setja erlendir ferðamenn náttúruna í heild sinni í 1. sæti. Næst á eftir koma í réttri röð: Bláa lónið, Jökulsárlón, Geysir, Gullfoss, Mývatn, Landmannalaugar, hvalir og hvalaskoðun, Reykjavík, og eldfjöll.

Þegar Íslendingar eru spurðir um fyrirhuguð ferðalög á árinu reynist meira en helmingur vera á leið í sumarbústaðaferð eða 57%. Helmingur aðspurðra ætlar í heimsókn til vina eða ættingja og þriðjungur ætlar í ferð með vinahópi eða klúbbfélögum. Einungis fjórðungur segist ætla í útivistarferð.

Nú er nýhafinn langvinsælasti mánuðurinn til ferðalaga innanlands, en í fyrra ferðuðust 73% landsmanna í júlí. Ágúst fylgir næst á eftir með 63%. Vonandi nýta sem flestir ferðalagið sitt til að njóta þeirra óteljandi möguleika sem landið okkar hefur upp á að bjóða. Hafið samband við upplýsingamiðstöðvar, farið á heimasíður ferðaþjónustuaðila, kynnið ykkur afþreyingar- og gistimöguleika, fáið meðmæli hjá vinum og kunningjum, googlið, dragið fram landakortið, klæðið ykkur upp í litríkar flíkur, setjið upp myndavélina og prófið svo að ferðast um Ísland eins og erlendir ferðamenn.

Latest posts by Sigríður Dögg Guðmundsdóttir (see all)

Sigríður Dögg Guðmundsdóttir skrifar

Sigga Dögg hóf að skrifa á Deigluna í júlí 2005.