Hvað er líkt með femínista og frjálshyggjumanni?

Svar: Meira en þú heldur.

Svar: Meira en þú heldur.

Líklega myndu flestir segja að um andstæður væri að ræða. Frjálshyggjumenn berjast jú fyrir frelsi einstaklinga til eigin ákvarðanatöku, en femínistar berjast gjarnan fyrir lagasetningu til að jafna stöðu kynjanna, sem getur skert eigin ákvarðanatöku. Þá hafa femínismi og kvenréttindi um langt skeið verið spyrð saman við sósíalisma og flokka á vinstri væng stjórnmálanna – Kvennalistinn rann t.a.m. á sínum tíma tiltölulega áreynslulaust inn í Samfylkinguna. En það er ekkert sem segir að svo þurfi að vera, enda er um að ræða hópa sem eiga ýmislegt sameiginlegt þegar nánar er að gáð.

Betty Friedan, höfundur bókarinnar The Feminine Mystique (í. Goðsögnin um konuna) er femínistahetja, sem segir sjálf að hún hafi verið vinstrisinnuð, jafnvel á jaðri Marxísma þegar hún ritaði bókina árið 1963. Verkið kom af stað vitundarvakningu í Bandaríkjunum og er enn þann dag í dag eitt mikilvægasta rit nútímafemínisma. Árið 1977 ritaði hún aðra bók, It Changed My Life (í. Það breytti lífi mínu). Þar segir hún frá því þegar hún áttaði sig á því að kommúnistaríki og kaþólskar þjóðir ynnu nánast kerfisbundið að því að halda konum niðri. Upp frá því varð hún stolt af því að vera frá „himnaríki kapítalista“, Ameríku. Nokkrum árum síðar bætti hún um betur og sagði femínista draga úr stuðningi við málstaðinn með því að vera of herskáa og of andvíga karlmönnum, og berjast um of gegn fjölskyldum og hjónabandi. Sjálfsagt gætu einhverjir, sem aðhyllast öfgalaust kvenfrelsi, tekið undir það með henni Betty.

John Stuart Mill, einhver helsti forsprakki frjálshyggjunnar, skrifaði bókina The Subjection of Women (í. Kúgun kvenna) árið 1869. Þar útlistaði hann mikilvægi þess að konur og karlar nytu jafnra réttinda og að nauðsynlegt væri að fjarlægja höft af konum, hvort sem væri lagaleg höft eða samfélagsleg. Þá studdi hann rétt kvenna til að kjósa þegar hann var þingmaður, og reyndi að koma á lagabreytingum þess efnis. Honum varð þó ekki kápan úr klæðinu, og fengu breskar konur ekki kosningarétt fyrr en árið 1928, um 60 árum síðar. Hafði Mill m.a. líkt stöðu kvenna við þræla, en þrælahald hafði einungis nýlega verið afnumið um það leyti í Bandaríkjunum.

Hugmyndafræði beggja hópa, femínista og frjálshyggjumanna, grundvallast á einstaklingsfrelsi og vernd réttinda. Femínistar berjast jú fyrir frelsi einstaklinga til að vera metnir að verðleikum óháð kyni og fyrir því að fólki verði ekki mismunað á grundvelli kyns, en það er hvort tveggja eitthvað sem allir frjálshyggjumenn hljóta að styðja af heilum hug sem baráttumenn fyrir frelsi undan oki. Sú staðreynd að sumir femínistar telji að leiðin að auknu frelsi kynjanna sé best vörðuð með aukinni reglu- og lagasetningu getur ekki verið næg ástæða fyrir frjálshyggjumenn til að vígbúast við það eitt að heyra minnst á kvenfrelsi; það eru nefnilega ekki allir femínistar þeirrar skoðunar (auk þess sem slík lagasetning getur verið til þess fallin að auka rétt einstaklinga, líkt og stjórnarskrárvarin mannréttindi gera). Deila má um aðferðarfræðina, en margt er sameiginlegt í hugsjónum beggja hópa; að minnsta kosti upp að vissu marki.

Eitt sem frjálshyggjumenn ættu að athuga, þegar þeir gagnrýna femínista, er að þeir halda því jafnan fram að konur geti ekki verið eins kúgaðar og þær halda fram, vegna þess að þær samþykkja almennt kynjahlutverk sín mótbárulaust. En með sömu rökum mætti halda því fram að stjórnvöld kúguðu ekki þegna sína (sem er eitthvað sem frjálshyggjumenn eyða miklum tíma í að sannfæra fólk um), vegna þess að það er að sama skapi almennt mótbárulaus kúgun.

Þá mættu femínistar hafa í huga að frjálshyggjumenn eru ekki óvinurinn. Í fyrsta lagi eru frjálshyggjumenn ekki íhaldsmenn, og á sú gagnrýni sem femínistar hafa haft uppi um þá, á borð við að þeir séu mótfallnir öllum samfélagsbreytingum og styðji við feðraveldi, ekki við um frjálshyggjumenn, sem eru í stöðugri uppreisn við úr sér gengin viðmið. Í öðru lagi hafa frjálshyggjumenn mörg baráttumál sameiginleg með femínistum; þar má nefna jöfn réttindi óháð kyni, málfrelsi, rétt til fóstureyðinga og aðgangs að getnaðarvörnum, og afnám laga sem hefta kynfrelsi. Að lokum má nefna að frjálshyggjumenn, eru líkt og femínistar, hópur fólks sem hafnar óbreyttu ástandi og krefst réttlátara samfélags, afnáms ranglátra hafta, með frelsi að leiðarljósi.

Reyndar er til sérstök stefna sem sameinar hópana tvo með góðu móti, sem hefur verið kölluð einstaklingshyggjufemínismi á góðri íslensku (og individualist feminism á góðri ensku). Stefnan gengur út á rétt kvenna og karla til að vera frjálsir undan oki. „Við verðum að gefa hugmyndina upp á bátinn, um að við getum neytt aðra, persónulega eða með aðstoð yfirvalda, til að koma fram við okkur eins og við viljum að sé komið fram við okkur,“ sagði Joan Taylor Kennedy, einn helsti forsprakki einstaklingshyggjufemínisma.

Frjálshyggjumenn eru ekki upp til hópa einstrengingslegir stuttbuxnastrákar sem stendur á sama um þá sem minna mega sín, og femínistar eru ekki endilega fasískir karl-hatarar með reglusetningablæti.

Vinstrivængurinn hefur alltof lengi reynt að eigna sér kvenfrelsi og réttindabaráttu kvenna. Sannleikurinn er sá að um er að ræða baráttumál sem lýtur raunverulega að auknu frelsi allra og betra samfélagi, og það er eitthvað sem kemur öllum við.