Saklaus uns sekt er sönnuð

Í liðinni viku fékk heimurinn fregnir af meintum glæp sem að fyrrum framkvæmdastjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á að hafa framið. Öll vitum við hvað maðurinn er ásakaður um og daglega berast fréttir af nýjum sönnunargögnum sem litið hafa dagsins ljós, nú síðast að DNA úr manninum hafi fundist á klæðum fórnarlambsins. Maðurinn, Dominique Strauss-Kahn (hér eftir DSK), hefur hins vegar neitað öllu staðfastlega og hefur sett af stað stórtækar aðgerðir til þess að sanna sakleysi sitt.

Í liðinni viku fékk heimurinn fregnir af meintum glæp sem að fyrrum framkvæmdastjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á að hafa framið. Öll vitum við hvað maðurinn er ásakaður um og daglega berast fréttir af nýjum sönnunargögnum sem litið hafa dagsins ljós, nú síðast að DNA úr manninum hafi fundist á klæðum fórnarlambsins. Maðurinn, Dominique Strauss-Kahn (hér eftir DSK), hefur hins vegar neitað öllu staðfastlega og hefur sett af stað stórtækar aðgerðir til þess að sanna sakleysi sitt.

Það sem grípur athygli mína varðandi þetta mál er sá fréttaflutningur sem að viðgengist hefur. Fjölmiðlar, og þá sérstaklega miðlar vestanhafs, hafa frá upphafi ákveðið að DSK sé sekur og miðast fréttaflutningur frekar við það að bera út um hann rógburð fremur en að draga rétta mynd upp af málinu. T.a.m. að daginn eftir að hinn meinti glæpur átti sér stað birtir bandaríska dagblaðið Daily News á forsíðu sinni mynd af DSK með fyrirsögninni LE PERV, og sé ég ekki ástæðu þess að snara þessu yfir á íslensku. Nú er ég alls ekki að gera lítið úr þeim hrikalega glæp sem að maðurinn er sakaður um, en mér finnst slíkt mannorðsmorð af hálfu fjölmiðla vera mjög alvarlegur glæpur út af fyrir sig á þessu stigi málsins.

Nú hefur verið gefin út kæra á hendur DSK í 7 ákæruliðum, og er heildarrefsing fyrir þá, að því gefnu að hann verði sakfelldur í öllum þeirra, 74 ár. Það er þó þannig að þegar ákæruliðir eru svona margir er hámarksrefsing ákvörðuð í samræmi við þann ákærulið sem jafnar við þyngstu refsingu, í þessu tilviki 25 ár.

Franska þjóðin, en DSK er franskur, hefur verið í miklu losti eftir að fréttir bárust af atvikinu. Og það er ekki vegna þess að enginn hefði getað trúað að DSK myndi sýna af sér refsiverða háttsemi, en hann sagði sig úr ríkisstjórn Frakka árið 1999 fyrir ásakanir um spillingu, sem hann var síðar hreinsaður af. Nei, franska þjóðin veit ekki sitt rjúkandi ráð vegna þeirrar umfjöllunnar sem málið hlýtur.

Í Frakklandi eru lög sem koma í veg fyrir misvísandi fréttaflutning af mönnum sem hafa verið dæmdir. Í þarlendum lögum segir t.a.m. að bannað sé að birta myndir af sakborningi í handjárnum áður en hann hefur verið dreginn fyrir dómstóla. Því voru margir Frakkarnir virkilega hneykslaðir að sjá myndir af DSK í járnum líkt og sekur maður.

Í þessu ljósi er kannski vert að minnast á hugtakið réttarstaða grunaðs manns sem við höfum margoft lesið um í fjölmiðlum á undanförnum misserum. Það var sá tími að nánast daglega sögðu fjölmiðlar fregnir af nýjum einstaklingum sem höfðu réttarstöðu grunaðs manns og maður fékk aðeins á tilfinninguna að fleiri en færri væru í þessari stöðu. Réttarstaða grunaðs manns þýðir í raun að einstaklingur njóti sömu réttinda og sakborningur, en í fyrsta lagi þýðir það að viðkomandi má hafa lögmann sér til halds og trausts. Í öðru lagi ber honum ekki skylda til að svara spurningum lögreglu og í þriðja lagi er sá möguleiki fyrir hendi að hann getur logið að lögreglunni, þ.e.a.s. hann skapar sér ekki refsiábyrgð fyrir lygi líkt og vitni myndi gera. Þó að einstaklingur fái slíka réttarstöðu þýðir það alls ekki að hann sé endilega grunaður í viðkomandi máli, og hvað þá sekur líkt og fréttaflutningur virðist oft benda til.

Við búum í þróuðu lýðræðisríki sem heldur fast í gamla siði og venjur. Hins vegar vill oft hin sígilda meginregla um að maður sé saklaus uns sekt sé sönnuð gleymast. Mörg ríki hafa stigið skrefinu lengra en við, t.d. Frakkar, og sett lög sem koma í veg fyrir að slíkur mísvísandi fréttaflutningur viðgangist og tel ég slík lög af hinu góða. Önnur meginregla sem gott er að hafa í huga er að sakborningur á alltaf að njóta vafans.

Nú get ég ekkert fullyrt um hvað gerðist nákvæmlega í máli DSK og á þessi pistill alls ekki að gera lítið úr því alvarlega máli á einn eða neinn hátt, en við verðum að hafa það í huga að ekki hefur verið dæmt í málinu ennþá. Umrætt mál verður tekið fyrir dómi þann 6. júní n.k. og fyrst þá þegar hann hefur verið dæmdur getum við talað um hann sem sekan. En þangað til verðum við að láta DSK, og alla þá einstaklinga sem að bíða dóms, njóta vafans og telja hann saklausan uns sekt er sönnuð.

Latest posts by Árni Grétar Finnsson (see all)

Árni Grétar Finnsson skrifar

Árni Grétar hóf að skrifa á Deigluna í apríl 2011.