Obama náði Osama

Osama Bin Laden er allur. Hann var drepinn af bandarískum sérsveitarmönnum aðfaranótt síðasta mánudags í Pakistan. Þar með lauk tæpri tíu ára leit af eftirlýstasta manni í Bandaríkjunum, manni sem er talinn bera höfuðábyrgð á árásunum á Bandaríkin 11. september 2001. En hvað breytist með dauða Osama Bin Laden?

Osama Bin Laden er allur. Hann var drepinn af bandarískum sérsveitarmönnum aðfaranótt síðasta mánudags í Pakistan. Þar með lauk tæpri tíu ára leit af eftirlýstasta manni í Bandaríkjunum, manni sem er talinn bera höfuðábyrgð á árásunum á Bandaríkin 11. september 2001.

Drápið á Osama Bin Laden kom eins og þruma úr heiðskíru lofti. Eftir áralanga og árangurslausa leit, töldu margir að ómögulegt væri að finna hann og jafnvel að hann væri nú þegar látinn.

En hvað breytist með dauða Osama Bin Laden? Fjölmiðlar vestanhafs lýsa þessu sem stóru skrefi í baráttu vestrænna þjóða gegn hryðjuverkum. En munu hryðjuverk í heiminum minnka með brotthvarfi Osama Bin Laden? Er líklegt að hryðjuverkasamtökin Al Qaida muni leysast upp?

Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, sagði dauða Osama Bin Laden vera stærsta sigur Bandaríkjanna á Al-Qaida til þessa. Alain Juppe, utanríkisráðherra Frakklands sagði í fjölmiðlum að dauði Osama Bin Laden væri sigur fyrir lýðræðið og fyrir baráttuna gegn þeirri plágu sem hryðjuverk eru. Aðalritari Sameinuðu Þjóðanna, Ban Ki-Moon tók í svipaðan streng og sagði að þetta væri vendipunkturinn í sameiginlegri baráttu þjóða gegn hryðjuverkum.

Þjóðarleiðtogar heimsins eru að minnsta kosti sammála um það að stórt skref hafi verið stigið í baráttu þjóða heimsins gegn hryðjuverkum. Ljóst þykir að Al-Qaida mun að minnsta kosti eiga erfitt með að fylla í það leiðtogaskarð sem Osama Bin Laden skilur eftir sig. Hann hefur verið sameiningartákn hryðjuverkamanna í fleiri ár.

Hægri hönd Osama Bin Laden, mun nú væntanlega taka við sem leiðtogi Al Qaida. Hann heitir Ayman al-Zawahiri og er 59 ára Egypti og þykir mjög umdeildur. Hann er þó ekki talinn njóta nógu mikillar virðingar á meðal félagsmanna Al Qaida til þess að halda utan um samtökin. Hann hafi ekki þá sömu leiðtogaímynd og Osama Bin Laden og það gæti leitt til falls Al-Qaida.

En spurningin er hvort að fall Al-Qaida muni draga úr hryðjuverjum í heiminum. Það sem hefur gerst eftir 11. september 2001 að upp hafa sprottið mörg lítil hryðjuverkasamtök sem eru ekki í beinum tengslum við Al-Qaida. Því er líklegt að ógnin af hryðjuverkum muni ekki minnka þrátt fyrir dauða Osama Bin Laden. Meira en líklegt hlýtur að vera að hryðjuverkamenn munu reyna að leita hefnda fyrir drápið og það fyrr en seinna.

Þjóðir heimsins þurfa að vera undir það búnar að eiga í áframhaldandi stríði gegn hryðjuverkum. Eins og staðan er í dag þá sér ekki fyrir endann á því stríði. En vonandi verður hægt að tryggja öryggi saklausra borgara á næstu árum, það er það sem skiptir öllu máli.

Latest posts by Jan Hermann Erlingsson (see all)