Sæmdarréttur – réttur til höfundaheiðurs

Í fyrri pistli mínum var farið yfir þá hlið sæmdarréttarins í íslenskum höfundalögum, sem nefnist nafngreiningarréttur. Í þessum pistli mun hins vegar vera farið yfir aðra hlið nafngreiningarréttarins, réttinn til höfundaheiðurs.

Í fyrri pistli mínum var farið yfir þá hlið sæmdarréttarins í íslenskum höfundalögum, sem nefnist nafngreiningarréttur. Í þessum pistli mun hins vegar vera farið yfir aðra hlið nafngreiningarréttarins, réttinn til höfundaheiðurs.

Í síbreytilegu samfélagi 21. aldarinnar er ekki hægt að ganga að neinu gefnu á sviði lögfræðinnar. Stafræn tækni, fjölföldun og dreifing um Internetið hefur haft slík áhrif á höfundarétt að mörgum þykir sem aðlaga þurfi þetta réttarsvið að tækni og tækifærum 21. aldarinnar. Þá hafa nýjar stefnur á sviði listanna gert það að verkum að einhverjir telja að réttindi höfunda eigi ekki jafnvel við nú og áður fyrr.

Sú hlið sæmdarréttarins, sem einna helst er deilt um í máli Koddu sýningarinnar, er réttur til höfundaheiðurs. Misjafnt mat er á því hvað falli nákvæmlega innan þessa réttar en yfirleitt er þessi réttur talinn ná til verndar gegn ósæmilegum breytingum á verki og verndar gegn birtingu sem skerðir höfundaheiður. Í íslensku höfundalögunum segir að óheimilt sé að breyta verki höfundar eða birta það með þeim hætti eða í því samhengi að það geti skert höfundaheiður hans eða höfundasérkenni.

Mjög erfitt getur reynst að skýra hvað teljist vera brot á höfundaheiðri. Í greinargerðinni sem fylgdi lögum um höfundarétt eru tekin tvö dæmi til útskýringar. Þar segir að höfundur gæti stöðvað sýningu á kvikmynd sem gerð væri eftir handriti hans, ef harmleik sem hann skrifaði yrði breytt, þannig að hann fengi hamingjusamlegan endi. Einnig er nefnt dæmi um rit manns, sem þekktur væri fyrir baráttu fyrir tilteknu málefni, og ritinu væri breytt til að flytja andstæðan boðskap.

Þessari úrskýringar hjálpa að einhverju leyti en eru þó langt frá því að vera fullnægjandi. Hugtakið ósæmileg breyting er gríðarlega matskennt og ein af ástæðum þess að Bretar og Bandaríkjamenn hafa verið tregir til að viðurkenna sæmdarrétt í heild sinni. Vangaveltur um mat hvers skuli lagt til grundvallar á því hvað teljist ósæmileg breyting á verki er einnig atriði sem leyst er á mismunandi hátt milli landa. Í Frakklandi tíðkast til dæmis að leggja mat höfundar nánast athugasemdalaust til grundvallar þegar metið er hvort brotið hafi verið á höfundaheiðri hans, en réttur flestra annarra ríkja leggur það hins vegar í dóm dómstóla. Inn í þetta mat geta svo spilað ýmis konar sjónarmið eins og hvort meginefni listaverksins sé raskað og um hversu mörg eintök að verkinu séu til. Telja verður líklegra að óafturkræf breyting á eina eintaki verks sé líklegra til að teljast brot á höfundaheiðri heldur en ef um er að ræða verk sem til er í fjölda eintaka sem dreifst hafa víða. Sama á við ef um minniháttar lagfæringar á verki er að ræða en ekki meiriháttar breytingu á meginviðfangsefni verksins.

Nefna má annað tilvik sem talið er að geti brotið gegn höfundaheiðri en það er birting verks í ósæmilegu samhengi. Hér er því átt við að hægt sé að skerða höfundaheiður með því einu að birta verk í ósæmilegu samhengi. Í því felst að þrátt fyrir að engar breytingar séu gerðar á verki, það sé birt í sinni upprunalegu mynd, þá geti samhengið sem verkið er birt í eitt og sér skert höfundaheiðurinn. Álitaefnin eru hér því alveg þau sömu, hvað teljist ósæmileg birting og hver sjái um mat á því. Hægt er að ímynda sér listaverk sem höfundur hefði sérhannað fyrir tiltekna staðsetningu, en verkið væri svo fært á aðra staðsetningu sem talin væri verkinu ósæmandi. Einnig eru þekkt allavega tvö önnur tilvik þar sem samhengið gæti verið ósæmilegt, það er birting í klámfengnum tilgangi og í auglýsingatilgangi.

Ljóst er að frekari afmörkun hugtaksins ósæmileg breyting eða birting á verki er erfið enda er fagurfræði og mat listamanna afar óheppilegt til lagasetningar. Sú lausn sem boðið er upp á í Frakklandi er því óheppileg, enda geta menn þá alltaf átt von á kæru frá höfundaréttarhafanum. Því er mjög mikilvægt að dómaframkvæmd og venjur á þessu sviði grípi inn í og afmakið þetta hugtak að talsverðu leyti.

Nafngreiningarrétturinn og réttur til höfundaheiðurs eru þær tvær tegundir sæmdarréttar sem algengastar eru í rétti ríkja Evrópu og skýrist það meðal annars af því að þessi réttur höfunda er þeim tryggður með alþjóðarsáttmála sem flest öll ríki heimsins eru aðilar að og nefnist Bernarsáttmálinn. Nefna má aðrar tegundir sæmdarréttar, til dæmis rétt til aðgangs að verki, rétt til að ráða frumbirtingu verks, rétt til að afturkalla verk og loks rétt til að koma í veg fyrir eyðileggingu verks.

Segja má að rétturinn til að koma í veg fyrir eyðileggingu verks sé nátengdur höfundaheiðri og ósæmilegum breytingum á verki. Mætti í raun segja að eyðilegging á verki, í óþökk höfundar, sé efsta stig brota á höfundaheiðri og ósæmilegasta breyting á verki sem völ er á. Íslensk höfundalög hafa ekki að geyma neina beina heimild sem kemur í veg fyrir að verk höfundar sér eyðilagt án hans samþykkis. Bent hefur verið á að eyðilegging ein og sér feli líklega ekki í sér árás á æru listamanns og erfitt sé að færa rök fyrir því að það brjóti gegn sæmdarrétti hans.

Velta má upp því sjónarmiði hvort algjör eyðilegging verks njóti í raun verndar innan marka höfundaheiðurs og ósæmilegra breytinga á verki. Eins og áður segir eru þessi hugtök náskyld og í raun aðeins stigsmunur á þeim. Þá hefur það einnig áhrif að eyðilegging þarf ekki alltaf að gerast í einni svipan. Hægfara eyðilegging á listaverki, t.d. vegna ónógrar umhirðu, yrði líklega talin til ósæmilegra breytinga eða meðferðar á listaverki og getur auðveldlega skaðað heiður höfundar. Almennt er þó talið að góð umhirða á listaverki teljist til skyldu eigenda listaverkanna. Má því telja að eyðilegging verks, hröð eða hægfara, geti talist brot á sæmdarrétti samkvæmt íslenskum lögum en slíkt myndi yfirleitt ráðast af mati á eðli máls.

Eins og áður segir hefur Internetið og stafræn tækni gjörbylt því umhverfi sem listamenn eiga að venjast. Stafræn tækni hefur gert öllum kleift að færa vönduð eintök af listaverkum á stafrænt form. Auðvelt er að gera ýmsar breytingar á verkum eftir að verki er komið á stafrænt form og enn auðveldara að gera verk aðgengilegt öllum heiminum í upprunalegri eða breyttri mynd.

Ljóst er að þrátt fyrir að lögin séu nokkuð skýr um vernd sæmdarréttar er túlkun og beiting laganna afar óskýr. Þegar öllu er á botninn hvolft þá ætti vernd sæmdarréttar að ráðast af eðli og efni þeirrar listar sem um ræðir hverju sinni. Á þetta jafnt við um listaverk af gamla mátanum sem og list sem sköpuð er eða færð er yfir á stafrænt form. Hefðbundin sjónarmið ráða væntanlega ríkjum á þeim sviðum listarinnar sem eiga sér fornar rætur, líkt og myndlist og ritlist. Slíkt vernd mun þó alltaf ráðast af mati dómara. Hvað ný svið listarinnar ræðir, líkt og hið stafræna form, þá eru hvorki til venjur, hefðir né dómar sem hægt er að byggja á og eru listamenn, lögmenn og dómarar allir í vandræðum með að átta sig á að hve miklu leyti sæmdarrétturinn á við í slíkum tilfellum.

Mat á ósæmilegri meðferð á list mun alltaf verða umdeilt. Einhverjar skýringar er að finna um hvernig slíkt mat fer fram í dómum og greinargerð með höfundalögum. Gera mætti lögin skýrari þannig að tekið væri fram að tillit ætti að taka til eðlis og efnis þeirra verka sem um ræðir hverju sinni og byggja þá á þeim venjum og hefðum sem myndast hafa fyrir mismunandi tegundir lista. Inn í þetta mat kæmi svo sú meðferð á verkinu sem höfundur mætti sjá fyrir, líkt og áður var á minnst. Þetta gæti einnig átt við hefðir og venjur á Internetinu og við meðferð á efni á stafrænu formi.

Ljóst er að sýningin Koddu gengur nærri sæmdarrétti höfunda samkvæmt orðalagi höfundalaganna. Framsæknir listamenn láta gjarnan reyna á mörk verndar höfundarréttarins og getur það í mörgum tilfellum hjálpað til við að átta sig betur á skýringu höfundalaga í mismunandi tilfellum. Það væri þó óskandi að slíkt væri gert án þess að ganga of nærri heiðri og æru annarra höfunda.