Sæmdarréttur – nafngreiningarréttur

Við uppsetningu Nýlistasafnsins á sýningunni Koddu, nú í vor, hafa vaknað upp ýmsar spurningar og hafa þær flestar snúið að afmörkuðu sviði höfundarréttarins, það er sæmdarréttinum. Sæmdarréttur, er hinn ófjárhagslegi réttur höfunda sem hefur yfirleitt staðið í skugga hins fjárhagslega réttar. Þessi sýning hefur vakið athygli manna á mikilvægi sæmdarréttar og því hve afmörkun hugtaksins sæmdarréttur er óljós í íslenskum lögum. Í þessum pistli verður farið yfir þá hlið sæmdarréttar í íslenskum höfundalögum sem nefnist nafngreiningarréttur

Við uppsetningu Nýlistasafnsins á sýningunni Koddu, nú í vor, hafa vaknað upp ýmsar spurningar og hafa þær flestar snúið að afmörkuðu sviði höfundarréttarins, það er sæmdarréttinum. Sæmdarréttur, er hinn ófjárhagslegi réttur höfunda sem hefur yfirleitt staðið í skugga hins fjárhagslega réttar. Þessi sýning hefur vakið athygli manna á mikilvægi sæmdarréttar og því hve afmörkun hugtaksins sæmdarréttur er óljós í íslenskum lögum. Í þessum pistli verður farið yfir þá hlið sæmdarréttar í íslenskum höfundalögum sem nefnist nafngreiningarréttur. Í pistli á morgun mun svo farið yfir aðra hlið sæmdarréttarins, réttinn til höfundaheiðurs.

Í síbreytilegu samfélagi 21. aldarinnar er ekki hægt að ganga að neinu gefnu á sviði lögfræðinnar. Stafræn tækni, fjölföldun og dreifing um Internetið hefur haft slík áhrif á höfundarétt að mörgum þykir sem aðlaga þurfi þetta réttarsvið að tækni og tækifærum 21. aldarinnar. Þá hafa nýjar stefnur á sviði listanna gert það að verkum að einhverjir telja að lögbundin réttindi höfunda eigi ekki jafnvel við nú og áður fyrr.

Nú ber svo við að möguleikar á dreifingu höfundaréttarvarins efnis eru slíkir að hægt er að gera nánast allt slíkt efni aðgengilegt með örfáum músarsmellum í gegnum Internetið. Þetta býður upp á ótrúlega kosti í miðlun efnis fyrir listamenn og auðveldara aðgengi fyrir neytendur. Ókostirnir eru einnig margir, þar sem möguleikarnir á brotum á höfundarétti hafa aldrei verið meiri. Stafræn tækni býður upp á gerð nákvæmra eftirmynda listaverka með tilheyrandi tekjumissi fyrir listamenn. Þá er birting og breyting listaverka án samþykkis höfundar algengt höfundaréttarbrot á netinu enda geta eintök af verkinu verið á ferð og flugi um allan heiminn í gegnum Internetið án nokkurs eftirlits.

Ljóst er að fjárhagsleg réttindi höfunda eru þeim afar mikilvæg en erfitt verður að framfylgja þeim vegna stafrænnar eintakagerðar. Enn erfiðara verður eftirlit með ófjárhagslegum réttindum höfunda, sæmdarréttinum, sem sætir miklu áhlaupi vegna þessarar tækniþróunar. Miðlunin er orðin meiri en áður var með tilheyrandi misnotkun og eintök listaverka dreifast um allan heim án samþykkis eða vitneskju höfunda. Velta má upp þeirri spurningu hvort sæmdarréttur sé úreltur, þar sem réttur þessi er brotinn í miklu mæli án þess að neitt sé að gert. Þá sé tæknin og möguleikar á breytingum á listaverkum orðin slík að nánast er ómögulegt orðið að banna almenningi slíka iðju.

Sæmdarrétti er lýst á eftirfarandi hátt í 4. gr. íslensku höfundalaganna. Í fyrstu málsgrein segir að skylt sé, eftir því sem við getur átt, að geta nafns höfundar bæði á eintökum verks og þegar það er birt. Í annarri málsgrein segir að óheimilt sé að breyta verki höfundar eða birta það með þeim hætti eða í því samhengi, að skert geti höfundarheiður hans eða höfundasérkenni. Í þriðju málsgrein segir svo að ógilt sé afsal höfundar á rétti samkvæmt þessari grein nema um einstök tilvik sé að ræða sem skýrt eru tilgreind bæði um tegund og efni. Fyrsta málsgrein 4. greinar sér um að tryggja höfundum svokallaðan nafngreiningarrétt sem er umfjöllunarefni þessa pistils. Í annarri málsgrein 4. greinar er höfundi svo tryggður réttur til höfundaheiðurs sem fjallað verður um í næsta pistli. Þriðja málsgrein 4. greinar fjallar hins vegar um takmörkun á framsal á sæmdarrétti.

Nafngreiningarréttur höfunda (e. paternity right) telst til grundvallaréttar höfundar og tryggir það að höfundur njóti góðs af verkum sínum, hvort sem það er í formi fjárhagslegra hagsmuna eða í formi heiðurs. Höfundur á þannig rétt á að setja nafn sitt við þau verk sem hann hefur gert og skapa sér með því nafn og persónu innan listaheimsins. Þessu fylgir svo að höfundur þarf að þola gagnrýni sem verk hans verður fyrir.

Í höfundalögum segir að skylt sé að geta nafns höfundar eftir því sem við getur átt. Því er hér um að ræða skyldu sem ekki er algild enda eru flokkar og tegundir verka sem þessi lög eiga við jafnmargvísleg og þau eru mörg. Það er því mismunandi eftir tegundum verka og birtingu þeirra hvort og hvernig nafngreiningu höfundar er komið við. Auðvelt er að sjá fyrir sér nafnbirtingu höfundar á verkum sem birt eru á prenti, svo sem bækur eða hljómplötur, en hafa þarf í huga að nafngreiningarrétturinn á einnig við um list sem birt er með flutningi eða sýningu. Því getur komið upp sú staða að list sem flutt er sé ekki nafngreind höfundi eins og mælt er fyrir í lögum einfaldlega vegna þess að það á illa við þær aðstæður þar sem verkið er birt. Talið er að þegar metið er hvort um brot sé að ræða megi líta til venja sem myndast hafa við birtingu tiltekinna verka og jafnvel eðli máls í viðkomandi tilvikum. Ljóst er því að mismunandi verk njóta mismunandi mikillar verndar. Má þar nefna að rituð verk, svo sem bækur, njóta verndar í meira mæli en t.d. verk sem eru tæknilegs eðlis, eins og tölvuforrit.

Nafngreiningarrétturinn á sér svo aðra hlið sem snýr að persónu höfundar, en það er réttur höfundar til að láta verk sitt birtast nafnlaust eða undir gervinafni. Mætti því segja að hér sé um að ræða neikvæðan nafngreiningarrétt þar sem höfundur á rétt á því að láta birta verk sitt undir gervinafni eða birta það nafnlaust.

Nafngreiningarréttur er höfundum mjög mikilvægur og ætti enginn höfundur að þurfa að lenda í því að verk hans sé birt án hans nafns, nema hans kjósi svo í skjóli nafnleyndar. Erfitt er að sjá fyrir sér að þessi réttur höfunda breytist eitthvað á næstunni. Mikilvægt er að tryggja að nafn höfunda fylgi þeim verkum sem þeir skapa. Á það jafnt við um hefðbundna list og ný listasvið og hið stafræna umhverfi.

Í næsta pistli mínum mun ég fjalla um réttinn til höfundaheiðurs sem nú er í sviðsljósinu í tengslum við uppsetningu Nýlistasafnsins á sýningunni Koddu.