Ræða mín í hinu konunglega brúðkaupi

Hér má lesa ræðu mína til Vilhjálms Karlssonar, vinar míns, sem flutt verður í hinni konunglegu brúðkaupsveislu í kvöld. Hér er einnig söngtexti sem við vinir hans ætlum að gleðja veislugesti með.

Hennar hátign Elísabet drottning, hans hátign, Gréta hátign. Góðir gestir.

Ég var búinn að tala um það við veislustjórann að hann ætti að leyfa mér að tala snemma í veislunni. En það var víst ómögulegt að verða við því út af einhverjum aldagömlum siðvenjum. Við, vinir Vilhjálms, þurftum því að bíða hérna að hlusta á ömurlega tónlist og hræðilegar ræður í nokkra klukkutíma áður en röðin kom að okkur. Og þið getið rétt ímyndað ykkur hvað við höfum fundið okkur til dundurs á þessum tíma. Nú er hætt við að sú fráleita ákvörðun að banna bjór í veislunni komi rækilega aftan í hina konunglegu afturenda, því það er töluverður munur á því að drekka þrjá lítra af 5% bjór eða þrjá lítra af 14% kampavíni. En þetta er það sem þið vilduð – og þetta er það sem þið fáið.

En ekki ætla ég að vera með nein leiðindi hér. Þetta er gleðidagur. Fyrir hönd okkar, vina Vilhjálms – konunglegu lífvarðarsveitarinnar svokölluðu – óska ég brúðhjónunum innilega til hamingju með daginn. Vilhjálmur, þetta var vel gert hjá þér. Þessi stelpa er bara alls ekki slæm, jafnvel þótt þú hljótir að hafa verið að hugsa það sama og við allir í dag: Þessi systir hennar er náttúrlega miklu tökulegri.

Og Kata, okkur líst bara vel á þig. Það er ekkert víst að þetta endi í einhverju táraflóði fyrir þig. Og þú getur þó alltaf huggað þig við að það eru nákvæmlega engar líkur á því að Vilhjálmur láti hálshöggva þig, eins og sumir forvera hans gerðu við eiginkonur sínar. Það ætti að vera liðin tíð – þótt maður sé aldrei of viss. Sagan gengur víst í hringi.

Nei nei, ekki taka þetta alvarlega. Þetta er nú bara sagt í gríni. Þetta verður örugglega mjög gott hjónaband og heilbrigt í alla staði.

Það eru margar skemmtilegar sögur sem koma upp í hugann hjá okkur vinunum þegar við rifjum upp vináttu okkar við hann Vilhjálm. Þegar ég kynntist honum í skóla fannst mér hann alltaf örlítið furðulegur. Það þurfti til dæmis alltaf að kalla hann Vilhjálm, aldrei Will, Willy, Mack eða Buddy – þótt það væri reynt. Alltaf svolítið formlegur hann Vilhjálmur, að minnsta kosti svona út á við.

Og nú fylgjast tveir milljarðar manna með því þegar Vilhjálmur vinur minn smellir ástríðuminnsta kossi mannnkynssögunnar á nýbakaða og nýlega baðaða eiginkonu sína fyrir framan milljón áhorfendur. Ég segi nú bara, hvern hefði grunað þetta?

Þótt ótrúlegt megi virðast þá fannst okkur Vilhjálmur aldrei vera neitt líklegri en aðrir í vinahópnum til þess að ná árangri og skara framúr. Sumir í vinahópnum hafa reynt fyrir sér í vísindum, bókmenntum, íþróttum og listum en engum öðrum datt í hug að besta leiðin til þess að hljóta fullkomna aðdáun heimsbyggðarinnar væri einfaldlega bara að vera maður sjálfur. Þetta endalausa streð sem maður gleymir sér stundum í auðvitað algjört rugl. Vilhjálmur, svona á að lifa lífinu – að ná til æðstu metorða án metnaðar, að verða dáður án dugnaðar og virtur án mannvisku. Hvernig ferðu eiginlega að þessu? What´s the secret?

En ekki misskilja mig. Vilhjálmur er alveg hreint massafínn gaur. Hann er í raun og veru alveg ótrúlega hógvær og venjulegur náungi miðað við hvað hann á marga fræga ættingja, sem eru líka frægir fyrir að eiga fræga ættingja. Vilhjálmur er svona gaur sem hægt er að treysta á til þess að vera vinur þegar eitthvað bjátar á, nema náttúrlega það komi sér eitthvað sérstaklega illa fyrir fjölskylduna hans, þá verður hann skiljanlega að distansera sig frá okkur. En það er allt í lagi, við, vinir hans vitum reyndar líka ýmislegt um hann sem væri nú ekki beint gaman að fréttist í fjölmiðlunum – er það ekki, ha?

Nei ég segi nú bara svona. Vilhjálmur, við elskum þig. Þú ert bara helvíti fínn gaur sem hefur náð ótrúlega langt bara með því að vera þú sjálfur. Ég meina, er það ekki eitthvað?

Jú – það er sko eitthvað. Hugsið ykkur til dæmis muninn á Vilhjálmi og Donald Trump. Hann hefur komist mjög langt líka, en er auðvitað algjör asni. Já – eða Lady Gaga – hún hefur náð langt með þvi að vera ekki hún sjálf. Er það eitthvað betra? Skál fyrir því.

Vilhjálmur. Það er sama hvað allir segja. Elsku vinur. Þú átt þetta skilið maður. Sumir segja að þú sért bara heppinn og hafir fengið allt upp i hendurnar og ef þú hefðir ekki fæðst inn í þessa fjölskyldu þá værirðu kannski í besta lagi markaðsstjóri hjá símafyrirtæki í Leeds. En það er bara alls ekkert víst. Kannski værirðu búinn að safna her og gera byltingu í Bretlandi og hefðir komið sjálfum þér til valda. Þú veist. Það er bara engin leið að segja til um það.

Og þá segi ég bara við alla þá sem öfunda Vilhjálm af því að vera prins. Hefðuð þið frekar viljað að hann hefði fæðst einhvers staðar blásnauður og þurft að safna herliði og sigra breska herinn með tilheyrandi mannfalli til þess að komast í þá stöðu sem hann er núna? Kannski milljón manns hefðu dáið? Hefðuð þið viljað það, ha? Nei – ég hélt ekki.

Vilhjálmur – ég segi bara skál! Þú átt þetta skilið.

Kæru brúðhjón.

Þetta er dýrðardagur og verður lengi hafður í minnum hjá okkur vinum hans Vilhjálms. Að lokum ætlum við vinir þínar að halda á lofti ágætri hefði sem við félagarnir höfum alltaf þegar einhver úr hópnum giftir sig. Það er að syngja – með nýjum texta hið klassíska lag: Draumur um Nínu. Ég bara að vona að allir séu léttir á því hérna og séu ekki að taka sig alltof hátíðlega – eða séu eitthvað sérstaklega viðkvæmir. Þetta er bara allt gert í góðu grínu.

Strákar! Allir á sviðið. Skál!

Draumur um Keidí.

Núna ertu hjá mér Keidí?
Og núna þú ert orðin lady.
Ó, kysstu veldissprotann, Keidí
Því þú veist að ég á fullt af sénsum
ég á fullt af, fullt af sénsum
Þó ég sé bú´nað giftast þér.

Það er sárt en algjör staðreynd
að þótt þú sért sæt og alveg bráðgreind
þá finnast freistnir prinsa víða
Og ég veit að ég á fullt af sénsum
ég á fullt af, fullt af sénsum.
Ef þú ekki kyssir sprotann minn.

Þegar bláa blóðið kraumar í mér
skaltu vera klár
Þótt þitt rauða sé þá kannski heldur þunnt
Því að kóngakyn á rétt á
betri þjónustu
Er ég vakna…
Keidí, þú þarft þá að liggja niðri gleið
Opna augun
sinna hvötum prinsins þíns um leið.

Í æðum mínum blóðkorn blá
munu mæta þínum rauðu þá.
Verða börnin okkar þá fjólublá?

Latest posts by Þórlindur Kjartansson (see all)

Þórlindur Kjartansson skrifar

Þórlindur var fyrsti og lengi vel eini lesandi Deiglunnar. Hann hóf að skrifa á Deigluna í mars árið 2000.