Tökum skrefið út úr skugganum

Á föstudaginn langa fyrir ári síðan skrifaði ég á þessum vettvangi um nauðsyn þess fyrir okkur sem þjóð að stíga út úr skugga þess doða og þeirrar örvæntingar sem að öllu hefur ráðið í íslensku samfélagi frá því haustið 2008 og inn í ljóstýru framtíðarinnar. Síðan þau orð voru skrifuð hefur þjóðin hins vegar verið kyrfilegar fjötruð í hlekki fortíðarinnar og þannig meinað að takast á við það brýna verkefni að sýna framtíðinni ræktarsemi.

Innra mig loksins angrið sker,
æ, hvað er lítil rækt í mér.

-Hallgrímur Pétursson

“Æ, hvað er lítil rækt í mér” Þetta andvarp sr. Hallgríms Péturssonar læsti sig í huga mér við lestur Passíusálmanna fyrir skemmstu. Þetta einlæga andvarp er nokkuð sem að er sammannlegt að því leyti að það leitar sér farvegs í huga okkar allra á einhverjum tímapunkti. Það getur varðað vanrækslu innri mála okkar sjálfra, vanrækslu á tengslum okkar við annað fólk eða vanrækslu gagnvart skyldum okkar í fjölskyldulífi eða starfi, svo fátt eitt sé nefnt. Ekkert er í raun undanskilið slíkri djúpstæðri ógeðistilfinningu á eigin framtaksleysi, vanmætti eða hyggjuleysi. Oftar eru þetta atriði sem að eru á okkar valdi að greiða úr en svo er þó ekki alltaf. Það góða við þetta angistarandvarp sálarinnar er þó kannski það að fyrsta skrefið til úrbóta er í því fólgið. Í réttum skömmtum er þetta því öllum hollt og jafnvel þarft.

Þessa tilfinningu má með góðu móti yfirfæra á samfélagið. Á föstudaginn langa fyrir ári síðan skrifaði ég á þessum vettvangi um nauðsyn þess fyrir okkur sem þjóð að stíga út úr skugga þess doða og þeirrar örvæntingar sem að öllu hefur ráðið í íslensku samfélagi frá því haustið 2008 og inn í ljóstýru framtíðarinnar. Síðan þau orð voru skrifuð hefur þjóðin hins vegar verið kyrfilegar fjötruð í hlekki fortíðarinnar og þannig meinað að takast á við það brýna verkefni að sýna framtíðinni ræktarsemi.

Mér féllust algjörlega hendur yfir þeirri umræðu sem að fram fór í aðdraganda þjóðaratkvæðagreiðslunnar um Icesavesamninginn nú fyrir skemmstu. Verulegur hluti þeirrar umræðu var á slíku plani að sorglegt var upp á að horfa og sú heift sem að braust fram hjá grandvarasta fólki upp úr og niður úr lifrófi stéttastigans var uggvænleg. Það sem veldur örvæntingunni er þó það að hér var því miður ekki um einangrað dæmi að ræða. Sami stíll er yfir svo mörgu öðru sem að tengist okkar nánustu fortíð. Efi, vantraust, heift sem jaðrar við hreint og beint hatur, skeitingarleysi um staðreyndir og fleira í þeim dúr er þar ráðandi og yfirveguð umræða þar sem að almenn skynsemi og málefnaleg úrvinnsla fær að stýra för er afskaplega fágæt. Þetta smitar síðan yfir í alla umræðu um málefni nútímans og gerir það að verkum að opinber umræða minnir oft mest á mann sem að hrærir sífellt upp í sama pollinum til þess eins að sjá hann gruggast. Það er fullkomlega skiljanlegt að doði, vantraust, reiði og fleiri tilfinningar í þeim dúr ráði för í íslensku samfélagi miðað við það sem að hefur gengið á. Til lengdar eru þær þó skaðlegar samfélaginu og til þess eins fallnar að stuðla að kyrrstöðu og fólksflótta. Að lokum ofbýður þorra fólks og leitar sér að mannvænlegra samfélagi.

Við sem þjóð verðum að hafa kjarkinn til þess að stíga út úr myrkri fortíðarinnar, kasta syndunum aftur fyrir okkur og stíga fyrsta skrefið til móts við framtíðina. Við verðum að vængstýfa þau öfl sem að ala á sundrungu, hatri, vantrausti og afvegaleiða alla umræðu af braut almennrar skynsemi. Stærsta verkefni þessarar þjóðar er að hafna slíkum öflum og hefjast handa við þá vinnu að byggja hægt og hljótt upp samfélag þar sem að traust, almenn skynsemi, hófsemi og samkennd ráða för að nýju. Fortíðinni breytum við ekki og eins mikilvægt og það er að draga lærdóm af þeim mistökum sem að þar voru gerð og að standa að einhvers konar uppgjöri gagnvart því þá megum við ekki gera það á kostnað framtíðarinnar. Hún er það eina sem að við eigum með sanni og hana getum við mótað þannig að hún verði okkur til góða. Grípum angistarópið sem að sker í eyru íslensk samfélags og einhendum okkur í það verkefni að sýna framtíðinni ræktarsemi.

Megum við öll eiga góða páskahátíð minnug þess hvernig ljósið sigraði hið máttuga myrkur