„Hann er #$%&* glæpamaður!“

Eitt skýrasta merki þess að samfélag sé undirorpið kúgun og ofstopa er þegar refsingum er útdeilt án réttarhalda. Mannorðsmorð þykir ekki lengur sæta tíðindum en er bara ein tegund refsinga án dóms og laga, sem brúkað er af hinum almenna borgara. Hvers vegna erum við svo fljót að dæma? Mögulega vegna þess að óvissan er óþægileg. Það er mun auðveldara að ásaka en að kljást við efa. Það er þægilegra að geta sagt „Ég veit“ heldur en „Ég veit ekki.“ Og meðan fingurinn bendir á einhvern annan bendir enginn á mann sjálfan og þann breyskleika sem við öllum höfum sjálf að geyma.

Eitt skýrasta merki þess að samfélag sé undirorpið kúgun og ofstopa er þegar refsingum er útdeilt án réttarhalda. Mannorðsmorð þykir ekki lengur sæta tíðindum en er bara ein tegund refsinga án dóms og laga, sem brúkað er af hinum almenna borgara.

Þeim sem borinn er sökum ber almennt ekki að sanna að hann sé saklaus, heldur ber þeim sem ásakar hann að sanna að hann sé sekur. Að gera ráð fyrir sakleysi, frekar en sekt, er hvort tveggja rökrétt og réttlátt. Þetta er að sama skapi nauðsynlegt í frjálsu samfélagi enda kemur það í veg fyrir misnotkun á völdum og treystir réttarríkið. ,,Saklaus uns sekt er sönnuð” er einn af hornsteinum réttarkerfisins okkar, en sú hugsjón virðist oft ekki ná út fyrir veggi dómssalarins. Í fjölmiðlum er þannig í mörgum tilfellum fjallað um fólk sem hefur verið sakað um afbrot eins og það komi ekki annað til greina en að viðkomandi hafi af eindregnum vilja, illsku og sjálfselsku framið hvaða þann glæp sem um ræðir. Ásökunin ein nægir til sakfellingar af dómstóli götunnar.

Hvers vegna erum við svo fljót að dæma? Mögulega vegna þess að óvissan er óþægileg. Það er mun auðveldara að ásaka en að kljást við efa. Það er þægilegra að geta sagt „Ég veit“ heldur en „Ég veit ekki.“ Og meðan fingurinn bendir á einhvern annan bendir enginn á mann sjálfan og þann breyskleika sem við öllum höfum sjálf að geyma.

Nú er það svo að hvert og eitt mannsbarn á fjölskyldu og/eða aðstandendur sem hljóta í öllum tilfellum að fara í gegnum ákaflega sárt og erfitt ferli þegar ástvinur þeirra liggur undir þungum sökum. Það er eitthvað sem enginn á að þurfa að ganga í gegnum, en verður ekki komist hjá. Það er hins vegar hægt að komast hjá því að valda þessu saklausa fólki þeirri yfirþyrmandi þjáningu að sjá nafn ástvinar þeirra að óþörfu dregið í gegnum forarpytt af uppnefningum, aðdróttunum og ýkjum, allt í því skyni að hafa eitthvað til að smjatta um í kaffipásunni eða til að selja fleiri dagblöð.

Frelsi og lýðræði verða ekki varin með vopnum heldur með hugmyndum og samræðum. Þess vegna er nauðsynlegt að vernda frjálsar umræður og hvetja til þeirra. En það þýðir ekki að það sé í lagi að tala hvernig sem er um einstaklinga sem liggja undir grun um afbrot og að þyngja byrðina sem liggur á aðstandendum þeirra með óvægnum og illgjörnum hætti til þess eins að veita sjálfum sér og öðrum stundargaman. Slíkt er varla samfélag sem við getum verið stolt af að búa í. Hver einn og einasti einstaklingur á rétt á sanngjarni málsmeðferð og að fá úrskurð þar til bærra yfirvalda um sekt eða sakleysi sitt. Höfum það í huga áður en við hengjum menn á götum úti fyrir það eitt að vera ásakaðir um afbrot.