Hvað klikkaði hjá OR?

Forsvarsmenn OR og borgarinnar staðfestu á dögunum það sem lengi hefur verið vitað, að fyrirtækið stendur illa. Nú er hins vegar svo komið að þetta öfluga fyrirtæki fær ekki aðgang að lánsfé erlendis og eigendur þess, þ.e. skattgreiðendur, þurfa að fjármagna fyrirtækið. Þrátt fyrir þetta sendi OR frá sér fréttatilkynningu í desember sl. um að staðan væri jákvæð og sterk. Hvað gerðist þarna í millitíðinni?

Örlög Orkuveitu Reykjavíkur eru að mörgu leyti svipuð og annarra stórra íslenskra fyrirtækja að undanförnu; áhættusækni, útþensla og gríðarlegar lántökur, allt hlutir sem litu vel út og voru mærðir á sínum tíma, eru nú að koma í bakið á eigendunum og þar með skattgreiðendum í þeim sveitarfélögum sem standa á bak við fyrirtækið.

Það hefur raunar margoft komið fram mikil gagnrýni á umsvif fyrirtækisins utan hefðbundinna verkefna. Risarækjueldi, gagnaveita, þátttaka í virkjanaáformum erlendis eru dæmi um verkefni sem hafa verið umdeild en engu að síður lifað nokkuð sjálfstæðu lífi innan Orkuveitunnar enda hefur ekki komið skýrlega fram áður hve alvarleg staða fyrirtækisins sé. Það sem vonandi fæst út úr þessum þrengingum sem fyrirtækið og þar með borgin standa frammi fyrir er að hlutverk fyrirtækisins verði tekið til endurskoðunar, þannig að fyrirtækið fái skýrt afmarkað hlutverk við að selja almenningi orku en dragi sig út úr öðrum verkefnum. Það er ekki verjandi að hafa í gangi tilraunastarfsemi í einstökum verkefnum á kostnað hins opinbera, eins og nýr forstjóri OR hefur reyndar tjáð sig um.

Aftur á móti hefur alltaf verið ljóst að Orkuveitan, óháð misgæfulegum tilraunaverkefnum hverju sinni, er gríðarlega öflugt fyrirtæki með sterka bakhjarla. Af þessum sökum hefur í flestum tilfellum verið hægt að koma í veg fyrir krísur eins og þær sem nú eru uppi með því að fjármagna starfsemina áfram með endurnýjun lána eða töku nýrra lána. Tekjur fyrirtækisins eru traustar og eignirnar miklar.

Því var óvænt að heyra fréttir af því að fyrirtækið væri nú komið í þá stöðu að ekkert erlent fjármagn stæði lengur til boða. Kröfuhafarnir vildu ekkert frekar gera. Alls vantaði um 50 milljarða á næstu 5 árum inn í fyrirtækið til að það gæti lifað af og miðað við tillögu meirihlutans þurfti til að koma víkjandi lán eiganda upp á 12 milljarða króna á þessu tímabili sem ekki verður byrjað að greiða til baka fyrr en eftir fimm ár.

Staðan er samkvæmt þessum upplýsingum grafalvarleg. Pólitíska hliðin á málinu var svo sú að meirihlutinn í Reykjavíkurborg taldi fyrirtækið hafa verið skilið eftir af fyrrverandi meirihluta í slíkum vandræðum að því yrði ekki viðbjargað. Hinn nýi meirihluti væri að taka við þvílíkum erfiðleikum (reyndar um ári eftir að hann tók við) að það yrði að bregðast svona við.

Það má í þessu samhengi rifja upp að síðasta sumar réðst Orkuveitan út í ákveðnar aðgerðir með hækkun gjaldskrár og fækkun starfsmanna. Í reynd voru þær aðgerðir hin fyrstu viðbrögð nýja meirihlutans í borginni og ekki var annað á þeim að heyra en að vel hefði til tekist. Þannig talaði fyrirtækið sjálft líka og til að mynda er áhugavert að benda á þessa frétt frá því í desember 2010, þar sem fjallað er um að OR hafði nýlokið 5 milljarða króna skuldabréfaútboði, sem tókst vel og er þar haft eftir þáv. forstjóra fyrirtækisins að staðan sé býsna sterk. Þannig kemur fram í fréttatilkynningunni sem fyrirtækið samdi við þetta tilefni, nánar til tekið þann 17. desember 2010, að staðan sé býsna góð:

„Þetta er til marks um að sá uppskurður á rekstrinum, sem gripið var til í sumar, er að skila sér í aukinni tiltrú innlendra fjárfesta á fyrirtækinu,“ segir Helgi Þór Ingason forstjóri OR. Aðgerðirnar sem Helgi vísar til eru gjaldskrárbreytingar, harkalegur niðurskurður rekstrarútgjalda og eignasala, sem ákveðnar voru af stjórn OR 27. ágúst sl., og sú ákvörðun eigendafundar 17. september sl., að falla frá arðgreiðslum.

Enn fremur kemur fram að fjárfestar og aðrir aðilar hafi brugðist vel við aðgerðunum frá því fyrr um sumarið:

„Í aðdraganda útboðsins voru áhrif þessara aðgerða til lengri og skemmri tíma kynnt fyrir aðilum á fjármálamarkaði og jákvæð viðbrögð þeirra eru staðfest með góðum árangri í útboðinu,“ segir Helgi Þór.

Með aðgerðunum var aukinn áhersla lögð á kjarnastarfsemi Orkuveitu Reykjavíkur, þ.e. veitureksturinn á suður- og vesturhluta landsins. Verulega var dregið úr umfangi annarra verkefna, þau lögð af eða falin öðrum. Helgi Þór segir að aðgerðirnar hafi tekist prýðilega að því leyti að rekstrargjöld hafi sparast án þess að það hafi bitnað á grunnþjónustunni. Þess hafi ekki orðið vart, í það minnsta ekki enn sem komið er.

„Lykilatriði í þessum góða árangri eru skörp sameiginleg sýn stjórnar fyrirtækisins og eigenda á forgang grunnþjónustunnar og almenn þátttaka starfsfólks OR við að finna tækifæri til hagræðingar í rekstrinum,“ segir Helgi Þór.

Engu að síður koma forystumenn borgarinnar fram 3-4 mánuðum síðar og tilkynna um að fyrirtækið sé í neyð. Óneitanlega vaknar sú spurning hvað hafi gerst þarna í millitíðinni?

Í greinargerð með aðgerðaráætluninni sem var kynnt á dögunum er rakið í hvað röð hlutirnir gerðust. Þannig segir að þann 10. janúar 2011 hafi stjórn OR samþykkt að óska eftir samráði við eigendur um fjármögnun fyrirtækisins vegna „krefjandi aðstæðna við rekstur og fjármögnun“. Þetta er svolítið sérkennilegt í ljósi þess að þremur vikum áður – og í reynd sennilega bara fáeinum vinnudögum áður því þarna á milli voru jól og áramót – hafði komið fram yfirlýsing um að staða fyrirtækisins væri sterk og aðilar á fjármálamarkaði væru jákvæðir. Aðstæðurnar eru hins vegar orðnar „krefjandi“ örskömmu síðar. Hvað gerðist þarna í millitíðinni?

Eitt af því sem er nefnt í kynningarefni með aðgerðaráætluninni er skýrsla frá HF Verðbréfum sem hafði það verkefni að yfirfara stöðu fyrirtækisins. Helstu niðurstöður fyrirtækisins eru aðgengilegar en þær voru kynntar forsvarsmönnum OR í janúar. Þegar sú skýrsla er lesin er ljóst að tekið hefur verið mið af þeim tillögum við töku ákvarðana um framhaldið. Þar segir að miðað við nýjustu spár verði lausafjárstaða félagsins nálægt hættumörkum í apríl og það vantar um 2,5ma í júní. „Vandamálið eykst stig að stigi og fyrirtækið þarfnast rúmlega 11ma á árinu til að endar nái saman.“

Aftur á móti er tekið fram í niðurstöðum HF Verðbréfa að „þær skoðanir og spár sem hér koma fram eru byggðar á upplýsingum sem HFV hefur undir höndum þegar efnið er ritað. Helstu heimildir eru ársskýrslur, afkomuspár og önnur yfirlit fengin frá stjórnendum OR auk annarra aðgengilegra opinberra upplýsinga sem birst hafa í fjölmiðlum og á öðrum vettvangi.“

Það sem sagt þurfti til utanaðkomandi ráðgjafa til að lesa yfir ársreikninga, opinberar upplýsingar og skýrslur fyrirtækisins til að átta sig á því hve alvarleg staðan var? Hvernig stendur á því að fyrirtækið sjálft tók ekki eftir þessu og hafði nokkrum vikum áður lýst því yfir að staðan væri sterk? Í fyrirtæki af stærð Orkuveitunnar skiptir væntanlega miklu máli hvernig staðan er metin hverju sinni, þ.e. hvort stjórnendur fyrirtækisins telji hana sterka eða erfiða. Þess má geta að í HF Verðbréfum starfa alls 7 starfsmenn en hjá OR vinna 520 manns. Ekki verður betur séð en að menn hafi lesið eitthvað vitlaust í kortin.

Árni Helgason skrifar

Árni hóf að skrifa á Deigluna í ágúst 2006.