Hugrænt misræmi Jóhönnu

Fyrr í vikunni komst kærunefnd jafnréttismála að þeirri niðurstöðu að jafnréttislög hafi verið brotin þegar forsætisráðuneytið skipaði skrifstofustjóra hjá skrifstofu stjórnsýslu – og samfélagsþróunar. Málið er hið vandræðalegsta fyrir Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra, þar sem hún hefur verið einn helsti talsmaður jafnréttislaganna og gagnrýnt aðra ráðherra fyrir að virða þau ekki. Í því samhengi er athyglisvert að skoða hvernig fyrirbærið hugrænt misræmi (e. cognitive dissonance) birtist hjá Jóhönnu í þessu máli.

Fyrr í vikunni komst kærunefnd jafnréttismála að þeirri niðurstöðu að jafnréttislög hafi verið brotin þegar forsætisráðuneytið skipaði skrifstofustjóra hjá skrifstofu stjórnsýslu – og samfélagsþróunar. Málið er hið vandræðalegsta fyrir Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra, þar sem hún hefur verið einn helsti talsmaður jafnréttislaganna og gagnrýnt aðra ráðherra fyrir að virða þau ekki. Í því samhengi er athyglisvert að skoða hvernig fyrirbærið hugrænt misræmi (e. cognitive dissonance) birtist hjá Jóhönnu í þessu máli.

Það er stundum kostulegt að fylgjast með stjórnmálum. Í dag eru margir íslenskir stjórnmálamenn í þeirri stöðu að hafa farið úr stjórnarandstöðu í stjórn og öfugt. Það býður upp á mörg tilvik þar sem stjórnmálamenn tala á skjön við það sem þeir hafa áður gert. Það á eins við um stjórnmálamenn og fólk almennt, að í slíkum tilvikum reynir fólk að réttlæta það fyrir sjálfum sér og öðrum.

Jóhanna hefur sjálf sagt að ákvörðunin um að ráða Arnar Þór Másson hafi verið fagleg og sérfræðingar hafi staðið að henni og þar með sé hún ekki sammála úrskurði kærunefndarinnar. Árið 2004 kom svipað mál upp þegar kærunefndin taldi að Björn Bjarnason, þáverandi dómsmálaráðherra, hefði brotið gegn jafnréttislögunum. Við það tilefni sakaði Jóhanna Björn um vankunnáttu á jafnréttislögum og sagði að hjá flestum lýðræðisþjóðum hefði ráðherra sem svo gróflega hefði brotið lög verið látinn fjúka. Í dag stendur því Jóhanna frammi fyrir því að réttlæta skoðun sína og hegðun sem er þvert á það sem var árið 2004. Í hennar huga eru tilvikin ekki sambærileg og hún leitar leiða til að réttlæta þá skoðun sem hún hefur í dag.

Í félagslegri sálfræði er til hugtak yfir það fyrirbæri sem lýst er hér er ofan og kallast það hugrænt misræmi (e. cognitive dissonance). Leon Festinger setti fyrstur fram kenninguna um hugrænt misræmi árið 1957 en síðan þá hafa margir aðrir fræðimenn breytt henni og bætt. Kenningin er almennt talin ein af þeim mikilvægari í félagslegri sálfræði og telja sumir hana vera eitt mesta afrek félagslegrar sálfræði.

Hugrænt misræmi er nokkurs konar óþægindi eða ósamræmi sem fólk upplifir þegar viðhorf þeirra og hegðun fara ekki saman. Það verður til vegna þess að almennt leitast fólk við að hafa samræmi milli hugrænna þátta, en þá er átt við til dæmis viðhorf, skoðanir, gildi og hegðun. Ef eitthvað verður til þess að misræmi myndast milli þessara hugrænu þátta þá upplifir fólk einskonar sálfræðileg óþægindi, eða ósamræmi. Með því að endurskipuleggja hugrænu þættina sem minnst var á áðan, kemst samræmi aftur á (Festinger, 1957).

Klassískt dæmi um hugrænt misræmi er það að reykja sígarettur. Einstaklingur hefur þá skoðun eða þekkingu að reykingar skaði heilsu fólks, hegðun hans er samt á þann veg að hann reykir sígarettur. Þetta skapar misræmi. Þrjár leiðir eru færar til að draga úr misræminu. Í fyrsta lagi að breyta hegðuninni, þ.e. hætta að reykja, í öðru lagi að draga úr mikilvægi skoðunarinnar eða þekkingarinnar, þ.e. gera lítið úr þeim rannsóknum sem sýna fram á skaðsemi reykinga og svo í þriðja lagi að bæta við fleiri skoðunum eða viðhorfum sem réttlæta misræmið, þ.e. að segja sjálfum sér að hann reyki svo lítið eða hann reyki bara light sígarettur.

Síðasta leiðin er sú algengasta sem fólk beitir, oft án þess að gera sér grein fyrir því. Hugrænt misræmi er svo stór partur af tilveru okkar flestra að við tökum varla eftir því. Fólk beitir sjaldnast fyrstu og róttækustu leiðinni til að leiðrétta misræmið, þó að hún sé árangursríkust.

Hugrænt misræmi ætti því ekki síður að vera algengt hjá stjórnmálamönnum þar sem þeir er jú eftir allt saman mannlegir. Þá komum við aftur að Jóhönnu Sigurðardóttur. Jóhanna stendur frammi fyrir þessari skoðun sinni: Ráðherrar sem brjóta jafnréttislögin eiga að segja af sér og svo þeirri hegðun sinni að hafa brotið jafnréttislögin en ætla ekki að segja af sér. Þetta orsakar hugrænt misræmi og það reynir Jóhanna eðlilega að leiðrétta. Hún gæti því í fyrsta lagi breytt hegðun sinni og sagt af sér, hún gæti í öðru lagi dregið úr mikilvægi skoðunar sinnar, t.d. með því að segja ekki væri alltaf nauðsynlegt að segja af sér og tilvik væru mismunandi og í þriðja lagi gæti hún bætt við nýjum skoðunum eða viðhorfum, t.d með því að segja að hennar leið hafi verið rétt, að kærunefndin hafi ekki komist að réttri niðurstöðu og svo framvegis.

Fréttir undanfarna daga sýna að Jóhanna hefur fyrst og fremst beitt leiðum tvö og þrjú til að leiðrétta misræmið og ekki róttækustu leiðinni. Jóhanna hefur sagt að hún telji ekkert tilefni til afsagnar, að faglega hafi verið staðið að ráðningunni og að samanburðurinn við tilvikið árið 2004 sé engan veginn ásættanlegur. Jóhönnu hefur því tekist að draga úr misræminu og þeim sálfræðilegum óþægindum sem það hefur valdið.

Hugrænt misræmi er áhugavert fyrirbæri og hefur verið mikið rannsakað (t.d. Festinger og Carlsmith, 1959) og einnig í sambandi við kosningahegðun (t.d. Mullainathan og Washington, 2009). Hér hefur ekki verið reynt að benda á hvað er rétt eða hvað er rangt varðandi ráðningu forsætisráðuneytisins, heldur aðeins að benda á hvernig má beita félagslegri sálfræði til að útskýra heim stjórnmálamanna. Hér er ekki heldur reynt að halda því að fram að Jóhanna Sigurðardóttir sé eina dæmið um stjórnmálamann sem hefur upplifað hugrænt misræmi. Dæmin eru fjölmörg.

Dæmið um Jóhönnu blasir bara svo augljóslega við.

Heimildir:
Festinger, L. (1957). A theory of cognitive dissonance. Stanford, CA: Stanford University Press.
Festinger, L. og Carlsmith, J.M. (1959). Cognitive consequences of forces compliance. Journal of Abnormal and Social Psychology, 58, 203-210.
Mullainathan, S. og Washington, E. (2009). Sticking with your vote: Cognitive dissonance and political attitudes. American Economic Journal: Applied Economics, 1 (1), 86-111.

Latest posts by Helga Lára Haarde (see all)

Helga Lára Haarde skrifar

Helga Lára hóf að skrifa á Deigluna í ágúst 2006.