Við elskum þessar reglur

Á Íslandi er ríkisvaldinu skipt í þrennt; löggjafarvald, dómsvald og framkvæmdavald. Hvað gerist þegar ein stoðin grefur undan annarri?

Hver er tilgangurinn með því að hafa stjórnvöld? Fyrirbærið er svo sjálfsagt að fæstir hafa líklegast spurt sig þessarar spurningar.

Viðtekin skoðun er að einn megintilgangur stjórnvalda í vestrænum lýðræðisríkjum er að vernda hin ýmsu réttindi þegna sinna; réttindi á borð við tjáningarfrelsi, fjölmiðlafrelsi, trúfrelsi og skoðanafrelsi. Þessi réttindi eru bundin í lög og valdið afhendum við yfirvöldum með lögum.

En völdum fylgir ábyrgð. Ef allt vald stjórnvalda er á einni hendi er hætt við ofríki; að viðkomandi land verði að landi kúgunar. Á þessum grunni byggja hugmyndir um þrígreiningu ríkisvaldsins, sem alla jafna eru tileinkaðar franska stjórnspekingnum Montesquieu. Íslensk stjórnskipun er byggð á þessari forskrift: Ríkisvaldinu er skipt niður í löggjafarvald (Alþingi, sem setur lög), framkvæmdavald (ráðherrarnir og ráðuneyti þeirra, sem framkvæma lögin) og dómsvald (dómstólarnir, sem túlka lögin og skera úr um vandamál sem koma upp). Stoðirnar þrjár tempra svo hver aðra, svo að engin ein þeirra verði of valdamikil. Á þessu byggir stjórnarskrá okkar og stjórnskipan.

Hvers vegna þessi yfirferð yfir þetta grundvallaratriði sem allir ættu að þekkja?

Í fáum orðum má setja að hér sé varpað fyrir borð flestum þeim grundvallarreglum refsiréttarins sem okkur hafa verið innrættar og sem eru uppistaðan í hegningarlöggjöf flestra menningarlanda. Reglan nulla poena sine lege [engin refsing án laga] er strikuð út og analógíubannið afnumið [bann við lögjöfnun; að beita lagaboði sem lýtur að tilteknu efni um sambærileg tilvik]: Hér er ekki aðeins dæmt eftir lögum heldur líka samkvæmt „gesundes Volksempfinden“ [„heilbrigðri tilfinningu fólksins“] og ef þetta tvennt rekst á ræður hið síðarnefnda.

Gunnar Thoroddsen um réttarkerfið í Þýskalandi í undanfara seinni heimsstyrjaldarinnar.
Úr Gunnar Thoroddsen – Ævisaga, eftir Guðna Th. Jóhannesson (2010), bs. 99.

Hljómar þetta kunnuglega?

Dómarar standa reglulega frammi fyrir því að þurfa að endurskoða ákvarðanir stjórnvalda í því skyni að gæta þess að farið hafi verið að lögum. Sá réttur dómstóla er óumdeildur í íslenskri stjórnskipan og má finna í 61. gr. stjórnarskrárinnar: “Dómendur skera úr öllum ágreiningi um embættistakmörk yfirvalda.” Samt sem áður hefur sú ríkisstjórn sem nú situr ekki veigrað sér við að vega að dómstólum og dómurum á Íslandi að undanförnu, eins og til dæmis má sjá hér, hér og hér. Það getur ekki verið auðvelt að vera dómari í slíku umhverfi, vitandi að hver ákvörðun sem þú tekur í starfi þínu verði mögulega opinberlega hædd og dregin í efa af sitjandi valdhöfum. Er það ekki síst vegna þess að dómstólar eru öðruvísi en hinar tvær stoðirnar – þeir endurspegla ekki vilja meirihlutans á hverjum tíma og er ekki ætlað að gera það. Dómari er þannig frábrugðinn löggjafanum, að því leyti að dómari á ekki að hafa áhyggjur af pólitískum afleiðingum gjörða sinna, heldur á hann eingöngu að byggja á lögunum. Hann skal vera hlutlaus og sanngjarn, og ekki leyfa öðrum að hafa áhrif á sig. Eða með orðum William Rehnquist, fyrrum forseta Hæstaréttar Bandaríkjanna: „Dómarar verða í fremstu lög að gera það sem er lagalega rétt, og enn þá heldur þegar niðurstaðan er ekki sú sem fólkið heima óskar sér”.

Afleiðingar þess að ein stoðin grafi undan annarri eru þannig ekki léttvægar. Valdahlutföll þrígreiningarinnar skekkjast, fleiri vegir opnast fyrir geðþóttaákvarðanir yfirvalda, og réttaríkið tapar. Misnotkun stjórnvalda á völdum sínum er svo alvarlegt fyrirbrigði að alvarlegustu glæpir heimssögunar, á borð við þrældóm og þjóðarmorð, má í óramörgum tilfellum rekja beint til þess. Jafnvel þó að slíkt sé langt undan á Íslandi er ástæða til að staldra við þegar komið er á brautina. Á einhverjum tímapunkti gætum við verið farin að spyrja okkur hvað skuli til bragðs taka, nú þegar enginn gætir varðanna?

Annað sem sitjandi valdhafar ættu að hafa í huga er að einhverntímann munu þau ekki verða við stjórn. Einhverntímann mun einhver, sem þeim hugnast ekki, sitja í ríkisstjórn Íslands, og mun sá hópur líta til fordæma í vinnubrögðum forvera sinna. Þá er eins gott að núverandi ríkisstjórn geti verið stolt af því sem hún gerði á sínum valdatíma, og að aðferðirnar séu ekki þess eðlis að þeim verði misbeitt í vafasömum tilgangi.

Ísland er byggt á lögum og það vel. Dómstólar skulu fara eftir lögunum. Alþingi skal fara eftir lögunum. Ráðherrar skulu fara eftir lögunum. Ef ríkisvaldið gerir það ekki, hvers vegan ættu almennir borgarar að fara eftir lögunum?

Við viljum búa í réttlátu réttarríki. Við elskum þessar reglur.