Vill íslenska þjóðin stjórnlagaþing eða -ráð?

Nú stefnir í að sett verði á fót stjórnlagaráð til þess að semja tilllögu að nýrri stjórnarskrá. Þetta stjórnlagaráð verður sett saman af einstaklingum sem voru, að einróma mati sex dómara Hæstaréttar, ekki löglega kosnir til verksins. Hin ólöglega kosning sem skipan stjórnlagaráðsins byggir á var jafnfram afskaplega illa sótt af kjósendum. Þá er ljóst að það er ekki þverpólitísk sátt um málið, langt í frá. Er þetta virkilega umboðið sem við viljum að byggt sé á við þetta mikilvæga mál sem ritun nýrrar stjórnarskrár er? Er ekki hægt að styrkja þetta umboð?

Nú stefnir í að sett verði á fót stjórnlagaráð til þess að semja tilllögu að nýrri stjórnarskrá. Þetta stjórnlagaráð verður sett saman af einstaklingum sem voru, að einróma mati sex dómara Hæstaréttar, ekki löglega kosnir til verksins. Hin ólöglega kosning sem skipan stjórnlagaráðsins byggir á var jafnfram afskaplega illa sótt af kjósendum. Þá er ljóst að það er ekki þverpólitísk sátt um málið, langt í frá. Er þetta virkilega umboðið sem við viljum að byggt sé á við þetta mikilvæga mál sem ritun nýrrar stjórnarskrár er? Er ekki hægt að styrkja þetta umboð?

Þegar boðað var til kosninga til stjórnlagaþings síðasta haust varð ég spenntur. Mér finnst viðfangsefnið áhugavert og mér fannst sú tilhugsun hressandi að kjósa fólk sem væri kosið eingöngu til þessa verks og myndi að því loknu hverfa aftur til sinna starfa. Mér finnst hópurinn sem var kosinn líka líta mjög vel út enda samansafn fólks með víðtæka reynslu og mér fannst líklegt að hópurinn gæti átt uppbyggilegar og spennandi umræður. Ég hef skrifað tvo pistla hér og hér um möguleika og tækifæri umræðunnar um nýja stjórnarskrár. Þess vegna var það svekkjandi þegar ákvörðunin um að ógilda kosninguna var gerð ljós. Ég held að þeir ágallar sem fundnir voru á kosningunni hafi engan veginn verið til þess fallnir að hafa áhrif á niðurstöðuna og ég held að dómurum Hæstaréttar hefði verið í lófa lagið að úrskurða kosninguna gilda en útdeila vítum í staðinn. En þegar dómarar Hæstaréttar úrskurða að kosning sé ógild þá á að fylgja því. Úrskurðurinn var gagnrýndur af mörgum fyrir að vera byggður á lagatæknilegri smámunasemi. Ef það er rétt þá gildir hið sama svo sannarlega um svar ríkisstjórnarinnar við úrskurðinum. Það að fella lögin um stjórnlagaþing úr gildi og setja ný um stjórnlagaráð, skipað af sömu einstaklingum og voru úrskurðaðir ólöglega kosnir á stjórnlagaþingið, er vanvirðing við Hæstarétt og er ekki góður grunnur að nýrri stjórnarskrá.

Eftir að Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, synjaði lögunum um Icesave-samninginn staðfestingar var ljóst að fljótlega þyrfti að halda kosningar um málið. Því kom sú hugmynd strax upp að samhliða þeim kosningum yrði kosið til stjórnlagaþings. Gallaðar kosningar yrðu leiðréttar með nýjum. Forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar hafa ekki sett fram góð rök fyrir því af hverju þetta skyldi ekki gert. Eins flókið og Icesave-málið er þá má vissulega hafa samúð með því að það er ekki gott að vinnan sem þarf til þess að mynda sér skoðun á því myndi falla í skuggann á því að velja sér einstaklinga á stjórnlagaþing. Eins og ljóst varð í haust þá krafðist sú kosning líka ansi mikillar heimavinnu.

En í stað þess að keyra lögin um stjórnlagaráð í gegn með hraði án þess að fá álit kjósenda á því mætti nýta þjóðaratkvæðagreiðsluna um Icesave til þess að fá fram skoðun kjósenda á stjórnlagaþingsmálinu líka. Af hverju ekki að leyfa kjósendum að greiða atkvæði um lausn málsins eins og það stendur nú? Með einföldum valkostum ætti að vera tiltölulega lítið mál að mynda sér skoðun og komast að niðurstöðu. Jafnframt gæti hér verið tækifæri til þess að draga fram svar þjóðarinnar við spurningu sem aldrei hefur verið spurð: Vill þjóðin stjórnlagaþing? Hugsa má sér að stilla upp atkvæðagreiðslu þar sem kjósendur hefðu þrjá valkosti:

1) Setja á fót stjórnlagaráð á þann hátt sem ríkisstjórnin leggur upp með
2) Halda sig við stjórnlagaþingshugmyndina en kjósa að nýju
3) Hætta alfarið við stjórnlagaþing eða –ráð

(Að sjálfsögðu þyrfti kosningarfyrirkomulagið að vera með færanlegu atkvæði þar sem kjósendur röðuðu fyrsta valkosti og svo öðrum til þess að meirihluti atkvæða féllu á eina hugmynd).

Með þessum hætti væri hægt að gefa kjósendum tækifæri til veita stjórnlagaráði (eða þingi) ferskt umboð. Ef það er raunverulegur vilji þjóðarinnar að fá stjórnlagaþing þá kæmi það í ljós og umboðið væri nokkuð óskorað. En skyndilausn sem er keyrð hratt í gegnum Alþingi til þess að fara í kringum úrskurð Hæstaréttar er ekki gott veganesti í leiðangurinn til að byggja upp nýtt og traustara kerfi.