Að leyfa eða leyfa ekki staðgöngumæðrun

Staðgöngumæðrun er eitt af heitustu málunum á Íslandi í dag. Málið er svosem ekki nýtt af nálinni en nýlega var lögð fram þingsályktunartillaga á Alþingi þess efnis að skipaður verði starfshópur sem undirbúi frumvarp til laga sem heimili staðgöngumæðrun á Íslandi. Á sama tíma hefur starfshópur á vegum heilbrigðisráðuneytisins komist að þeirri niðurstöðu að ótímabært sé að heimila staðgöngumæðrun hér á landi. Hver er rétta leiðin í þessu máli og er hún yfir höfuð til?

Staðgöngumæðrun er eitt af heitustu málunum á Íslandi í dag. Málið er svosem ekki nýtt af nálinni og var fjallað um hér á Deiglunni fyrir tæpu ári síðan. Nýlega var þó lögð fram þingsályktunartillaga á Alþingi þess efnis að skipaður verði starfshópur sem undirbúi frumvarp til laga sem heimili staðgöngumæðrun á Íslandi. Á sama tíma hefur starfshópur á vegum heilbrigðisráðuneytisins komist að þeirri niðurstöðu að ótímabært sé að heimila staðgöngumæðrun hér á landi. Í umræðunni eru skoðanir líka skiptar, sumir tala um að rétt fólks til að stofna fjölskyldu eigi að vernda með öllum tiltækum ráðum meðan aðrir telja staðgöngumæðrun siðlausa og jaðri jafnvel við barnasölu eða vændi.

Mörg álitamál skipta máli í umræðum um staðgöngumæðrun, bæði siðferðileg og lagaleg. Á að leyfa greiðslu fyrir það að ganga með annarra mann barn eða á einungis að leyfa slíkt í svokölluðu velgjörðarskyni? Hver er réttur staðgöngumóðurinnar og hver er réttur foreldranna? Öllum þessum spurningum og fleirum þyrftu lög um staðgöngumæðrun að svara.

Í áðurnefndri þingsályktunartillögu sem þingmaðurinn Ragnheiður Elín Árnadóttir, ásamt fleiri þingmönnum, lagði fram er gert ráð fyrir því að staðgöngumæðrun verði aðeins heimiluð í velgjörðarskyni og að ströngum skilyrðum uppfylltum. Þá er einnig gert ráð fyrir að staðgöngumóðir og verðandi foreldrar verði skyldug til að til að gera með sér bindandi samkomulag. Í þessari tillögu er því ekki gert ráð fyrir að staðgöngumóðir fái greitt fyrir framlag sitt. Verðandi staðgöngumóðir er því að gera ákveðið góðverk með því að ganga með barn fyrir aðra.

En er þörfin fyrir þessa „þjónustu“ það mikil að nauðsynlegt sé að heimila svo róttæka leið, sem staðgöngumæðrun vissulega er? Í þingsályktunartillögunni kemur fram að hugsanlega muni ekki fleiri en fimm pör eða einstaklingar hafa þörf fyrir staðgöngumæðrun á hverju ári. Eftirspurnin er því einhver þó að sá hópur sem myndi nýta sér staðgöngumæðrun á Íslandi sé ekki mjög stór.
Ragnheiður Elín tók dæmi nýlega í þættinum Ísland í dag um par sem var reiðubúið að skilja á pappírunum og konan hugðist fara í sambúð með „staðgöngumóðurinni“ og fara í gegnum tæknifrjóvgun. Þegar barnið yrði svo komið í heiminn, myndi konan taka aftur saman við mann sinn og hann ættleiða sitt eigið barn. Öfgafull dæmi sem þetta sýna að fólk er tilbúið til að ganga verulega langt í þeirri ósk sinni að eignast barn.

Ljóst er að staðgöngumæðrun er leið sem er fær, tæknilega séð og er heimil í mörgum öðrum löndum. Hún er þó til dæmis óleyfileg í öllum Norðurlandaríkjunum. Nýleg könnun Fréttablaðsins, sem birt var í blaðinu þann 22. janúar, sýndi að 85% aðspurðra eru fylgjandi því að staðgöngumæðrun verði heimil á Íslandi. Íslendingar virðast því vera nokkuð fylgjandi því að staðgöngumæðrun verði heimil, ef marka má könnun Fréttablaðsins.

Ef hægt er að tryggja að ekki sé verið að nýta sér neyð fátækra kvenna með staðgöngumæðrun, að ekki sé hægt að misnota úrræðið, að réttindi barns, foreldra og staðgöngumóðurs séu tryggð, að staðgöngumóður sé andlega undirbúin til að takast á við verkefnið, að staðgöngumóðir og foreldrar hafi gert með sér bindandi samkomulag, hvers vegna þá ekki að leyfa staðgöngumæðrun á Íslandi?

Latest posts by Helga Lára Haarde (see all)

Helga Lára Haarde skrifar

Helga Lára hóf að skrifa á Deigluna í ágúst 2006.