Að fara í manninn eða boltann

Það er ein af grunnreglum knattspyrnunnar að fara í boltann en ekki manninn þegar andstæðingurinn er á góðri leið með að sóla sig í gegnum vörnina og upp að endamörkum. Það þykir einnig vera góð þumalputtaregla í rökræðum að fara frekar málefnalega yfir hlutina og ekki eyða púðri í persónulegt skítkast en svo virðist sem fólk gleymi því gjarnan í opinberri umræðu. Nýlegt dæmi er umræðan um staðgöngumæðrun þar sem ýmsir hafa farið hamförum í einhvers konar rökræðu sem í besta falli gæti flokkast undir umræðu í upphrópunarstíl!

Það er ein af grunnreglum knattspyrnunnar að fara í boltann en ekki manninn þegar andstæðingurinn er á góðri leið með að sóla sig í gegnum vörnina og upp að endamörkum. Það þykir einnig vera góð þumalputtaregla í rökræðum að fara frekar málefnalega yfir hlutina og ekki eyða púðri í persónulegt skítkast en svo virðist sem fólk gleymi því gjarnan í opinberri umræðu. Nýlegt dæmi er umræðan um staðgöngumæðrun þar sem ýmsir hafa farið hamförum í einhvers konar rökræðu sem í besta falli gæti flokkast undir umræðu í upphrópunarstíl!

Allt hófst þetta með því að DV gróf upp grein eftir aðstoðarmann innanríkisráðherra, Höllu Gunnarsdóttur, sem hún skrifaði í Morgunblaðið árið 2007, en þar færir hún rök fyrir því að staðgöngumæðrun þar sem konunni sé greitt fyrir að ganga með barnið, sé nokkurs konar samsuða af barnasölu og vændi. Hér verður sú fullyrðing hvorki hrakin né tekið undir hana, einungis bent á að í pistlinum er skoðun þáverandi blaðamanns Morgunblaðsins og núverandi aðstoðarmanns innanríkisráðherra rökstudd. Það er þó hæpið að þessi skoðun Höllu Gunnarsdóttur hafi eitthvað með það að gera að drengurinn Jóel Færseth sé ennþá staddur í Indlandi með foreldrum sínum eftir að hafa komið í heiminn með hjálp staðgöngumóður, en svo mátti lesa út úr frétt DV um málið.

Í kjölfar fréttar DV um 3 ára gamlan pistil Höllu bárust henni svo heldur ófögur skilaboð í gegnum Facebook-síðu sína þar sem hún var m.a. kölluð “femínistatussa”. Þetta er svo sannarlega málefnalegt! Án þess að ætla að gera ómálefnalegum skilaboðunum á Facebook of hátt undir höfði er hér komið lýsandi dæmi fyrir umræðu um viðkvæm mál á Íslandi. Staðgöngumæðrun er svo sannarlega viðkvæmt mál, jafnrétti kynjanna er það líka og Evrópusambandið. Að mínu mati hefur Íslendingum reynst erfitt að tala um öll þessi mál á grundvelli málefna og raka: þeir sem eru á móti staðgöngumæðrun (eða setja einfaldlega siðferðislega spurningu við hana) eru á móti rétti fólks til að eignast börn og stofna fjölskyldu (það er efni í rökræðu út af fyrir sig hvort sá réttur sé yfir höfuð til), þeir sem vilja jafnrétti kynjanna eru femínistatussur og þeir sem eru með inngöngu landsins í ESB eru landráðamenn og föðurlandssvikarar.

Það er allt í lagi að vera ósammála og skiptast á skoðunum. Ef við værum alltaf sammála um allt myndi harla fátt gerast og hlutum væri aldrei breytt; lífið liði bara áfram í mónótónísku tómarúmi. Hins vegar ættu Íslendingar að temja sér að ræða málin á yfirvegaðan hátt, spara gífuryrðin og blóðþorstann, hvort sem talað er úr ræðustól á Alþingi, skilaboð eru send á Facebook eða pistlar skrifaðir. Einnig er gott að hafa í huga, alltaf, að öfgar í eina átt eða aðra hafa sjaldan leitt af sér margt gott; það er hinn gullni meðalvegur sem best er að feta, hvort sem það er í rökræðum eða í varnarleik í fótbolta.

Latest posts by Sunna Kristín Hilmarsdóttir (see all)

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar

Sunna Kristín hóf að skrifa á Deigluna í mars 2009.