Þeir greiða sem keyra

Víðast hvar í Evrópu hefur sú leið verið farin að byggja stór og skilvirk samgöngumannvirki sem fjármögnuð eru að mestu með vegtollum. Þegar ráðist er í slíkar framkvæmdir er oft hægt að stytta leiðir töluvert sem spara vegfarendum oftast tíma og eldsneyti. Þó er það þannig í flestum tilfellum þar sem þetta tíðkast að bifreiðareigandinn getur valið hvort ekið sé um gjaldfrjálsa vegi eða tollvegi. Þar sem aðstæður eru eins og hér er lýst er það hagur allra að ráðast í slíkar framkvæmdir og vegtollar réttlætanlegir.

Víðast hvar í Evrópu hefur sú leið verið farin að byggja stór og skilvirk samgöngumannvirki sem fjármögnuð eru að mestu með vegtollum. Þegar ráðist er í slíkar framkvæmdir er oft hægt að stytta leiðir töluvert sem spara vegfarendum oftast tíma og eldsneyti. Auk þess sem ríkið minnkar um leið atvinnuleysi, umhverfisvandamál og slysatíðni. Það gerir ríkið með framkvæmdum, styttingu vega sem leiða til minni eldsneytisnotkunar og öryggi slíkra vega. Þó er það þannig í flestum tilfellum þar sem þetta tíðkast að bifreiðareigandinn getur valið hvort ekið sé um gjaldfrjálsa vegi eða tollvegi. Þar sem aðstæður eru eins og hér er lýst er það hagur allra að ráðast í slíkar framkvæmdir og vegtollar réttlætanlegir.

Um þessar mundir liggur fyrir áætlun á borði Innanríkisráðuneytisins að leggja tollmúra á allar helstu samgönguæðar inn og út úr höfuðborgarsvæðinu. Á sama tíma og þetta liggur fyrir eru álögur á bifreiðareigendur að aukast í formi hærri eldsneytis- og bifreiðaskatta. Þetta þykir stjórnvöldum fýsilegur kostur þar sem illa árar og opinbert fé er af skornum skammti.

Vegtollar eru vissulega ekki nýmæli hér á landi, þó lítið sé um þá. Hvalfjarðargöngin sem formlega voru tekin í notkun árið 1998 eru dæmi um tollaveg. Í því tilfelli er ríkið ekki rekstraraðili ganganna heldur Spölur ehf. sem er í eigu nokkurra ríkisfyrirtækja og einstaklinga. En forsendur þeirrar framkvæmdar eru á allt öðrum grunni byggðar. Bifreiðareigendur sem ætla sér norður á land hafa val um að keyra Hvalfjörðinn sem er tollfrjáls vegur eða fara gegnum göngin. Einnig hefur verið bent á að Hvalfjarðargöngin eru nýframkvæmd, ekki breyting á vegakerfi eða breikkun vega eins og á Suðurlandsveginum.

Margir hljóta þó að spyrja sig hvort ríkið sé hreinlega að búa til atvinnubótavinnu sem almenningur þarf síðan að greiða fyrir eða er virkileg þörf á tvöföldun Suðurlandsvegar í þessu árferði? Um það er deilt og ég spyr sjálfan mig hvort framkvæmd sem þessi megi ekki bíða, að minnsta kosti útfæra á annan hátt? Því er ekki að neita að öryggi hefur verið mikið áhyggjuefni vegfarenda á undanförnum árum. Íbúar á Suðurlandi hafa aðallega byggt þær réttmætu kröfur sínar um tvöföldun á því áhyggjuefni. Svo virðist sem stjórnvöld sjái sér tækifæri í að mæta kröfunni um öryggi, þó með óviðunandi hætti.

„Þeir greiða sem keyra“, eru eflaust rök sem margir líta til en þau rök eru vart sanngjörn gagnvart landsbyggðinni ef litið er til þess að höfuðborgarbúar greiða ekki tolla innan höfuðborgarsvæðisins heldur eru þær samgöngur fjármagnaðar úr ríkissjóði. Vegtollar koma því óneitanlega verst niður á þeim sem búsettir eru rétt utan borgarmarka og sækja vinnu utan heimabyggðar og landsbyggðinni í heild sinni, þar sem öll þjónusta mun koma til með að hækka.

Þó vegtollar séu langt í frá fráleit hugmynd þar sem við á, er vart hægt að sammælast hugmyndum stjórnvalda að óbreyttu. Nú hafa ríflega 40.000 Íslendingar ritað nafn sitt við mótmæli sem Félag íslenskra bifreiðaeiganda stendur fyrir. Því er ljóst að mikil andstaða ríkir við áætlun stjórnvalda í þessum efnum. Að þessu sögðu ættu stjórnvöld að endurskoða hugmyndir sínar um vegtolla og einbeita sér að ódýrari lausnum sem bent hefur verið á. Lausnir á borð við 2+1 veg geta komið í veg fyrir tollmúra og myndu spara ríkinu töluverða fjármuni fyrir sama öryggisstaðal.

Latest posts by Janus Arn Guðmundsson (see all)