Heimastjórn í hremmingum

Útlit er fyrir að heimastjórn N-Írlands verði tímabundið svipt völdum á mánudag. Í þessum pistli er þeirri spurningu velt upp hvort sú ákvörðun sé skynsamleg og hvort ekki megi fara nýjar leiðir til lausnar vanda héraðsins.

Eftir nokkuð stormasama viku er allt útlit fyrir að norður-írska heimastjórnin verði svipt völdum tímabundið á mánudag. Ef af verður er það í fjórða skiptið sem breska ríkisstjórnin verður að grípa inn í málefni héraðsins með þeim hætti. Er vonast til að leiðtogar stjórnmálaflokka á Norður-Írlandi noti tímann sem gefst með valdsviptingunni til að ræða saman og útkljá sín ágreiningsmál, sem eru mörg og flókin.

Ég vil gerast svo djarfur að halda því fram að breska stjórnin hafi tekið ranga ákvörðun í málinu. Ég tel það farsælli lausn, þegar til lengri tíma er litið, að n-írskir stjórnmálamenn taki á vandanum eins og í öðrum lýðræðisríkjum. Sé ekki lengur grundvöllur fyrir stjórnarsamstarfinu á forsætisráðherrann, í þessu tilviki David Trimble, að rjúfa þing og boða til kosninga.

Eins og staðan ber n-írska heimastjórnin í raun aðeins ábyrgð gagnvart bresku ríkisstjórninni en ekki gagnvart kjósendum sínum. Þetta eitt er að sjálfsögðu afar óeðlilegt í vestrænu lýðræðisríki en e.t.v. skiljanlegt miðað við sérstöðu héraðsins. Þetta leiðir það hins vegar af sér að leiðtogar stjórnmálaflokkana geta að miklu leyti hagað sér að vild og ausið olíu á pólitíska elda vegna þess að þeir vita að breska stjórnin mun alltaf grípa inn í áður en allt of illa fer.

Önnur ástæða fyrir því að ég tel heppilegt að fara kosningaleiðina er einfaldlega sú að heimastjórnin hefur, eins áður segir, verið svipt völdum tímabundið þrisvar sinnum áður án þess að sjá megi að raunverulegur ávinningur hafi af hlotist. Það er kominn tími til að fara nýjar leiðir.

Bent hefur verið á að hörð kosningabarátta ? og kosningabaráttan yrði að öllum líkindum í harðara lagi ? gæti enn aukið á vanda héraðsins. Ætla megi að baráttan ýfði upp gömul sár og að öfgamenn úr báðum fylkingum ettu saman mótmælendum og kaþólikkum.

Það má að vissu leyti taka undir þetta en aftur á móti verður að spyrja hvort staðan sé eitthvað skárri nú. Staðreynd málsins er sú að undanfarna mánuði og misseri hefur lítil framför orðið í n-írskum stjórnmálum og því tími til að reyna eitthvað nýtt.

Grundvallaratriði í þessu máli öllu er framtíð Norður-Írlands. Hvort sem héraðið verður áfram hluti af Bretlandi eða Írlandi eða hlýtur sjálfstæði eru það íbúarnir sjálfir sem ráða eiga för, en ekki fulltrúar öfgahópa eða erlendra ríkisstjórna.

bjarni_olafsson@hotmail.com'
Latest posts by Bjarni Ólafsson (see all)