Stjarna ársins – fyrri hluti

Nú er árið senn á enda og ekki er annað hægt að segja, en að það hafi verið viðburðaríkt. 2010 verður minnst fyrir margar sakir og mismunandi eftir því hver á í hlut. Líkt er þó með 2010 og árunum þar á undan, að hvert ár á sínar stjörnur sem sköruðu fram úr eða voru einstaklega eftirminnilegar á árinu. Það er gamall siður að setja saman lista yfir þá einstaklinga sem þykja skara fram úr á árinu eða vera stjörnur ársins.

Nú er árið senn á enda og ekki er annað hægt að segja, en að það hafi verið viðburðaríkt. 2010 verður minnst fyrir margar sakir og mismunandi eftir því hver á í hlut. En líkt er þó með 2010 og árunum þar á undan, að hvert ár á sínar stjörnur sem sköruðu fram úr eða voru einstaklega eftirminnilegar á árinu. Það er gamall siður að setja saman lista yfir þá einstaklinga sem þykja skara fram úr á árinu eða vera stjörnur ársins. Höfundur hefur tekið saman þær stjörnur sem hafa skinið skærast á árinu, ýmist til góðs eða ills.

10. sæti – David Cameron
Frá því að Tony Blair gjörsigraði kosningarnar 1997 hefur Íhaldsflokkurinn teflt hverjum frambjóðandanum fram á fætur öðrum en enginn þeirra átti roð í Blair, sem hélt Íhaldsflokknum frá völdum í öll þessi ár. Eftir þau mögru ár hjá flokknum var kosinn til formennsku David Cameron sem var mun yngri en Íhaldsmenn eiga að venjast af foringjum sínum og jókst fylgi flokksins jafnt og þétt. Í þingkosningunum í ár, atti Cameron kappi við Gordon Brown sem tók við af Blair á miðju kjörtímabili. Í kosningunum stöðvaði Cameron 13 ára valdatíð Verkamannaflokksins og fékk flest atkvæði. Hann tók við embætti forsætisráðherra eftir að hafa myndað samsteypustjórn með Frjálslyndum demókrötum, aðeins 43 ára gamall og er næst yngsti forsætisráðherra í sögu landsins. Langt er síðan að forsætisráðherra hefur tekið við í jafn erfiðri stöðu í Bretlandi og Cameron gerði í ár og tilkynnti hann um að ríkisstjórnin ætlað að taka mikið til í ríkisbúskapnum til að bregðast við þeirri gífurlegu skuldastöðu sem ríkið er í. Í fyrstu fjárlögum stjórnarinnar kemur fram að stefnt er að fækka opinberum störfum um 330.000 störf ásamt því að boða mjög óvinsælar aðgerðir líkt og hækkun skólagjalda sem hafa leitt af sér blóðug mótmæli.

9. Sæti – Liu Xiabio
Liu Xiabio var fremur óþekktur fyrir árið 2010, þegar tilkynnt var að hann myndi hljóta friðarverðlaun Nóbels. Xiabo sem er 55 ára kínverskur prófessor, situr í fangelsi í Kína fyrir að hafa skrifað plagg sem fjallar um æskilegar mannréttindaumbætur í landinu. Kommúnistastjórnin í Kína brást ókvæða við þessari tilnefningu nóbelsnefndarinnar og hafa samskipti Kína og Noregs verið undir frostmarki síðan. Ríkisstjórnir um allan hinn vestræna heim hafa skorað á stjórnvöld í Kína að sleppa Xiabio úr haldi og hefur þessi tilnefning haft mikil áhrif á samskipti Kína við umheiminn. Með friðarverðlaununum og viðbrögðum kínverskra stjórnvalda sást með skýrari hætti en oft áður, að þrátt fyrir efnahagslegar umbætur og aukið frjálsræði í viðskiptum hefur frjálslyndisþróunin látið staðar numið þar. Kínverska kommúnistastjórnin, er þrátt fyrir allt, kommúnistastjórn, og hikar ekki við að fangelsa þá einstaklinga sem eru henni ekki þóknarlegir og er tilbúin til að verja þá stefnu kúgunar fyrir umheiminum.

8. sæti – Suður Afríka
Eftir að tilkynnt var að Heimsmeistarakeppnin í knattspyrnu myndi fara fram í Suður Afríku, urðu margir áhyggjufullir um komandi keppni. Þetta 50 milljón manna lýðræðisríki hefur mátt glíma við margar hindranir, fátækt er viðvarandi vandamál í landinu ásamt því að atvinnuleysi og glæpatíðni er með allra hæsta móti. Í landinu eru tíð rafsmagnsleysi og margar innri stoðir samfélagsins í þannig ásigkomulagi, að margir áttu erfitt með að ímynda sér að landið gæti hýst slíka alþjóðlega keppni með öllum þeim fjölda og vandamálum sem þeim fylgja. Fréttaflutningur af vandamálum við undirbúning keppninnar bárust reglulega, skv. fréttum var FIFA á tímabili ekki visst í sinni sök, hvort keppnin gæti farið fram í landinu þegar líða tók á undirbúninginn. Vellirnir þóttu rísa hægt og illa og mikil átök milli vinnuveitenda og starfsmanna drógu ekki úr þeim áhyggjum. Þegar á hólminn var komið og keppnin hófst, var hún ein stór veisla út í gegn. Spánverjar fóru loks með sigur af hólmi og gekk keppnin eins og í sögu. Það eina slæma sem stóð upp úr eftir keppnina, voru hinir hroðalegu Vuvuzela-lúðrar sem flest sómakær knattspyrnufélög hafa bannað á völlum sínum í framhaldinu.

7. sæti – Lebron James

„Hinn útvaldi“ körfuknattleiksmaður Lebron James, hefur verið eitt helsta dálæti körfuknattleiksunnenda síðan hann spilaði í framhaldsskólaboltanum í Bandaríkjunum. Drengurinn, sem var valinn fyrstur í nýliðavalinu 2003, aðeins 18 ára gamall, hefur verið ein skærasta stjarna íþróttaheimsins síðustu ár og leiddi lið Cleveland Cavaliers nánast einn síns liðs og hefur verið valinn besti körfuboltamaður NBA deildarinnar. Þegar úrslitakeppninni lauk í vor rann út samningur Lebron við Cleveland Cavaliers og vildi Lebron lítið segja til um hvort hann ætlaði að vera áfram í Cleveland eða færa sig um set. Aðdáendur Cleveland sem höfðu Lebron í guðatölu, vonuðu að hann myndi ekki fara og eyðileggja það lið sem hafði verið byggt í kringum hann. Treystu þeir á að trygglyndi Lebron myndi ná dýpra en skjótfengnir verðlaunahringir og stærri markaðir fyrir auglýsingar hans, en Lebron hefur tattúverað „loyalty“ á sig, eða „tryggð“. Vonuðust aðdáendur Cleveland að það gæfi vísbendingu um hvert hugur hans stefndi. Þegar leið á sumarið, fóru margar sögur að breiðast út að Lebron James ætlaði jafnvel að færa sig um set, var þá helst rætt um að hann myndi fara til New York, reyna að feta í fótspor Michael Jordan í Chicago eða jafnvel reyna að mynda einhverskonar ofurlið með Miami Heat. Lebron sem er einn sá hégómlegasti í bransanum, ákvað að þakka stuðningsmönnum sínum í Cleveland fyrir stuðninginn með að boða til rúmlega klukkustundar „þáttar“, þar sem hann myndi að lokum í allri sinni dýrð lýsa yfir hvert hann myndi fara. Þegar að kvöldinu kom, rann í gegn einn sá allra aumkunarverðasti og hégómlegasti klukkutími í sögu sjónvarps á vesturlöndum og tilkynnti hann að lokum að hann ætlaði að reyna að mynda skjótfengið súperlið í Miami.

6. sæti -Angela Merkel
Valdamesta kona heims, fæddist í Hamborg en ólst upp í Austur-Þýskalandi. Eftir að Berlínarmúrinn féll fór Angela Merkel að hafa afskipti af stjórnmálum og ýtti þægilegum frama í raunvísindum frá sér, og hefur frami hennar í stjórnmálum verið ævintýralegur. Í dag er hún formaður Kristilegra demókrata í Þýskalandi og jafnframt kanslari Þýskalands. Þegar bankakrísan reið yfir heiminn árið 2008 ákvað stjórn Merkel að ýta af stað stuttum en kraftmiklum aðgerðum til að koma blóðstreyminu í hagkerfi Þýskalands af stað, en ætlunin er að láta þar staðar numið. Aðgerðir Merkel hafði undraverð áhrif á hagvöxt í Þýskalandi og í dag er þýska hagkerfið eitt það kraftmesta í heiminum. Með efnahagslegu valdi fylgir pólitískt vald, og hefur Angela Merkel nú skipað sér sess sem valdamesti evrópski stjórnmálaleiðtoginn. Heima fyrir hefur hún gripið til afgerandi sparnaðaraðgerða og stefnir á að fjárlög ársins verði hallalaus. Á meðan stendur skuldumvafin heimsálfan og horfir spyrjandi augum til Merkel, en Grikkland og Írland hafa þegar þurft að semja um neyðaraðstoð vegna fyrirsjáanlegs greiðslufalls og eru jafnvel fleiri ríki á sömu braut. Með Evrunni hafa sameiginlegir hagsmunir ríkja Evrópu komið saman, en þó hvílir afdrif Evrunnar meira og meira á stefnu og stöðu Þýskalands. Merkel ákvað eftir nokkuð þóf, að koma Grikkjum til hjálpar og svo Írum, en þó ekki án þess að ákveðnum skilyrðum ríkisbúskapar ríkjanna yrði mætt. Að þeir myndu færa sig nær þýska módelinu í efnahagsstjórn. Það er farvegur sem önnur ríki, sem ætla að leita hjálpar til Þýskalands þurfa að sætta sig við.


*Niðurtalningin að stjörnu ársins 2010 heldur áfram á morgun.

Latest posts by Vignir Hafþórsson (see all)

Vignir Hafþórsson skrifar

Vignir hóf að skrifa á Deigluna í október 2009.