Í Betlehem er barn oss fætt

Sr. Kjartan Örn Sigurbjörnsson fjallar um jólasöguna og það erindi sem hún á við okkur enn þann dag í dag. Deiglan óskar öllum gleðilegra jóla.

Hún er mörgum kær – sagan af Maríu og Jósef sem endur fyrir löngu fóru til Betlehem að boði valdhafana. Og valdsherrunum varð að hlýða þó ekki stæði vel á fyrir Maríu. Við getum gert okkur í hugalund fátið og örvæntinguna þegar María sagði Jósef að nú væri komið að því að barn fæddist og í ekkert hús að venda og allar aðstæður bágar. Fyrir miskunn gátu þau hreiðrað um sig í fjárhúsi og þar fæddist drengurinn hennar Maríu. Þannig segir guðspjallið frá.

Hjá mörgum er fastur siður að fara til kirkju á aðfangadagskvöld. Og hvað fer fólk til að heyra og sjá? Ekki stórbrotna frásögu af mikilleik og skrauti. Ekki sögu af hátíð og veisluborði eða miklum fagnaðarlátum. Það sem við heyrum er óvenjuleg saga en hógvær um leið. Saga um alþýðufólk sem aðstæður höfðu hrakið frá heimili sínu þegar síst skildi og kona varð léttari og fæddi son.

Og sagan er um fjárhirða á völlunum úti fyrir Betlehem. Þar stóðu þeir vaktina og fengu að sjá dýrð Drottins þegar englaskarinn birtist og söng Guði lof og dýrð – og fjárhirðarnir fóru og veittu litla drengnum lotningu. Þeir fóru síðan aftur til skyldustarfa.

En reynsla hirðana þessa nótt á Betlehemsvöllum hefur lifað í huga þeirra á meðan hjartað sló.

Þessi saga er töfrum gædd og þegar hún hefur verið lesinn þá dýpkar þögnin og augnblikið snertir við okkur og himininn stendur opinn. Og ef við hlustum með hjartanu þá heyrum við líkt og fjárhirðarnir að englar Guðs syngja og flytja okkur gleðilegan boðskap.

Það er guðspjallamaðurinn og læknirinn Lúkas sem segir þessa sögu. Lúkas sá með hjartanu og sá að Jesús var sá ljósberi sem hrekur myrkrið í burtu og lýsir upp í veröldinni og gefur okkur von. Gefur okkur von í oft óbærilegum aðstæðum.

Já frelsari er fæddur. Frelsari, sem á erindi við okkur öll og vill losa okkur úr fjötrum. Losa okkur úr hlekkjum óttans – óttans við annað fólk og óttans við okkur sjálf og óttans við Guð. Þegar við göngum að jötunni og inn í ljósið þá hverfur óttinn og við sjáum inn í hjarta Guðs. Að Guð er yfir okkur og hann verndar okkur vegna þess að hann elskar okkur hvert og eitt og vill okkur allt það besta.

Og sagan heldur áfram. Barnið sem lagt var í jötu átti eftir að breyta gangi sögunnar. Drengurinn hennar Maríu átti eftir að breyta lífi og örlögum fólks. Og gerir það enn í dag. Þegar drengurinn hennar Maríu var orðinn fullorðinn gekk hann einu sinni sem oftar inn í samkomuhúsið í Nazaret og vitnaði um sjálfan sig þegar hann las úr spádómsbók Jesaja: Drottinn Guð hefur sent mig til að boða fátækum gleðilegan boðskap.

Boðskapurinn um góðan og kærleiksríkan Guð snertir við háum og lágum, ríkum og fátækum, frægum og óþekktum. Enginn er ósnortinn. Enn í dag snertir boðskapur Jesú við okkur og við vitum innst inni að það er er rétt og satt að við eigum að elska Guð og náungann og við eigum að tileinka okkur þá samkend sem birtist í gullnu reglunni um að allt sem við viljum að aðrir geri okkur það eigum við að gera þeim.

Hlustum með hjartanu á þennan mikilvæga og gleðilega boðskap.

Kjartan Örn Sigurbjörnsson

Latest posts by Sr. Kjartan Örn Sigurbjörnsson (see all)