Hin hála braut. Eða: Sagan af steinvölunni sem rann niður í ofríkið

Rökfærsla sem kallast á ensku „Slippery Slope argument,“ (og á íslensku fótfesturök) lýtur að því að þó það sem um ræðir sé mögulega saklaust út af fyrir sig, geti fordæmið haft alvarlegar afleiðingar í för með sér. Upphaflega breytingin er þannig sem steinvala, efst á hálli og brattri brekku, og að botni brekkunnar er óréttlæti, ofríki eða eitthvað þaðan af verra. Einhverjir vilja hreinlega kalla þessa rökfærsluaðferð rökvillu, og hún hefur óumdeilanlega galla. Það er þó ekki unnt að afskrifa fótfesturökin í öllum tilfellum.

Yfirvöld í San Fransisco í Bandaríkjunum lögðu nýverið bann við því að leikföng fylgi með máltíðum sem uppfylla ekki tiltekin heilsuskilyrði. Tilgangur bannsins er að hvetja til heilsusamlegs mataræðis og að spyrna gegn offitu barna. Án þess að hefja óbilgjarna og ástríðuþrungna eldræðu um grátlegan fáránleika reglunnar skal hér með áréttað að hún vekur ekki kátínu hvarvetna.

Bannið sem slíkt er þó ágætt dæmi um að því er virðist smámál sem fær stóran hóp fólks til að hafa áhyggjur af mögulegum afleiðingum slíkrar lagasetningar. Hugsunin að baki áhyggjunum er einföld: „ef þau gera þetta núna, hvað gera þau næst?“ Svo er mögulegum afleiðingum velt upp; í þessu tilfelli mætti t.d. hugsa sér að næst lægi beint við að banna sölu barnamáltíða almennt sem ekki uppfylla tiltekin heilsuskilyrði, svo að banna óhollar fullorðinsmáltíðir, og svo koll af kolli þangað til yfirvöld verða að lokum farin að handstýra því sem hver og einn lætur ofan í sig á degi hverjum, allt í því skyni að koma í veg fyrir offitu og bága heilsu. Vegurinn til glötunar er jú varðaður góðum ásetningi.

Slík rökfærslu kallast á ensku „Slippery Slope argument,“ (og á íslensku fótfesturök) og lýtur að því að þó það sem um ræðir sé mögulega saklaust út af fyrir sig, geti fordæmið haft alvarlegar afleiðingar í för með sér. Upphaflega breytingin er þannig sem steinvala, efst á hálli og brattri brekku, og að botni brekkunnar er óréttlæti, ofríki eða eitthvað þaðan af verra. Steinvalan er þá A, og það sem enginn vill að gerist að botni brekkunnar er C. Og þar sem A leiðir að C, er eins gott að koma í veg fyrir A.

Einhverjir vilja hreinlega kalla þessa rökfærsluaðferð rökvillu, og hún hefur óumdeilanlega galla. Þannig er ljóst að því fleiri þrep sem eru frá A að C, því ólíklegra er að þangað verði farið. Ennfremur verður tengingin á milli þrepanna að vera sterk, svo að líkur hnígi að því að því að eitt leiði örugglega að öðru. Þá er mikilvægt að hafa í huga að jafnvel þó að eitthvert mögulegt óréttlæti komi upp síðar, þá má vera að unnt sé að kljást við það þá; t.a.m. ef yfirvöld í San Fransisco reyna að banna skyndibita á næstunni, þá mun almenningur spyrna við fótum og koma í veg fyrir slíka firru. Það þurfi ekki endilega að vera að yfirvöld nái sínu fram.

Aukinheldur er mögulegt að upphaflega laga- eða reglubreytingin fullnægi markmiðum yfirvalda og þau hafi engan áhuga á frekari landvinningum. Þannig gæti góður og gegn hægrimaður á þingi, sem leggur til að spyrnt yrði við gegndarlausri útþenslu Fæðingarorlofssjóðs, verið sakaður um að vera að taka fyrsta skrefið í að leggja velferðarkerfið af, þegar hann vill kannski bara auka skilvirkni og hagkvæmni þess.

Það er þó ekki unnt að afskrifa fótfesturökin í öllum tilfellum enda ekki óhugsandi að valdhafar kjósi að fikra sig hægt og rólega í átt að markmiðum sínum, án þess að útvarpa þeim sérstaklega. Nærtækt dæmi má t.a.m. sjá af bókun Besta flokksins á borgarráðsfundi í haust, en samkvæmt henni vill flokkurinn banna áfengi á skemmtistöðum í Reykjavík. „Ef það er búið að banna reykingar og öllum líður vel, af hverju þá ekki að banna áfengi og þá myndi öllum líða líka vel,“ sagði borgarfulltrúi flokksins á fundinum, og með því kristölluðust áhyggjur margra þeirra sem lögðust gegn því að sett yrði reykingabann á skemmtistaði á Íslandi. Hála brautin er kannski ekki svo langt undan: Fyrst er bannað að reykja á opinberum stöðum, svo á skemmtistöðum, og nú eru sum ríki farin að banna reykingar í bifreiðum og á heimilum. Án fyrri skrefa hefði aldrei verið unnt að fara beint í að leggja bann við reykingum á heimilum. Reglur sem voru óhugsandi í upphafi líta þannig dagsins ljós með hjálp margra lítilla skrefa, sem sérhvert virðist smávægilegt. Margir leita enda til laganna til að þekkja hvað er rétt og hvað er rangt, án þess að leggja endilega dóm á það sjálfir hvort að þeir séu því sammála. Það er fyllilega skiljanlegt, þar sem það hafa ekki allir endilega löngun eða tíma til að setja sig inn í öll mál sem koma upp.

Þetta ógagnrýna traust til yfirvalda er þó akkúrat helsta ástæðan fyrir því að varast beri að setja slæm fordæmi, sem hugsanlega verða nýtt til að setja ennþá verri reglur og lög. Í þessu samhengi er stundum minnst á hinn „sjóðandi frosk“ – þ.e. að þegar froskur er settur í sjóðandi vatn, stekkur hann strax úr því. En þegar hann er settur í kalt vatn, sem er hitað rólega að suðumarki, áttar hann sig ekki á hættunni sem hann er í fyrr en það er orðið of seint, og deyr drottni sínum.

Hver er þá lausnin? Hvernig björgum við steinvölunni?

Föllum ekki í þá gryfju að trúa yfirlýstum markmiðum stjórnmálamanna gagnrýnislaust. Krefjumst skýrrar röksemdarfærslu. Og reynum að forðast auma reglu- og lagasetningu.