Gerum betur en best í heimi

Í gær var kvennafrídagurinn haldinn hátíðlegur í fjórða skiptið. Þá voru 35 ár liðin frá því að konur lögðu niður vinnu og efndu til útifundar á degi Sameinuðu þjóðanna á kvennaárinu, 1975. Á þeim tíma var efnt til fundarins til þess að vekja athygli á því að konur væru bæði í lægra launuðum störfum en karlmenn og fengju þar að auki lægri laun fyrir sömu störf og karlmenn. Nú, 35 árum síðar, hafa orðið ansi róttækar breytingar til hins betra á stöðu kvenna í íslensku samfélagi. Í gær var boðað til fjöldasamstöðu kvenna í fjórða skiptið.En hver er ástæðan fyrir því að konur mesta jafnréttissinnaðsta þjóðfélags veraldar leggja niður störf og krefjast betri kjara?

Í gær var kvennafrídagurinn haldinn hátíðlegur í fjórða skiptið. Þá voru 35 ár liðin frá því að konur lögðu niður vinnu og efndu til útifundar á degi Sameinuðu þjóðanna á kvennaárinu, 1975. Á þeim tíma var efnt til fundarins til þess að vekja athygli á því að konur væru bæði í lægra launuðum störfum en karlmenn og fengju þar að auki lægri laun fyrir sömu störf og karlmenn. Bent var á að konur ættu erfiðar uppdráttar á atvinnumarkaðinum meðal annars vegna þess að ekki væri litið til menntunar þeirra, heldur var þeim hreinlega hafnað á grundvelli kyns. Varpað var ljósi á stöðu kvenna innan verkalýðshreyfinganna, en á þeim tíma sat engin kona í aðalsamninganefnd Alþýðusambands Íslands. Ennfremur var vakin athygli á því að starf konu innan heimilisins væri ekki metið sem starf. Á þessum tíma var atvinnuþátttaka kvenna um 60%, konur voru 5% af þingmönnum.

Nú, 35 árum síðar, hafa orðið ansi róttækar breytingar til hins betra á stöðu kvenna í íslensku samfélagi. Konur gegna stöðu rektora háskóla, konur eru framkvæmdastjórar fyrirtækja, konur eru ráðuneytisstjórar, konur eru bankastjórar og konur eru ráðherrar. Stór skref hafa verið tekin í jafnréttismálum síðan 1975 og er það helst brautryðjandi konum að þakka. Konum sem menntuðu sig, sóttu um stöður, buðu sig fram og gerðu kröfu til hærri launa. Í dag er atvinnuþátttaka kvenna á Íslandi sú hæsta af OECD ríkjunum (og væntanlega í heimi), eða 78%, saxað hefur verið á launamuninn svo um munar, konur eru 43% af þingmönnum, 40% ráðherra, og landinu er stjórnað af konu. Nýlega fékkst það staðfest af World Economic Forum að á Íslandi ríkti mesta jafnrétti kynjanna í heimi.

En betur má ef duga skal.

Í gær var boðað til fjöldasamstöðu kvenna í fjórða skiptið. Þema dagsins var launamunur kynjanna (sem er enn við lýði þrátt fyrir að 24 ár séu liðin frá því að hann var bannaður með lögum) og samstaða í baráttunni gegn kynbundnu ofbeldi. Konur voru hvattar til þess að leggja niður vinnu kl. 14:25, en við þann tíma miðast launamismunur kynjanna. En hver er ástæðan fyrir því að konur mesta jafnréttissinnaðsta þjóðfélags veraldar leggja niður störf og krefjast betri kjara?

Ljóst er að fagna ber þeim gríðarlega árangri sem náðst hefur í jafnréttismálum á undanförnum árum, en mikilvægt er að jafnréttisbaráttan staðni ekki þótt við séum á góðri leið, því á mörgum sviðum er enn langt í land. Launatölurnar tala sínu máli, hinar svokölluðu „kvennastéttir” eru ennþá mun lægra launaðar en stéttir þar sem karlmenn eru í meirihluta. Hinn óútskýrði launamunur kynjanna, það er að segja launamunur milli karls og konu sem gegna nákvæmlega sama starfi, er enn, af óskiljanlegum ástæðum, við lýði og meira að segja hjá hinu opinbera.

Þegar þessa umræða ber á góma, vilja sumir útskýra þennan launamun með þeirri einföldu skýringu að konur biðji hreinlega um lægri laun. Svarið kann vissulega að vera að konur biðji um lægri laun, en lausnina vantar ennþá. Hver er ástæðan fyrir því að konur biðja um lægri laun en karlar? Alast konur upp við það, bæði inn á heimilum og í samfélaginu, að þær eigi að verðleggja vinnu sína lægra en karlar?

Hvernig er hægt að koma á viðhorfsbreytingu í samfélaginu þannig að konur meti sig jafn hæfar karlmönnum og biðji um sambærileg laun? Hvernig er hægt að sannfæra atvinnurekendur um mikilvægi þess að greiða fólki sömu laun óháð kyni? Þessum spurningum er ósvarað, en mikilvægt er að samfélagið leggist á eitt við að útrýma launamuninum. Það er óásættanlegt að samfélag sem hefur tryggt kynjunum jafna stöðu fyrir lögum í stjórnarskrá, með aðild að alþjóðlegum mannréttindasáttmálum og hefur meira að segja sett bann með lögum við launamun kynjanna sættist á þá skýringu að konur biðji einfaldlega um lægri laun og þar við sitji.

Jafnréttismálin eiga það til að verða annars flokks mál og viðhorfið virðist vera að fyrst við erum komin þetta langt í jafnréttisbaráttunni sé kominn tími á að einbeita sér að öðrum sviðum. Þetta á hins vegar ekki að vera spurning um að einbeita sér annað hvort að jafnréttismálum eða öðrum sviðum. Jafnréttismálin þurfa sífellda endurskoðun og mikilvægt er að halda þeim á lofti á öllum sviðum samfélagsins, stöðugt.

Það er ekki nóg að vera best í heimi, við þurfum að gera betur og tryggja raunverulegt jafnrétti í íslensku samfélagi.