Eftir skjálftann

Í dag eru átta mánuðir liðnir síðan jarðskjálfti sem mældist 7 á Richter-skala reið yfir Haítí. Talið er að vel yfir 200.000 manns hafi farist og gríðarlegur fjöldi fólks missti heimili sitt. Heimsbyggðin stóð á öndinni, strax var ráðist í björgunaraðgerðir og aldrei hefur meiri peningur safnast til styrktar einu landi vegna náttúruhamfara. Það hefur þó lítið breyst þrátt fyrir björgunaraðgerðir og peningasafnanir víða um heim og er talið að afskaplega langan tíma taki að byggja samfélagið upp á ný.

Í dag eru átta mánuðir liðnir síðan jarðskjálfti sem mældist 7 á Richter-skala reið yfir Haítí. Talið er að vel yfir 200.000 manns hafi farist og gríðarlegur fjöldi fólks missti heimili sitt. Heimsbyggðin stóð á öndinni, strax var ráðist í björgunaraðgerðir og aldrei hefur meiri peningur safnast til styrktar einu landi vegna náttúruhamfara. Það hefur þó lítið breyst þrátt fyrir björgunaraðgerðir og peningasafnanir víða um heim og er talið að afskaplega langan tíma taki að byggja samfélagið upp á ný.

Ástæðan liggur helst í því að fyrir skjálftann var Haítí meira og minna ein rjúkandi rúst. Ríkisstjórnin var óstarfhæf í þessu fátækasta landi Vesturheims löngu fyrir sjálftann; opinberir starfsmenn höfðu ekki fengið greidd laun síðan í nóvember 2009 og hafa að sjálfsögðu ekki fengið neitt útborgað eftir skjálftann. Atvinnuleysi var 60% en er nú 80% á landsvísu, og í höfuðborginni Port-au-Prince ríkir 90% atvinnuleysi. Infrastrúktúr var því ekki upp á marga fiska þegar skjálftinn skók eyjuna og er, eins og gefur að skilja, nánast enginn í dag.

Vegna þessa hefur það reynst hjálparstofnunum og góðgerðarsamtökum erfitt að byggja eitthvað upp af viti á Haítí, enda tefur það eðlilega allt langtímabjörgunarstarf þegar enginn opinber aðili er til þess að vinna með. Landið er eitt stórt tjaldstæði, og verður það að öllum líkindum í upp undir áratug til viðbótar, en þó hafa ekki nærri því allir eftirlifendur skjálftans tjald yfir höfuðið. Stærsta fátækrahverfi Port-au-Prince, Cité Soleil, var talinn hættulegasti staður á jörðinni skv. Sameinuðu þjóðunum, en ef til vill má nú halda því fram að höfuðborgin öll sé nú hættulegasti staður heims þar sem ofbeldi og glæpatíðni hefur þar almennt aukist eftir skjálftann. Að vissu leyti getur það talist eðlileg þróun þegar meirihluti íbúanna hefur hvorki þak yfir höfuðið né vinnu og matur er af skornum skammti.

Í þessu samhengi má benda á það að á Haítí er eftir litlu að slægjast fyrir vestræna fjárfesta, öfugt við Srí Lanka sem varð illa úti í flóðbylgjunni 2004. Í kjölfar hennar spruttu upp lúxushótel á paradísarströndum þar sem heimamenn höfðu áður byggt fiskiþorp sín og sótt sjóinn. Þeim var hins vegar bannað að snúa aftur á heimaslóðir vegna „hættulegrar“ staðsetningar; stuttu seinna voru strendurnar seldar hóteleigendum og öðrum aðilum í hinum alþjóðlega ferðamannaiðnaði. Á Haítí eru engar viðlíka strendur né olía eins og finna má hjá hinum fjölmörgu óstarfhæfu ríkisstjórnum í Mið-Austurlöndum.

Án þess að ætla að fullyrða neitt um það að uppbygging á Haítí gengi hraðar fyrir sig ef Vesturlönd sæu þar viðskiptatækifæri, því uppbyggingin yrði þá heldur ekki á forsendum heimamanna, þá má engu að síður velta því fyrir sér hvers vegna vonleysið er jafnmikið á eyjunni og raun ber vitni. Getur það verið að þeir sem fara með „peningavöld heimsins“ sé alveg sama um Haítí? Þar var hvort sem er allt í rúst fyrir… Vonandi ekki. Vonandi verða Haítíbúar ekki í tjöldum til ársins 2020 heldur opnum við augun fyrir því að hingað til hafa björgunaraðgerðirnar ekki skilað því sem þær áttu að gera. Samhentara átak þarf til eigi Haítíbúar ekki að vera verr settir fyrir lífstíð en þeir voru fyrir skjálftann, og voru þeir þá illa settir. Það á að nýta tækifærið til að byggja upp með þeim og á þeirra forsendum.

Latest posts by Sunna Kristín Hilmarsdóttir (see all)

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar

Sunna Kristín hóf að skrifa á Deigluna í mars 2009.