Viðhorf á villigötum

Kjarni hvers samfélags eru þau fyrirtæki sem þar starfa. Almenn þróun fyrirtækjaumhverfis á Íslandi hefur því miður verið slæm undanfarið og virðast horfur ekki fara batnandi. Það sem jafnvel er enn verra, eru vísbendingar um hvert almenningsálitið er að þróast ef eitthvað er að marka umfjöllun stjórnmálamanna, fjölmiðla, blogg og aðra umræðu.

Kjarni hvers samfélags eru þau fyrirtæki sem þar starfa. Fyrirtæki skapa störf fyrir íbúanna og borga þeim laun. Fyrirtæki borga skatt til ríkisins og íbúarnir borga skatt af þeim launum sem þeir fá frá fyrirtækjum. Ríkið notar síðan skattinn til að skapa hagstætt umhverfi fyrir íbúana (menntun og velferð) og hagstætt umhverfi fyrir fyrirtækin. Einföld (og einfölduð) hringrás sem verður sífellt betri fyrir alla með aukinni framleiðni fyrirtækjanna.

Almenn þróun fyrirtækjaumhverfis á Íslandi hefur því miður verið slæm undanfarið og virðast horfur ekki fara batnandi. Það sem jafnvel er enn verra, eru vísbendingar um hvert almenningsálitið er að þróast ef eitthvað er að marka umfjöllun stjórnmálamanna, fjölmiðla, blogg og aðra umræðu. Boð og bönn, höft og eftiráhyggja virðast ráðandi í stjórnmálaumræðunni í stað fyrirhyggju, frelsis og hraðrar ákvarðanatöku. Þá virðist tortryggni í garð náungans, nornaveiðar og neikvæðni vera ráðandi víða í stað jákvæðni, framkvæmdagleði og því að samgleðjast góðum árangri náungans.

Eða eins og Bubbi Morthens orðaði það ágætlega í nýlegum pistli á Pressunni: „Er eitthvað rangt við það að hagnast á viðskiptum? Er eitthvað rangt við það að hafa góð laun? Er eitthvað rangt við það að vera góður í því sem þú vinnur við? Er eitthvað rangt við það að vera góður listamaður og fá borgað fyrir það? Er eitthvað rangt við að hafa menntað sig í 10 ár og fá laun í samræmi við það?“

Ímyndum okkur athafnamanninn John sem býr erlendis, er fjársterkur vel og hefur mikla reynslu af rekstri fyrirtækja í sínum geira. John hefur lengi dreymt um að flytja til Draumaeyjunnar – lítillar en fagurrar eyju norður í Atlandshafi sem hann hefur heyrt vel af látið. Á Draumaeyjunni hyggst John stofna alþjóðlegt fyrirtæki með því að koma með fjármagn inn í landið, skapa þar hálaunastörf fyrir vel menntað fólk, greiða skatttekjur og leggja þannig sitt af mörkum til að skapa almenna velmegun. En síðast en ekki síst ætlar John sjálfur að græða vel á öllu saman – og finnst ekkert rangt við það.

John fer því á stúfana, byrjar að undirbúa komu sína til Draumaeyjunnar og hefur undirbúninginn með því að kanna umhverfi fyrirtækja, fylgjast með umræðunni um fyrirtæki og fjárfestingar og skoða nokkur nýleg dæmi. Skelfingu lostinn eftir gaumgæfilega athugun sína á þeirri umræðu sem hæst ber í þjóðfélaginu tekur John saman þau fimm atriði sem honum þykja markverðust:

1. Á Draumaeyjunni eru gjaldeyrishöft og því ekki hægt að flytja út hagnað fyrirtækja né endurfjárfesta erlendis með góðu móti.
2. Á Draumaeyjunni vilja stjórnvöld og íbúar landsins mjög gjarnan fá erlenda fjárfestingu til landsins – en vilja samt helst ekki leyfa útlendingum (og raunar varla innlendum einkaaðilum í mörgum tilvikum) að fjárfesta í neinu því sem eyjaskeggjar eru þekktir fyrir að vera góðir í á alþjóðavísu s.s. sjávarútvegi, hreinni orkuöflun og heilbrigðisþjónustu.
3. Á Draumaeyjunni virðist almenningsviðhorfið, sem fjölmiðlar og bloggarar kynda undir af miklum móð, vera að þróast í þá átt að það sé bæði illa liðið og siðferðislega rangt að vilja græða peninga, fá borguð há laun eða vera ríkur ef því er að skipta.
4. Á Draumaeyjunni er raunverulega til staðar frumvarp á Alþingi um að banna fyrirtækjum í tilteknum geira að þiggja ekki ríkisstyrki – og beita viðurlögum ef þau starfa án ríkisstyrkja.
5. Á Draumaeyjunni hafa skattar hækkað umtalsvert og skattkerfið orðið mun flóknara en áður. Tekjuskattur einstaklinga hefur verið hækkaður, tryggingargjald og skattar á fyrirtæki hafa sömuleiðis hækkað sem og fjármagnstekjuskattur. Auk þess hefur sérstökum auðlegðarskatti hefur verið komið á.

John hætti við.

Snúum dæminu örlítið við. Skiptum John út fyrir Íslendinginn og frumkvöðulinn Jón sem nú er að skoða hvort að hann eigi að stofna nýtt fyrirtæki hér heima eða flytja út og stofna það erlendis.

Jón flutti út.

Latest posts by Andri Heiðar Kristinsson (see all)