Megi betra liðið vinna!

Í dag er leikið til úrslita í Heimsmeistarakeppninni í fótbolta. Á meðan lítill hópur antisportista fagnar því að fá fréttirnar á RÚV á sinn hefðbundna 19:00 tíma þá skilur þetta eftir blendnar tilfinningar fyrir okkur hin sem höfum notið þess í heilan mánuð að hafa horft á hátt í þrjá fótboltaleiki á dag.

Í dag er leikið til úrslita í Heimsmeistarakeppninni í fótbolta. Á meðan lítill hópur antisportista fagnar því að fá fréttirnar á RÚV á sinn hefðbundna 19:00 tíma þá skilur þetta eftir blendnar tilfinningar fyrir okkur hin sem höfum notið þess í heilan mánuð að hafa horft á hátt í þrjá fótboltaleiki á dag. Sumir, eins og sá sem þetta ritar, hafa skipulagt daginn okkar í kringum dagskrá Heimsmeistaramótsins, þess vegna er það ákveðið sjokk að HM skuli vera að klárast og heil fjögur ár í næsta mót. Að sama skapi er mikil eftirvænting eftir því að sjá hvaða þjóð stendur uppi sem sigurvegari mótsins.

Liðin sem eigast við eru Evrópuþjóðirnar tvær, Spánn og Holland. Hvorugri þessara þjóða hefur tekist að sigra HM áður, því er ljóst að þeir leikmenn sem fagna sigri í kvöld munu komast í sögubækurnar hjá þjóð sinni. Holland hefur reyndar komist tvisvar áður í úrslitaleikinn, árið 1974 gegn V- Þjóðverjum og árið 1978 gegn Argentínumönnum, en tapað í bæði skiptin. Hollendingar hafa jafnan verið kallaðir besta fótboltaþjóðin sem aldrei hefur orðið heimsmeistari, Brasilíumenn Evrópu eða höfundar hins vinsæla Total fótbolta.

Enda hefur þjóðin alið af sér marga fótboltasnillinga á borð við Johan Cruyff, Johan Neeskens, Marco van Basten, Ruud Gullit, Frank Rijkaard og Dennis Bergkamp. Í mótinu í sumar hefur þeirra besti leikmaður án vafa verið Wesley Sneijder sem hefur stjórnað spili Hollendinga með mögnuðum hætti ásamt því að skora 5 mörk. Auk Sneijder hafa þeir Arjen Robben og Mark van Bommel átt mjög góða keppni. Í raun má segja að Hollendingar séu lið keppninar hingað til þar sem þeir eru með 100% árangur því þeir hafa unnið alla sína sex leiki.

Spánverjar hafa aftur á móti aldrei áður komist svona langt í mótinu en voru þrátt fyrir það taldir sigurstranglegasta þjóðin fyrir mótið til að vinna HM ásamt Brasilíumönnum, kannski ekki nema von þar sem liðið er ríkjandi Evrópumeistari. Liðið hefur á að skipa firnasterkum leikmannahópi þar sem uppistaðan í liðinu eru leikmenn úr liðum Barcelona og Real Madrid. Sóknarmaðurinn David Villa hefur hreinlega farið hamförum með liðinu og skorað 5 mörk og oft á tíðum haldið sóknarleik Spánar á floti í mótinu. Aðrir lykilleikmenn eru Xavi, Andres Iniesta og varnarjaxlinn hárprúði Carles Puyol. Þrátt fyrir þennan sterka hóp má samt segja að spænska liðið hafi verið lengi í gang á mótinu þar sem það tapaði fyrsta leiknum gegn Sviss og hafi ekki virkað sannfærandi sóknarlega fyrr en í leiknum á móti Þjóðverjum þar sem þeir sýndu allar sýnar bestu hliðar og hefðu átt að sigra þann leik með meiri mun en einu marki.

Í kvöld er því möguleiki á góðum og spennandi úrslitaleik milli tveggja frábærra liða sem heimsbyggðin mun fylgjast með. Antisportistarnir sem minnst var á hér í byrjun geta byrjað að brosa eftir kvöldið í kvöld enda langt í næsta stórmót og þeir fá jú Rúv fréttirnar á sínum hefðbundna tíma og losna við Þorstein J. af skjánum á kvöldin.Við fótboltaunnendur kveðjum hins vegar þessa HM með söknuði en þökkum um leið fyrir okkur, því þrátt fyrir hæga byrjun á mótinu hefur því vaxið ásmegin og þegar öllu er á botninn hvolft hefur þetta verið stórskemmtilegt Heimsmeistaramót. Þegar flautað verður til leiksloka á mótinu í kvöld mun undirritaður strax byrja að telja niður í næsta mót árið 2014 sem haldið verður í mekka knattspyrnunar, Brasilíu.

Megi betra liðið vinna!