Málsvari andskotans

Nýverið birtust fréttir af því að gríðarlega verðmætar auðlindir hafi fundist í jörðu í Afganistan. Kopar, lithíum og fleiri málmar sem myndu samsvara einni billjón dollara. Fyrstu viðbrögð margra voru að þarna hafi happadísin loksins gjóað augunum á þetta lánlausa land og þarna væri kominn grundvöllur fyrir efnahagslegri uppbyggingu landsins. Sagan sýnir okkur þó að það er ekki alltaf framhald slíkra lottóvinninga. Ég ætla því að leyfa mér að taka að mér hlutverk málsvara andskotans.

Nýverið birtust fréttir af því að gríðarlega verðmætar auðlindir hafi fundist í jörðu í Afganistan. Kopar, lithíum og fleiri málmar sem myndu samsvara einni billjón dollara. Fyrstu viðbrögð margra voru að þarna hafi happadísin loksins gjóað augunum á þetta lánlausa land og þarna væri kominn grundvöllur fyrir efnahagslegri uppbyggingu landsins. Sagan sýnir okkur þó að það er ekki alltaf framhald slíkra lottóvinninga. Ég ætla því að leyfa mér að taka að mér hlutverk málssvara andskotans.

Mikið hefur verið fjallað um efnahagslegar afleiðingar ríkja þegar snöggleg innspýting fjármagns kemur inn í landið eftir að náttúruauðlindir hafa fundist og hafa þær greiningar oftar en ekki snúið að olíuríkum löndum. Olíubölvunin, bölvun náttúruauðlindanna, Hollandsveikin o.fl eru nöfn yfir hagfræðikenningar sem snúa að því að sýna fram á að þrátt fyrir allt, dragi miklar náttúruauðlindir úr hagvexti, eins furðulega og það virðist við fyrstu sýn. Mörg ríki eru ekki fátæk þrátt fyrir miklar náttúrauðlindir heldur einmitt vegna þeirra.

Ástæða þessa er í raun tvíþætt. Annars vegar sogar hin nýja tekjulind til sín fjármagn og mannafla sem annars myndi nýtast við uppbyggilegar atvinnugreinar. Auðvelt er að ímynda sér hvaða atvinnugrein þróttmikill og vel menntaður einstaklingur myndi velja sér þegar hann stendur frammi fyrir því að ákveða hvort hann ætti að leggja allt sitt að veði við að stofna fyrirtæki eða þá reyna að fá dúsu af óþrjótandi fjármagni sem dælist úr jörðinni. Náttúruauðlindin er iðulega ríkiseign og sá spírall leiðir að lokum til risavaxins ríkisgeira og veiks einkageira sem á sífellt erfiðara með að vera samkeppnishæfur í umhverfi hækkandi gengis gjaldmiðilsins og verðbólgu.

Hins vegar hafa mörg veikburða ríki skuldsett sig gífurlega við þessar aðstæður. Þegar gjaldeyri rignir inn vegna náttúruauðlindanna er mjög sterkur hvati fyrir ráðamenn að spenna bogann eins hátt og unnt er miðað við það tekjustreymi, til að standa undir eflaust metnaðarfullum verkefnum heimafyrir. En þegar eftirspurn minnkar eða verðið lækkar á heimsmarkaði sitja þau eftir með hálfkláraða þjóðvegi og tónlistarhallir. Þ.e.a.s hlutfall náttúruauðlinda verður það mikið af útflutningi að náttúrulegar sveiflur í verði geta komið ríkjunum á kné, gott dæmi er Dubai sem þurfti neyðaraðstoð upp á tíu billjón dollara í fyrra sökum lækkandi olíuverðs.

En hvað sem því líður er Hollandsveikin ekki efst á baugi hjá Afgönum. Vandamálið um hvað skuli gera við auðlindagróðann, ef einhver verður, bliknar við hliðina á þeim vandamálum sem glíma þarf við heimafyrir. Baráttan við Talibana heldur áfram og er litla eftirgjöf á þeim að finna. Auk Talibana eru svo hópar stríðsherra sem hafa sterk ítök víða um landið og fjármagna sig með ópíumframleiðslu sem líklegir eru að vilja seilast til meiri áhrifa.

Náttúruauðlindir leiða oft til átaka innan þjóðfélaga og þá sérstaklega óþróaðra ríkja líkt og Afganistan og er næsta víst að hver smákóngur mun vilja sneið af kökunni. Augljóst er að auðlindirnar munu styrkja vilja þeirra sem þegar stríða um yfirráð í landinu og án efa kveikja neistann í fleirum til þess sama. Talibanar hafa hingað til mest mátt reiða sig á stuðning í sumum héröðum Pakistans og hafa í raun haft mjög lítinn stuðning að sækja utan þess svæðis. Nóg er þó um.

Það þarf engan skáksnilling til að sjá mismunandi vogunarafl sem Talibanar munu hafa, annars vegar með ekkert annað fram að bjóða en morðóða Íslamista og andvestræna stefnu og svo Talíbana sem geta veitt ríkjum aðgang að mjög eftirsóknarverðum auðlindum líkt og hér er um að ræða. Ef þeir hafa yfirráð yfir þeim.

Það er því miður möguleg niðurstaða ef þessar fréttir reynast sannar að auðlindirnar munu efla stríðandi fylkingar. Ef við lítum til Kongó, Angóla eða annarra ríkja í svipuðum sporum sjáum hversu hrikalegar afleiðingarnar geta verið þegar auðlindarátök taka sig upp í illa menntuðum og óþróuðum þjóðfélögum. Við landamæri landsins er svo rísandi heimsveldi sem er ekki vant að virðingu sinni þegar kemur að viðskiptum við miður geðslegar stjórnir.

NATO mun að endingu yfirgefa Afganistan, hvort það verði fyrr eða síðar verður sagan að leiða í ljós. Það stjórnarfyrirkomulag sem þá verður við lýði mun þurfa að viðhalda sér upp á eigin spýtur. Hvort sem það verður að takast á við spillingu eða að berjast við óvinveitt öfl í landinu. Baráttan verður þá um mun meira en hug og hjörtu íbúanna heldur einnig aðgang að gífurlegum auðlindum og auknum áhrifum á alþjóðasviðinu.

Hvað sem svo framtíðin ber í skauti sér, óska ég þess að Afganir geti nýtt sér þessar náttúruauðlindir til þess að hjálpa til við byggingu á fjölbreyttu atvinnulífi allra íbúa landsins. Lýðræðiskerfi komist á fót sem geti notað tekjurnar til að byggja upp innviðina og sigrast á morðóðum Talibönum og stríðsherrum og lifað í sátt og samlyndi við nágranna sína. Hættan er þó sú að Afganir sjálfir munu einhverntímann óska sér þess, að þessar auðlindir hafi aldrei fundist.

Latest posts by Vignir Hafþórsson (see all)

Vignir Hafþórsson skrifar

Vignir hóf að skrifa á Deigluna í október 2009.