Samstarf í 50 ár

Á þessu ári fagna lagadeild Háskóla Íslands og lagadeild Ohio Northern háskóla í Bandaríkjunum 50 ára afmæli samstarfssamnings þeirra á milli.

Árið 1960 settu Ármann Snævarr og Eugene Hanson á laggirnar samstarfssamning milli lagadeildar Háskóla Íslands og lagadeildar Ohio Northern háskólans í Bandaríkjunum. Íslenskir laganemar hafa í 50 ár farið til Ohio til þess að kynna sér bandarískt réttarkerfi og sitja tíma við Ohio Northern. Sömuleiðis hafa bandarískir laganemar komið hingað til Íslands og kynnt sér íslenskt réttarkerfi og kennslu við Háskóla Íslands. Samstarfssamningurinn er einn elsti sinnar tegundar í Bandaríkjunum. Hér áður fyrr fóru íslenskir nemendur í um það bil mánuð og sátu tíma við Ohio Northern, en í dag gefst nemendum bæði tækifæri á að heimsækja Ohio Northern í nokkra daga ferð eða með því að fara í raunverulegt skiptinám.

Undirrituð fór ásamt 7 laganemum til Ada, Ohio í lok október 2008. Sú ferð er eflaust með þeim merkilegri sem hafa verið farnar, enda lögðum við af stað aðeins örfáum dögum eftir fjármálahrun á Íslandi og vorum í Bandaríkjunum þegar Barack Obama var kjörinn Bandaríkjaforseti. Við gistum heima hjá laganemum frá Ohio og sátum tíma í Ohio Northern og fengum þannig ágætis innsýn inn í daglegt líf bandarískra laganema og bandarískrar lagakennslu. Þetta var alveg ótrúlegur tími. Í Ada búa um 6000 manns, en flestir af þeim eru í Ohio Northern háskóla. Bærinn iðar af stúdenta lífi.

Í næsta bæ, Lima, heimsóttum við dómstóla og fengum kynningu frá dómurum á dómstólakerfi Bandaríkjanna. Þar kom ýmislegt fróðlegt í ljós, til að nefna eru dómarar kjörnir í almennum kosningum og í einum dómstól hefur til dæmis ekki verði demókrati kjörinn í yfir 40 ár. Allir dómararnir við þennan tiltekna dómstól voru þannig af sama kyni, trúarbrögðum, lit og deildu sömu stjórnmálaskoðunum. Í Lima fengum við einnig tækifæri á að kynnast störfum lögreglumanna með því að sitja í lögreglubíl með þeim eina vakt. Í Lima eru um 40.000 manns, en bærinn glímir við gífurlegt atvinnuleysi, eiturlyfjanotkun, vændi og glæpagengi. Þar var mikil lífsrensla að fylgjast með störfum lögreglu eitt kvöld í þeim bæ. Við fórum jafnframt á skot æfingarsvæði þar sem þeir hörðustu í hópnum fengu tækifæri á að hleypa af skoti. Á meðan fengum við hin, sem hræðumst skotvopn, tækifæri á að ræða við manninn sem sá um skotsvæðið. Sá var stórkostlegur karakter, bjó í húsbíl og hélt því fram að Barack Obama myndi gera hvíta manninn að þræl, kæmist hann til valda.

Við vorum í Ohio þegar Barack Obama var kjörinn forseti og það var alveg ótrúleg tilfinning að vera heima hjá bandarískum prófessor með bandarískum laganemum af öllum stærðum og gerðum þegar fyrsti svarti forseti Bandaríkjanna var kjörinn. Við fórum í kosningakaffi til bæði demókrata og repúblikana og það var ótrúleg upplifun, kosningabaráttan vestanhafs er gerólík kosningabaráttunni hérna heima.

Samstarf lagadeildar Háskóla Íslands og lagadeildar Ohio Northern háskólans hefur gefið fjölmörgum stúdentum við báða skóla tækifæri á að kynna sér lagakennslu og menningu hvors annars. Samstarf af þessu tagi eflir báða skóla og hefur opnað nýjar dyr fyrir nemendur beggja skóla. Það er vonandi að samstarfið endist í önnur 50 ár og gott betur.