Þorláksmessa knattspyrnuaðdáenda

Það má með sanni segja að dagurinn í dag sé nokkurs konar Þorláksmessa þeirra sem fylgjast af lífi og sál með knattspyrnu. Eftirvænting og tilhlökkun fær að leika lausum hala, líkt og hjá yngri kynslóðinni fyrir jólahátíðina, enda ótrúlegar kræsingar sem verða á boðstólum næsta mánuðinn. Hver þjóð bíður spennt að sjá hvers konar gjafir leikmenn þeirra ætla að senda heim frá Suður-Afríku.

Það má með sanni segja að dagurinn í dag sé nokkurs konar Þorláksmessa þeirra sem fylgjast af lífi og sál með knattspyrnu. Eftirvænting og tilhlökkun fær að leika lausum hala, líkt og hjá yngri kynslóðinni fyrir jólahátíðina, enda ótrúlegar kræsingar sem verða á boðstólum næsta mánuðinn. Hver þjóð bíður spennt að sjá hvers konar gjafir leikmenn þeirra ætla að senda heim frá Suður-Afríku. Sumar þjóðir eru kröfuharðari en aðrar og búast við gulli og gimsteinum á meðan aðrar eru hæstánægðar með að fá að taka þátt í knattspyrnuhátíðinni. Enn aðrar þjóðir verða hins vegar að láta sér nægja að fylgjast með hátíðinni úr örlítið meiri fjarlægð.

Hið síðasta er hlutskipti okkar Íslendinga eins og ávallt þegar kemur að stórmótum í knattspyrnu. Íslenska landsliðið hefur sjaldan átt raunhæfa möguleika á að tryggja sér sæti á HM og því hefur skapast nokkuð rík hefð um að fylkja sér á bakvið sigurstranglegri landslið á meðan mótinu stendur. Enska landsliðið hefur löngum þótt vinsæll kostur þar sem enska úrvalsdeildin er sú langvinsælasta á meðal íslenskra knattspyrnuáhugamanna. Þó eiga fleiri lið sér sterka stuðningsmannahópa hér á landi svo sem Spánn, Ítalía, Þýskaland og frændur okkar Danir. Það er hins vegar sjaldgæfara að hinar „minni“ knattspyrnuþjóðir njóti stuðnings hinna hlutlausu og því fer fólk oftar en ekki á mis við stórgóða fótboltaleiki. Þetta er nokkuð sem er gott að hafa í huga þegar velja á leiki til áhorfs.

Til að byrja með má nefna Afríkuþjóðirnar en þær eru sex talsins á mótinu í ár. Afrísku liðin hafa oftar en ekki spilað þrælskemmtilegan sóknarbolta vakið athygli fyrir mikla leikgleði. Skemmst er að minnast liða Kamerún á HM ’90 og Nígeru á HM ’94. Það má gera ráð fyrir að leikir þessara liða verði talsvert skemmtilegri áhorfs en til dæmis leikir landsliða Dana, Svisslendinga og Grikkja. Einnig verður áhugavert að fylgjast með framgangi Japana og Suður-Kóreu en nágranna hinna síðarnefndu frá Norður-Kóreu bíður hins vegar líklega óyfirstíganlegt verkefni í hinum svokallaða „dauðariðli“. Hér eru aðeins nokkur lið nefnd og ljóst að til dæmis suður-amerísku liðin eiga eftir skemmta áhorfendum vel flest með blússandi sóknarbolta.

Það er því engin ástæða til þess að einskorða sig við að horfa á leiki hjá hinum svokölluðu stórþjóðum knattspyrnunnar. Það hefur sannað sig í gegnum tíðina að árangursríkasta leikaðferðin er ekki alltaf sú skemmtilegasta fyrir áhorfendur. Framundan eru 64 leikir á 31 degi og engin hætta á öðru en að stórkostleg skemmtun bíður okkar sem erum svo lánsöm að elska leikinn!