Gamalt vín á nýjum belgjum

Utanríkisstefna stjórnvalda í Bandaríkjunum hefur verið mjög í deiglunni síðustu misseri. Örn Arnarson, sem er í framhaldsnámi í alþjóðastjórnmálum og hagfræði við School of Advanced International Studies í Bandaríkjunum, fjallar ítarlega um þessi mál í sérstökum gestapistli hér á Deiglunni.

Einstaka atburðir hafa kollvarpað og endurskapað alþjóðakerfið, það er kerfið sem mótar og setur leikreglurnar um dimplómatísk samskipti ríkja. Ekki er hægt að efast um að Þrjátíu ára stríðið, Napóleonstyrjaldirnar og heimstyrjöldin síðari falli undir slíka atburði. Í kjölfar þessara stríða riðluðust valdablokkir og nýjar hefðir mynduðust í samskiptum ríkja.

Breyttur heimur?

Margir telja að ein af afleiðingum hryðjuverkaárásana á New York og Washington D.C að morgni hins 11. september 2001 sé að ríkjandi alþjóðakerfi, sem hefur markast af marghliða alþjóðasamskiptum á sviði hernaðar, efnahagsmála og stjórnmála í þeirri viðleitni að leysa aðkallandi vandamál hvort sem um er að ræða kommúnisma, efnahagskreppur ellegar staðbundin stríð er kunna að valda óstöðuleika, muni senn hverfa eða veikjast og í stað þess muni alþjóðamál einkennast enn frekar af getu Bandaríkjana til þess að ráðast í einhliða aðgerðir til þess vernda hagsmuni sína án þess að skeyta um afleiðingar þeirra á bandamenn þeirra – einkennast af þeirri staðreynd að Bandaríkin er eina ríkið í heiminum sem getur hagað sér eins og “fullkomið fullveldi”, eins og það var nefnt í ágætri grein sem birtist hérna á Deigluni á dögunum. Vilji Bandaríkjanna til þess að ráðast á fullvalda ríki undir yfirskyni forvarna sem og yfirlýsingar frá Hvíta Húsinu um að Bandaríkin séu tilbúinn til þess að koma stjórn Saddam Husseins fyrir kattarnef, með stuðningi Sameinuðu Þjóðana eður ei, er vissulega vatn á myllu þeirra sem halda þessari skoðun fram.

Einhliða aðgerðir

En þessi skoðun á ekki við rök að styðjast. Ekki vegna þess að Bandaríkjamenn hafi gerst sérstaklega miklir áhugamenn um alþjóðasamstarf í kjölfar 11. september, heldur vegna þess að þeir hafa ávallt verið hamskiptingar í alþjóðamálum – stuðst við alþjóðasamstarf þegar þeim hefur hentað og ráðist í einhliða aðgerðir þegar svo hefur borið við. Hér verður látið liggja milli hluta að ræða nýleg dæmi um einhliða stefnu Bandaríkjana í alþjóðamálum, svo sem afstöðuna til Kyota-bókunarinnar og fleira til sem flestum ætti að vera kunnugt um. En hinsvegar skal bent á að Bandaríkin voru í lykilhlutverki í því að koma alþjóðastofnunum eins og SÞ, Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, Alþjóðabankanum og svo GATT síðar WTO á laggirnar eftir síðari heimstyrjöld. Bandaríska hugmyndarfræðin sem lá að baki að baki þessara stofnana, og því alþjóðakerfi sem þær leggja grunninn að, var ekki endilega sú að auka margræði í alþjóðastjórnmálum heldur að tryggja sess þeirra gilda sem bandaríkjamenn segjast unna hvað mest, lýðræði og frjálsra viðskipta.

Alþjóðastofnanir stuðluðu að hagsmunum Bandaríkjanna

Með því að fá sem flest ríki til þess að formbinda samstarf í gegnum þessar stofnanir efldu Bandaríkin stöðu sína í heiminum og styrktu stoðir lýðræðis og frjálsra viðskipta í samkeppninni við aðra hugmyndafræði, fyrst og fremst kommúnismann. Þetta er dæmi um hvernig Bandaríkin hafa notað alþjóðasamstarf til þess að auka veldi sitt. Frá og með lokum síðari heimstyrjaldarinnar er að finna mýmörg dæmi um einhliða ákvarðanatöku Bandaríkjanna sem hefur einkennst af kaldri realpolitik og skeytingaleysi um hagsmuni bandamanna. Þessi dæmi er fyrst og fremst að finna á sviði hernaðar og efnahagsmála. Íhlutun Bandaríkjamanna í málefnum ríkja í Suður –Ameríku flokkast undir einhliða aðgerðir og að mörgu leyti eru þær samanburðarhæfar við núverandi stefnu Bandaríkjanna gagnvart Írak – árás/íhlutun í forvarnarskyni í þeirri viðleitni að koma á stjórn sem er vinveitt Bandaríkjunum.

Efnahagsvopn Bandaríkjanna

Fleiri dæmi um einhliða aðgerðir er að finna á sviði efnahagsmála. Bandarísk stjórnvöld voru lengi vel viljug til þess að misnota stöðu dollarans í alþjóðahagkerfinu til þess að komast hjá því að taka til í sínu hagkerfi. Undir Bretton-Woods kerfinu prentaði seðlabankinn ótæpilegt magn af dollurum til þess að borga fyrir Víetnam stríðið og umbætur í velferðarkerfinu. Bandaríkjamenn sluppu við þau óþægilegu áhrif sem hlýst af ótæpilegri seðlaprentun vegna þess að Evrópa og Japan neyddust til þess að taka við þessu aukna magni af dollurum og vera með þá skiptanlega á föstu gengi – þannig að Bandaríkin fluttu út verðbólguna til Evrópu. Þrátt fyrir háværa gagnrýni manna eins og Rueff og de Gaulle, og ekki svo háværa gagnrýni frá stjórnvöldum í Bonn, héldu bandarísk stjórnvöld þessari iðju áfram. Hún leiddi til hruns Bretton-Woods kerfisins og í kjölfar þess fundu Bandaríkin aðrar leiðir til þess að misnota dollarann sér í þágu með sársaukafullum afleiðingum fyrir önnur ríki. Í raun var það þessi einhliða stefna Bandaríkjamanna í gjaldeyrismálum sem leiddi til þess að evrópsk stjórnvöld fóru að gæla við hugmyndir um sameiginlegan gjaldmiðil.

Rómverski guðinn Janus

Að sjálfsögðu rista ofangreind rök frekar grunnt, enda er ekki ætlunin með þessari grein að gefa tæmandi lýsingu á viðfangsefninu, en af þeim má álykta að utanríkisstefna Bandaríkjana hefur ávallt verið með grímu rómverska guðsins Janusar; hún hefur einkennst bæði af vilja til alþjóðasamstarfs og getu til einhliða aðgerða þegar svo ber undir. Þetta þýðir að núverandi stefna Bandaríkjana gagnvart Írak felur í sér engin nýmæli, þótt að haukarnir í Pentagon hafi fært hana í gamaldags kabbojaföt sem ekki allir hafa smekk fyrir – sérstaklega þeir sem koma frá öðrum menningarsamfélögum.

Dúfur eða refir

Það verður fróðlegt að fylgjast með því hvernig mál munu þróast í öryggisráði SÞ næstu vikurnar. Vilji Bandaríkjana til þess að afla stuðnings við alþjóðasamfélagið er áhugaverður og hann leggur töluverða pressu á bandamenn þeirra til þess að styðja aðgerðir gegn Írak. Í fljótu bragði virðist sem svo að gjá vegna Íraksmálsins hafi myndast á milli Bandaríkjanna og bandamanna þeirra. Öðrum megin standa bandarískir haukar og hermenn og gegnt þeim eru evrópskar dúfur. En myndin er því miður ekki svona einföld. Ef fólki finnst sá stríðshamur sem stjórnvöld í Washington D.C. eru í miður aðdáunarverður ætti það að velta því fyrir sér hvað til að mynda frönskum og rússneskum stjórnvöldum gengur til. Einhvern veginn læðist að manni sá grunur að þær efasemdir sem þau hafa um innrás í Írak hafi meira með viðskiptalega hagsmuni þessara ríkja að gera en hugmyndafræði og að allar úrtölur hafi það takmark að hækka það verð sem Bandaríkin munu þurfa að greiða fyrir stuðning þessara ríkja. Ef þetta er rétt ályktun þá er það ljóst að evrópskir stjórnmálamenn ættu að fara að rifja upp kynni sín af ræðum og ritum de Gaulle.

Evrópa býður ekki valkost

Evrópa getur ekki ætlast til þess að hafa áhrif á gang mála í alþjóðastjórnmálum og verið áreiðanlegur og góður bandamaður Bandaríkjanna án þess að hafa sameiginlega utanríkisstefnu sem er trúverðug og byggir á auknum hernaðarmætti. Ef að staðreyndin er sú að Bandaríkin séu að sýna óþolandi valdhroka og vanvirðingu gagnvart fullveldishugtakinu með stefnu sinni gagnvart Írak hlýtur ástæðan að einhverju leyti felast í ósamstæðri utanríkisstefnu Evrópu og vangetu hennar til þess að draga úr ákafa Bandaríkjanna. Í gegnum NATO voru ríki Evrópu tilbúin til þess að sniðganga fullveldi Júgóslavíu og hefja hernaðaraðgerðir í Kosova og var lögmæti þeirra aðgerða byggt á þeirri hugmyndafræði að stjórnvöld ákveðinna ríkja geti fyrirgert rétti sínum til fullveldis sé framferði þeirra einkar ógeðfellt. Það sama er nú upp á teningnum. Bandaríkin hafa sýnt fram á vilja til þess að byggja upp alþjóðlega samstöðu gegn Írak en getuleysi helstu valdaríkja Evrópu til þess að bjóða upp á einhverja heildstæða stefnu eða valmöguleika við stefnu Bandaríkjana vekur upp efasemdir um hvort að Bandaríkin muni sýna þennan vilja í framtíðinni. Og ef svo fer mun martröð minni spámanna í alþjóðakerfinu verða að veruleika; Bandaríkin munu snúa sér alfarið að einhliða utanríkisstefnu.

Höfundur er í framhaldsnámi í alþjóðastjórnmálum og hagfræði við School of Advanced International Studies.

ATH: Myndaval er á ábyrgð ritstjórnar.
deiglan@deiglan.com'
Latest posts by Gestapistill (see all)