Vil ég tortíma Reykjavík?

Framundan eru borgarstjórnarkosningar í Reykjavík. Það er alltaf gleðiefni þegar blásið er til kosninga, en aðdragandi þessara kosninga hefur verið gleðilegri en gengur og gerist, og er þar fyrir að þakka framboði Besta Flokksins, hópi fólks sem undir forystu Jóns Gnarr hefur lagst í háðungarherferð gegn ríkjandi öflum í borgarpólitíkinni. Á stuttum tíma hefur flokkurinn aflað sér risavaxins fylgis, og ég held að ekki sé vitlaust að velta fyrir sér ástæðunum sem liggja að baki – öðrum en þeim augljósu, að fók er alltaf veikt fyrir góðu gríni og vandlega smíðaður brandari á sér alltaf aðdáendur.

Framundan eru borgarstjórnarkosningar í Reykjavík. Það er alltaf gleðiefni þegar blásið er til kosninga, en aðdragandi þessara kosninga hefur verið gleðilegri en gengur og gerist, og er þar fyrir að þakka framboði Besta Flokksins, hópi fólks sem undir forystu Jóns Gnarr hefur lagst í háðungarherferð gegn ríkjandi öflum í borgarpólitíkinni. Á stuttum tíma hefur flokkurinn aflað sér risavaxins fylgis, og ég held að ekki sé vitlaust að velta fyrir sér ástæðunum sem liggja að baki – öðrum en þeim augljósu, að fók er alltaf veikt fyrir góðu gríni og vandlega smíðaður brandari á sér alltaf aðdáendur.

Ég þarf sennilega ekki að eyða miklu púðri í að ræða þá álitshnekki sem íslensk pólitík hefur beðið á tímabilinu eftir hrun. Eitt sinn virðuleg ímynd margra stjórnmálamanna er í mörgum tilfellum orðin sjúskuð og raddir sem okkur þóttu eitt sinn traustvekjandi og málefnalegar hljóma nú eins og raddir vafasamra sölumanna þar sem eitthvað hangir alltaf á spýtunni. Eins hefur okkur lærst á erfiða mátann að auðveldara er að gefa loforð en að efna þau og að ekki má mæla skynsemi manna í verðmæti jakkafatanna sem þeir klæðast. Fólk hefur einfaldlega fengið nóg af kaótískri spillingarpólitík og vill sjá breytingar. Og við höfum vissulega fengið að sjá breytingar, en ekki til hins betra í öllum tilfellum.

Það er jákvætt að Íslendingar virðist loksins hafa áttað sig á að þegar embættismaður hefur einu sinni sest í ráðuneytisstól þá er hann ekki sjálfkrafa fastur þar til eilífðar (eða ellilauna), við höfum séð stjórnmálamenn sem gert hafa mistök sjá raunverulega að sér og segja stöðu sinni lausri, sem er nánast nýjung hér á landi. Í Bretlandi mega stjórnmálamenn varla hella niður kaffi, þá eru þeir búnir að segja af sér án tafar en einhverra hluta vegna virðist vera rótgróið í hérlenda stjórnmálamenn að sitja sem fastast hvað sem tautar og raular. Menn hafa staðið af sér ótrúlegustu hneykslismál sem jafna má við náttúruhamfarir án þess að fara fet, slíkt er segulmagn hásætanna á Alþingi í ráðuneytum og bæjarskrifstofum. En þetta hefur breyst og þannig hefur ákveðin viðhorfsbreyting átt sér stað, sem helst í hendur við aukna meðvitund um að þrátt fyrir að við séum smá þjóð í Norður Atlantshafi og einstök að einhverju leyti erum við ekki yfir það hafin að hlýða lögum og regluverki, við erum ekki undantekningatilfelli sem sanna allar reglur.

En það er víðar sem sjá má breytingar – fólk sem áður var áhugasamt um þjóðmál og pólitík hefur fengið nóg af hvoru tveggja. Sífellt fleiri slökkva á kvöldfréttunum til að sinna garðinum eða hlusta á tónlist. Fréttaumfjöllum og stjórnmálaumræða vekur ýmist reiði, kvíða eða klígju hjá mörgum eða bara fullkomið áhugaleysi. Sem er kannski verst af öllu, að í framhaldi af hverjum stórsögulegum atburðinum á fætur öðrum skuli fleiri og fleiri skella skollaeyrum við fréttaflutningi og þjóðmálaumræðu á Íslandi.

Enter: Besti Flokkurinn. Jón Gnarr mætir með hárbeitta háðsádeilu á allt það sem farið hefur í taugarnar á landanum við pólitík og stjórnmálamenn, og það á hárréttum tímapunkti. Hann hittir beint í mark með því að setja blygðunarlaust valdagræðgi, tækifærismennsku og blekkjandi hugtakanotkun fram á heiðarlegan hátt án þess að gera nokkra tilraun til að dylja raunverulegar forsendur pólitískrar þáttöku sinnar, sem er auðvitað tilgangurinn með framboðinu – að afhjúpa akkúrat þessar vafasömu en oft á tíðum raunverulegu ástæður pólitískrar þátttöku á Íslandi. Þetta stönt þeirra félaga er ekkert minna en stórkostlega vel heppnað, enda virðist mikill metnaður liggja að baki og hugmyndasmiðir stefnumála Besta Flokksins eru augljóslega frjóir og framúrstefnulegir, ennþá frekar en þeir sem gegna sama hlutverki hjá öðrum flokkum, enda er grínið sennilega auðveldara í meðförum en alvaran annars staðar, þar sem fólk ætlar sér raunverulega að vinna í þágu borgarbúa. Framlag þess fólks má ekki vanvirða með því að taka brandarann of alvarlega eða misskilja tilgang hans, sérstaklega í ljósi þess sem skoðanakannanir sýna; að mikil ánægja ríkir með störf sitjandi borgarstjóra.

Ég er sennilega hluti þess hóps sem Besti Flokkurinn nær hvað best til – nefnilega ungt fólk, í hverra eyrum orð Jóns Gnarr hafa alltaf haft mikið vægi, fólk af minni kynslóð leggur hlustir þegar Jón hefur eitthvað að segja. Eins er ég ginnkeypt fyrir hvers kyns háði og ádeilu, og þegar því er beint að pólitík verður óneitanlega úr spennandi blanda. Enda hef ég legið yfir útgefnu efni frá Flokknum, fylgst með brandaranum lengjast og viðhlæjendum fjölga. Nýjasta uppátækið er svo kosningalag Besta Flokksins með myndbandi sem fær flesta sem á horfa til að emja úr hlátri. Það er hreint og beint unaðslegt að sjá Jón rölta með værðarsvip um götur borgarinnar með hundinn sinn, leika við börn af öllum kynþáttum og klappa steinum í Öskjuhlíðinni.

En auðvitað hlýtur maður að spyrja sig hvar þetta endar – Besti Flokkurinn er nú samkvæmt skoðanakönnunum orðinn stærsti flokkurinn í Reykjavík, og myndi að öllu óbreyttu ná inn 6 mönnum í borgarstjórn. Þannig er þessi brandari kortéri í að hætta að vera fyndinn. Ég hef litla trú á að það sé raunverulega það sem Jón Gnarr og hans félagar ásælist, ég veit ekki hvert pönsjlænið í þessum heljarinnar brandara verður (þó svo að ég hafi alltaf gert ráð fyrir að framboðið verði dregið til baka á einhverjum tímapunkti) en ég veit að hann er í það minnsta búinn að gegna mikilvægu hlutverki nú þegar – að vera aðvörun til þeirra sem stýrt hafa borginni hingað til. Að sýna hinum stjórnmálaöflunum í borginni að fólk er hundóánægt, upp að því marki að það er reiðubúið að sóa atkvæði sínu á grínframboð. Og það er alvarlegt aðvörunarmerki sem ekki má hunsa.

Því að ætli aðrir flokkar að ná á ný til ungs fólks verða þeir til dæmis að átta sig á mikilvægi þess að sá hópur eigi kost á ódýru og hagkvæmu húsnæði. Sveitarfélög gætu stuðlað að þessu með því að kunna sér hóf í okri á upphafsgjöldum á byggingarlóðir með gatnagerðargjöldum og byggingarréttargjöldum, tengigjöldum og úttektargöldum í stað þess að innheimta útlagðan kostnað með lóðarleigu sem dreifist á líftíma húsnæðisins.

Það eru nefnilega ekki bara alþingismenn sem er nauðsynlegt að fari í naflaskoðun vegna hrunsins. Hvenær kemur röðin að sveitarstjórnarmönnum sem slógu erlend lán í okkar nafni til þess að búa til byggingarlóðir, oft í algjöru ráðaleysi, sem nú standa auðar upp um hæðir og dali og ætlast svo til að við borgum reikninginn? Getur það verið að þeir sem þarna réðu ferð, ekki síður en útrásarvíkingar og fjármálaspekúlantar, hafi lítið vitað hvað þeir voru að gera? Þarf þetta fólk ekki líka að axla ábyrgð á sínum ákvörðunum?

Þannig er á mörgu að taka í borgarmálunum, og það verður vonandi í höndum þeirra sem hafa reynslu, raunverulegan áhuga og er full alvara með að stjórna Reykjavík í framtíðinni, þó svo að auðvitað viljum við öll alls konar fyrir aumingja, fíkniefnalaust Alþingi og sjálfbært gagnsæi.

Latest posts by Guðrún Sóley Gestsdóttir (see all)