Bráðum kemur betri tíð

Ný þjóðhagsspá sem birt var í gær gefur tilefni til mikillar bjartsýni í efnahagsmálum. Verðbólga lækkar hratt og stefnir á núll, viðskiptahallinn er að hverfa og útlit fyrir verulega aukinn hagvöxt. Þessi spá hafði samdægurs áhrif á peningamarkaðinn hér heima því allir bankarnir boðuðu vaxtalækkanir. Eins og útlitið er í efnahagsmálum þá er erfitt að sjá hvernig Seðlabankinn getur áfram haldið fast við vaxtastefnu sína.

Ný þjóðhagsspá sem birt var í gær gefur tilefni til mikillar bjartsýni í efnahagsmálum. Verðbólga lækkar hratt og stefnir á núll, viðskiptahallinn er að hverfa og útlit fyrir verulega aukinn hagvöxt. Þessi spá hafði samdægurs áhrif á peningamarkaðinn hér heima því allir bankarnir boðuðu vaxtalækkanir. Eins og útlitið er í efnahagsmálum þá er erfitt að sjá hvernig Seðlabankinn getur áfram haldið fast við vaxtastefnu sína.

Nú þegar við siglum inn í nýtt uppgangsskeið í efnahagsmálum er ekki er úr vegi að rifja upp málflutning stjórnarandstæðinga, innan þings og utan, þegar þeir básúnuðu sem mest um að kreppan væri skollin á, að „góðæri Davíðs Oddssonar“ væri búið og að nú væri óhætt að taka sólgleraugun niður. Þá átöldu þeir stjórnvöld mjög harkalega fyrir að „grípa ekki til einhverra aðgerða“ eins og það var kallað. Engum datt reyndar neitt sérstakt í hug, nema auðvitað að ganga í Evrópusambandið og taka upp evruna, það myndi líklega bjarga íslenska hagkerfinu.

En hvernig skyldi staðan vera í aðildarlöndum Evrópusambandsins, í draumaríkinu sjálfu? Þar eru menn að súpa seyðið af háum sköttum, reglugerðafargani og öðrum hlekkjum sem atvinnulífinu er settir. Stefna stjórnvalda hér á landi hefur markvisst verið sú að losa um sem flest höft á atvinnulífið. Án öflugs atvinnulífs er tómt mál að tala um aðra hluti sem stjórnvöldum á hverjum tíma eru svo hugleiknir. Verðmætasköpun í þjóðfélaginu er grundvöllur öflugs velferðarkerfis.

Þessa staðreynd virðast vinstrimenn seint ætla að meðtaka. Þeir halda auðvitað, eins og kollegar þeirra í draumaríkinu, að háir skattar og ítarlegar reglur séu undirstaða velferðar. Ef verðmæti dyttu af himnum ofan gengi sú kenning auðvitað upp. Kannski að „viðræður um hvaða kostir bjóðast“ Íslendingum í ESB muni einmitt leiða það í ljós, að þar falli verðmæti bara af himnum ofan? Auðvitað eiga menn að vera vakandi yfir þróun mála í Evrópu og hugsanlega kann sá tími koma að aðild verði fýsilegur kostur fyrir Íslendinga. Nú um stundir eru hins vegar ekki sjáanlegar neinar aðkallandi aðstæður, allra síst efnahagslegar, sem knýja á um breytta stefnu stjórnvalda í þessum efnum.

Betri horfur í efnahagsmálum eru stjórnvöldum eflaust kærkomin tíðindi eftir erfiða fjölmiðlaumfjöllun síðustu vikna. Launþegahreyfingin og samtök vinnuveitenda hljóta að sama skapi að kætast. Það gleymist oft í argaþrasi stjórnmálanna að öll okkar tilvera hvílir á efnahagslegri undirstöðu. En þrátt fyrir hagstæða þjóðhagsspá er of snemmt að hrósa sigri. Stjórnvöld verða áfram að fylgja aðalhaldsamri peningastefnu og forðast að láta kröfur þrýstihópa ráða hagstjórninni. Vinnuveitendur og launþegar eiga að sameinast um að halda frið á vinnumarkaði, því kjarabót hagvaxtarins er svo miklu, miklu meiri en nokkur sú kjarabót sem fengist með taxtahækkunum.

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.