Draumur um Hróarskeldu

Það er erfitt að reyna að lýsa þeirri upplifun og þeirri tilfinningu að vera staddur á Hróarskeldu. Ástæðurnar fyrir því hvers vegna fólk fer til að byrja með eru misjafnar en flestir sem eru að fara í annað, þriðja, já eða tíunda skiptið hafa sömu sögu að segja: „það er bara eitthvað við stemminguna, andrúmsloftið og fólkið“.

Hróarskelda er ein af fimm stærstu rokkhátíðum í Evrópu. Að meðaltali eru í kringum 100.000 manns á hátíðinni, en þá er talið með starfsfólk, sjálfboðaliðar, fjölmiðlamenn og aðrir gestir. Þrátt fyrir þennan fjölda er lítið um afbrot og almenn læti enda er gæslan á hátíðinni til fyrirmyndar og hegðun flestra sem koma þarna líka.

Í sumar verður fertugasta Hróarskelduhátíðin haldin, nánar tiltekið 1-4.júlí nk. Undirrituð hefur farið á tvær hátíðir 2007 og 2008. Á leiðinni heim af hátíðinni 2008 var strax hafist handa við að plana næstu ferð sem átti að fara árið eftir. Sú ferð var ekki farin og lítur allt út fyrir að ferðin á hátíðina 2010 verði því miður blásin af líka.

Aðstandendur hátíðarinnar hafa haft þann háttinn á að aðgöngumiðinn kostar það sama hvar sem þú kaupir hann í heiminum, þetta er gert til þess að reyna að koma í veg fyrir að óprúttnir aðilar séu að selja falsaða miða á lægra verði en þá hefðbundnu. Þetta fyrirkomulag þykir mér sniðugt og er hægt að sjá hvaða aðilar selja miðana í hverju landi á heimasíðu hátíðarinnar. Á núverandi gengi kostar miðinn inn á hátíðina 44.900 kr. í ár, þá á eftir að kaupa flugið út og annað uppihald á hátíðinni. Það sama var upp á teningnum í fyrra og því hefur ferð minni á hátíðina verið slegið á frest að minnsta kosti ár í viðbót.

Það er erfitt að reyna að lýsa þeirri upplifun og þeirri tilfinningu að vera staddur á Hróarskeldu. Ástæðurnar fyrir því hvers vegna fólk fer til að byrja með eru misjafnar en flestir sem eru að fara í annað, þriðja, já eða tíunda skiptið hafa sömu sögu að segja: „það er bara eitthvað við stemminguna, andrúmsloftið og fólkið“.

Ég er almennt lítið fyrir að sofa í tjaldi, ég vil komast í mína sturtu og helst ekki búa með köngulóm, froskum eða öðrum dýrum. Á þessari hátíð er samt eins og þetta verði allt saman smámunir, sem skipta eingu máli. Árið 2007 var mesta rigning sem hefur verið í sögu hátíðarinnar, leðjan og drullan náði upp að hnjám og 2 mínútna labb að klósettunum varð að 20 mínútum. Tjaldið lak, fötin voru blaut og það að komast í sturtu var eiginlega óþarfa vesen þar sem þú varst orðinn jafn skítugur og áður loksins þegar komið var aftur í tjaldið. Samt var næsta ferð plönuð strax í flugvélinni á leiðinni heim. Því það er svona gaman að vera þarna.

Hátíðin er þekkt fyrir einstaklega þétta, góða og vel skipulagða tónlistardagskrá á hverju ári. Mikið er lagt upp úr því að hafa sem fjölbreyttasta tónlist til þess að flestir fái eitthvað við sitt hæfi. Þó að heimsþekktar hljómsveitir og tónlistarmenn trekki að er líka að finna mikið af minni hljómsveitum sem eru að stíga sín fyrstu skref. Þó nokkuð margar íslenskar hljómsveitir hafa fengið tækifæri til að spila á hátíðinni og má þar nefna: Sykurmolana, Björk, Sigurrós, Unun, GusGus, Mugison, Mínus, Bloodgroup og Hjaltalín. Listinn af heimsþekktum hljómsveitum og tónlistarmönnum sem komið hafa fram er ansi langur og koma margir af þeim aftur og aftur og tala um að það sé einstakt að spila fyrir tónleikagesti á Hróarskeldu. Þessir aðilar eru meðal annars: Bob Dylan, Neil Young, U2, Blur, Oasis, Lou Reed, Metallica, Bob Marley, Marlin Manson, Radiohead, Nirvana, Muse, Aerosmith og David Bowie.

Það er líka mikið um að vera fyrir þá sem eru ekki til í að flakka á milli tónleika allan daginn og fram á nótt. En það eru litlar búðir þar sem hægt er að versla allt milli himins og jarðar, í rauninni er hægt að mæta allslaus og versla allt sem þarf á staðnum, föt, tjald, dýnur, svefnpoka og annan útbúnað. Maturinn er mjög fjölbreyttur og er hægt að fá allt frá nachos upp í Prime Ribs, svo það er eitthvað fyrir alla. Það eru nokkrir barir með mismunandi þemu t.d er hægt að fara á strandbar og fá sér kokteil eða kíkja í bjórtjald og fá sér einn kaldann á krana. Það er hægt að taka með sér hjólabretti og sýna listir sínar á svokölluðum römpum, fara á skauta, veiða og margt fleira. Síðan er auðvitað hægt að eyða deginum á tjaldsvæðinu með gítar eða góða bók ef fólki sýnist svo. Svo getur verið gaman að kíkja í dagsferð inn í Hróarskeldu bæinn og skoða sig þar um.

Stefnan er tekin á að fara eins fljótt og mögulegt er á Hróarskeldu, en á meðan gengið gerir það nánast ómögulegt mun ég halda áfram rifja upp ferðirnar tvær, skoða myndir og láta mig dreyma. Hugurinn ber mann líka hálfa leið.