Enginn jafnari en aðrir

Nýjar innritunarreglur í framhaldsskólanna litast talsvert af hugmyndum um að jafna gæði framhaldsskólanna. Með því að trampa á þeim grösum sem dirfast að standa upp úr.

Nýjar innritunarreglur í framhaldsskólanna litast talsvert af hugmyndum um að jafna gæði framhaldsskólanna. Með því að trampa á þeim grösum sem dirfast að standa upp úr.

Með breyttum reglum um inntöku í framhaldsskólanna, sem settar voru í vetur, er skólum skylt að taka inn 45% allra nýnema úr skólum í grenndinni. Reglurnar voru settar í kjölfar töluverðrar ringulreiðar við nýskráningu seinasta haust, óvenjumargir fengu ekki inngöngu í neinn þeirra skóla sem þeir sóttu um, og afnám samræmdra prófa jók á óvissuna um hvernig meta ætti nemendur úr ólíkum skólum. Við þessu eiga nýju reglurnar að sporna. Vandinn er hins vegar sá að ef 250 manns sækja um í skóla sem 100 komast í þá munu 150 nemendur verða ósáttir. Spurningin er bara við hvort eigum við að velja hina 100 á grundvelli þess hve klárir þeir eru, eða hve nálægt foreldrar þeirra kusu að kaupa sér íbúð 10 árum áður.

Ein þeirra raka sem heyra hefur mátt í umræðunni, sérstaklega frá vinstri væng stjórnmálanna, er æskilegt sé að framhaldsskólarnir séu „fjölbreytt samsettir“ og ekki sé æskilegt að til verði sérstakir „tossaskólar“ og „elítuskólar“. Það er auðvitað fráleit hugmynd að samkeppni milli skólanna sé óæskileg, og að bæta eigi við hugtakinu „vitsmunalegur jöfnuður“ inn í orðaforða menntamála.

En segjum að einhver myndi samþykkja að æskilegt væri að stuðla að því að allir framhaldsskólar á landinu væru jafngóðir, með því að banna samkeppni á milli þeirra. Jafnvel þá væri hverfisskólafyrirkomulagið ekki leið til þess að jafna aðstöðumunn milli nemenda. Til þess hefðu öll hverfi og allir bæir á Íslandi vera eins samsettir þegar kemur að bakgrunni nemenda, en það er ekki. Er það virkilega skref sem sem gengur gegn elítisma að nýbúi úr Breiðholti með 8 í meðaleinkunn eigi, ofan á allt annað, erfiðara með að komast inn í MR, MH eða Versló, langi hann til þess, en Vestur- eða Austubæingar með 6,5? Hvernig fá menn út að sú ójafna leiði af sér jöfnuð?

Bent hefur á að nýju 45% reglurnar séu ekki svo íþyngjandi fyrir marga skóla ef skoðað er frá hvaða skólum nýnemar seinustu ára hafa komið. En þá er gleymt að gera ráð fyrir að breyttar reglur leiða af sér breytta hegðun. Á málþingi um nýju reglurnar sem haldin var í Verslunarskólanum í gær kom fram í máli nemanda í 10. bekk að margir vina hennar þorðu ekki annað en að velja hverfisskólann sinn sem einn af valmöguleikum af ótta við að fá þá ekki inngöngu í neinn þeirra skóla sem þá langaði í, og verða sendir í skóla langt í burtu, ofan á allt annað. Það er því ljóst að reglurnar muni sjálfkrafa leiða til þess að nemendur sæki um skóla sem þeim er næst. Hvernig stuðlar það að fjölbreyttni í skólakerfinu?

Latest posts by Pawel Bartoszek (see all)

Pawel Bartoszek skrifar

Pawel hóf að skrifa á Deigluna í september 2002.