Rannsóknarnefnd Nasa

Íslendingar bíða nú langeygir eftir að fá í hendurnar brakandi ferskt eintak af skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis. Rannsóknarnefndin vinnur nú hörðum höndum að því að leggja lokahönd á skýrslu sem ætlað er að: „leita sannleikans um aðdraganda og orsök falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða“.

Íslendingar bíða nú langeygir eftir að fá í hendurnar brakandi ferskt eintak af skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis. Rannsóknarnefndin vinnur nú hörðum höndum að því að leggja lokahönd á skýrslu sem ætlað er að: „leita sannleikans um aðdraganda og orsök falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða“.

Þessi skýrsla er líklegast það lesefni sem hefur verið beðið eftir með hvað mestri eftirvæntingu á Íslandi síðan lokabókin í bókaflokknum um galdradrenginn Harry Potter kom í bókaverslanir árið 2007. Fregnir af ógurlega löngum svörum aðila sem óskað var eftir athugasemdum frá gefur vísbendingar um að skýrslan fari langt yfir blaðsíðulengd Dauðadjásnanna sem var rúmar 600 síður og er jafnvel rætt um þreföld Dauðadjásn.

Rannsóknarnefndin sjálf lagt sig alla fram við að auka stemninguna fyrir skýrslunni með gríðarlega dramatískum lýsingum af því sem hún veit, og ætlar að segja fljótlega, en getur ekki sagt strax en er engu að síður alveg óskaplega svakalegt svo við bíðum bara róleg.

Á meðan við bíðum eftir Godot er því kannski við hæfi að skoða störf annarra rannsóknanefnda til þess að fá smá innsýn inn í störf þeirra.

1. febrúar árið 2003 sprakk geimskutlan Kólumbía á leið sinni inn í gufuhvolf jarðar. Sjö geimfarar um borð fórust.

Geimferðastofnun Bandaríkjanna, Nasa, hafði í kjölfar Challenger slysins árið 1986 Nasa komið sér upp föstu verklagi varðandi slys og setti þegar í stað á fót sjálfstæða rannsóknarnefnd, Rannsóknarnefnd Kólumbíu slyssins (RKS), sem rannsakaði slysið ofan í kjölinn.

RKS komst að tveimur lykilniðurstöðum: í fyrsta lagi að slysið hefði orsakast af galla þar sem einangrun hafi brotnað af í flugtaki og skemmt hitaskjöld flaugarinnar í vinstri væng.

Nefndin komst þó einnig að þeirri niðurstöðu að menning Nasa hafi ekki átt minni hlut að máli en menning Nasa snérist að stóru leyti um það að koma vélum í loftið og voru menn farnir að horfa framhjá hættumerkjum ef þau þóttu nægilega minniháttar. Þessi árangursdrifna menning þar sem eina mælieiningin sem skipti máli var fjöldi geimskota var hreinlega uppskrift að óförum.

Rannsóknarnefnd Kólumbia lauk störfum á sjö mánuðum. Nefndina skipuðu þrettán manns, 120 starfsmenn störfuðu á vegum hennar auk þess sem hún hafði aðgang að þúsundum starfsmanna Nasa og stoðfyrirtækjum Nasa. Frá 1. febrúar til 30. september 2003 þá færði Nasa til gjalda reikninga á vegum RKS að upphæð 16,9 milljón dollara, eða tveimur milljörðum króna.

Berum nú saman. Þrír aðilar skipa Rannsóknarnefnd Alþingis, hjá henni starfa innan við 20 manns, hún hefur verið í meira en ár að skila niðurstöðu og hún fékk miklu minni fjárheimildir heldur en nefnd Nasa eða 150 milljónir á fjárlögum 2009.

Skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis verður vonandi von bráðar birt þjóðinni. Áhugavert verður að sjá hvort niðurstaða hennar við upphaflegri spurningu sinni verði tæknileg eða hvort þeir velti einnig fyrir sér hvort menning innan fjármálaheimsins og eftirlitskerfisins hafi verið á þann veg að menn hafi horft framhjá hættumerkjum ef hagnaðurinn var ennþá að koma í hús.

Heimasíða rannsóknarnefndar Alþingis: www.rannsoknarnefnd.is
Skýrsla um kostnað CAIB: http://oig.nasa.gov/audits/reports/FY04/ig-04-013.pdf
Heimasíða rannsóknarnefndar Kólumbíuslyssins: http://caib.nasa.gov/

Latest posts by Óli Örn Eiríksson (see all)

Óli Örn Eiríksson skrifar

Óli Örn hóf að skrifa á Deigluna í september 2004.