Ísland – Argentína

Ísland er á barmi þess að gera sömu hagstjórnarmistök og Argentína gerði í kreppunni miklu. Þá náðu ýmsar skammtímaaðgerðir ríkisstjórnarinnar fótfestu til lengri tíma og gjörskemmdu hagkerfi sem hefði haft alla burði til að vera eitt það öflugasta í heimi. Ef örlög Íslands reynast þau að verða Argentína 21. aldarinnar verður sekt þeirra sem nú halda um stjórnartaumana seint vanmetin.

„Höfuðgildi sögunnar, þeim sem kynna sér hana, eru rök þau er hún leggur fram til varnaðar eða hvata seinni kynslóðum, er þær eiga um að velja kjör og kosti í sínu lífi, skapa sjálfum sér örlög.“
-Prófessor Þorkell Jóhannesson

Í bók sinni The Return of Depression Economics fjallar nóbelsverðlaunahafinn og markaðssinninn Paul Krugman um kreppur á 20. öldinni og viðbrögð við þeim. Hann leggur svo út af kreppunum og tengir við þá efnahagslægð sem vofir yfir heiminum í dag. Hann leggur umtalsverðan hluta ritsins í að fjalla um þær kreppur sem riðu yfir Suður Ameríku á síðari hluta aldarinnar og orsakir þeirra. Þar er auðvitað margt áhugavert að finna, en mann rekur eiginlega fyrst í rogastans þegar maður les túlkun Krugmans á hagsögu Argentínu, sem virðist eiga furðulega mikið sameiginlegt með Íslandi um þessar mundir.

Hagkerfi Argentínu jafnaði sig nokkuð hratt eftir kreppuna miklu árið 1929 með því að beita meðölum sem gengu gegn ýmsum viðteknum venjum þess tíma. Upp úr 1932 tók hagur Argentínu að vænkast í kjölfar gjaldeyrishafta, veikingar pesóans og tímabundinnar greiðslustöðvunar ríkissjóðs. Ýmis fyrirtæki voru síðar þjóðnýtt, ríkissjóður var rekinn með halla og innlendum iðnaði var búið hagstætt umhverfi með ákveðnum hömlum á milliríkjaviðskipti.

Meðan flest önnur ríki voru upptekin við að verja gullfót gjaldmiðla sinna með hörmulegum afleiðingum skiluðu þessar aðgerðir Argentínu þokkalegasta bata. Árið 1934 var svo komið að Evrópubúar voru teknir að flytjast til Argentínu, því tækifærin þar voru betri en heima fyrir.

Þó auðvitað sé margt ólíkt með viðbrögðum og umhverfi stjórnvalda landanna tveggja eru líkindin með Íslandi augljós. Hér hefur þannig verið komið á ströngum gjaldeyrishöftum, krónunni verið leyft að veikjast umtalsvert svo samkeppnishæfni útflutningsatvinnuvega batnaði, fjölmörg fyrirtæki hafa lent í umsjá ríkisins (eða ríkisbanka), hallarekstur ríkissjóðs blasir við og hömlur á útflutning til að skapa atvinnu innanlands liggja fyrir. Þessar aðgerðir eru auðvitað síst geðslegar, en í ljósi sögunnar er ekki hægt að útiloka að þær geti gefist vel tímabundið. Í það minnsta væri mótmælum síður hreyft við þeim ef þjóðin gæti verið viss um að hún yrði laus við þær undir árslok.

Vandi Argentínu var hins vegar sá að vegna þess hversu vel þessar tímabundnu aðgerðir gáfust, festust þær í sessi og ollu sífellt meiri skaða eftir því sem tíminn leið. Gjaldeyrishöftin urðu ótrúlega flókin, drógu þrótt úr allri nýsköpun og urðu valdatæki spilltra embættis- og stjórnmálamanna. Ótrúlegt óhagræði í skipan hagkerfisins fékk að grassera í skjóli hafta á milliríkjaviðskipti. Þjóðnýtt fyrirtæki urðu fjárhagsleg svarthol sem soguðu til sín fé skattgreiðenda og höfðu hundruð þúsunda á launaskrá án þess að geta sinnt grundvallarhlutverki sínu. Og hallarekstur ríkissjóðs fór oft úr böndunum með tilheyrandi verðbólgu.

Argentína, land sem hafði haldið í við öll þróuðustu hagkerfi heims á fyrri hluta aldarinnar, dróst skyndilega langt aftur úr, og varð afar illa úti í þeim þrengingum sem riðu yfir Suður Ameríku á síðustu áratugum 20. aldarinnar. Landinu er þó vorkunn, því það hafði engin víti til varnaðar árið 1932 – þær aðgerðir sem þá var gripið til voru einstakar í hagsögu heimsins.

Ísland hefur enga slíka afsökun. Stjórnvöld ættu að hafa upphafsorð þessa pistils í huga þegar þau velja aðgerðir og viðbrögð við kreppunni nú. Ef örlög Íslands reynast þau að verða Argentína 21. aldarinnar verður sekt þeirra sem nú halda um stjórnartaumana seint vanmetin.

Latest posts by Hafsteinn Gunnar Hauksson (see all)