Hinir syndlausu

Ef Jesús Kristur hefði ekki hitt fyrir farísea, fræðimenn og palestínskt alþýðufólk á Olíufjallinu forðum heldur íslenska stjórnmála-, embættis- og athafnamenn er hætt við því að áeggjan hans um að sá sem syndlaus væri kastaði fyrsta steininum hefði endaði í blóðbaði.

Ef Jesús Kristur hefði ekki hitt fyrir farísea, fræðimenn og palestínskt alþýðufólk á Olíufjallinu forðum heldur íslenska stjórnmála-, embættis- og athafnamenn er hætt við því að áeggjan hans um að sá sem syndlaus væri kastaði fyrsta steininum hefði endaði í blóðbaði. Eftir allt sem undan er gengið, bæði í aðdraganda og kjölfar kreppunnar, virðist sem býsna fáir sjái nokkuð athugavert við eigin hegðun eða ákvarðanir. Um þetta vitna meðal annars sumar af þeim bókum sem skrifaðar hafa verið um atburðina – allir verja eigin gerðir út í hið óendanlega en eru fljótir að reyna að kasta allri sökinni á einhvern annan.

Öll vitum við þó að minnsta kosti tvennt. Í fyrsta lagi að fjölmörg mistök hafa verið gerð – sumt af því í góðri trú, en annað vegna græðgi og lágra hvata. Engum manni dettur í raun og veru í hug að gera þá kröfu til annarra manna að þeir séu fullkomnir. Þess vegna mætir það oftast skilningi og leiðir til fyrirgefningar þegar fólk viðurkennir mistök sín og biðst afsökunar á þeim.

Hefðin í stjórnmálaumræðunni á Íslandi virðist hins vegar ekki gera ráð fyrir þessum þáttum. Að viðurkenna mistök – og hvað þá að biðjast afsökunar á þeim – er sorglega sjaldgæft. Þessi hefð leiðir til vítahrings. Þar sem svo sjaldgæft er að menn viðurkenni mistök þá mætti halda að mistök væru sjaldgæf og þeim sem gangast við þeim er velt upp úr þeim af andstæðingum og keppinautum. Þar af leiðandi hafa menn lært þá lexíu að steyta hnefann framan í alla gagnrýni, grafa hælana dýpra í fótsporin og bíða þangað til fólk fer að tala um aðra hluti – gjarnan með því að veifa fingrinum og ásaka einhvern annan um ennþá stærri yfirsjónir.

Það er auðvitað ímyndun í þeim sjálfum að fólk ætlist raunverulega til þess að stjórnmálamenn geri aldrei mistök. En þeir geta sjálfum sér um kennt. Ríkisstjórnin viðurkennir ekki ennþá að Icesave samningarnir seinni séu slæmir – en í stað þess að gera sitt besta til þess að efla málstað Íslands í deilunni þá fór öll orka eftir synjun forsetans í að úthrópa alla þá sem ekki voru á línunni sem ríkisstjórnin hafði markað sér. Það gilti jafnt um íslenska gagnrýnendur, en ekki síður um fjöldann allan af erlendum sérfræðingum sem hafa tekið upp málstað Íslands í kjölfar þeirrar athygli sem málið hefur hlotið. Steingrímur J. Sigfússon gerði sér meira að segja far um að tilkynna að hann hefði slitið öllum samskiptum við forseta Íslands í kjölfar málsins og Hrannar Arnarsson (aðstoðarmaður forsætisráðherra) tapaði sér á Facebook við að lýsa þeim hörmungum sem nú væru yfirvofandi vegna þess að málstaður ríkisstjórnarinnar keyrði á vegg.

Núverandi forystumenn ríkisstjórnarinnar eru því miður pikkfastir í því að gera upp sakir við innlenda pólitíska andstæðinga sem þeir hafa átt í höggi við alla sína fullorðinsævi. Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur hafa skipt um forystu. Líklega væru betri líkur á samstarfi og trúnaði á milli allra stjórnmálaflokka í mikilvægum málum sem varða hagsmuni allrar þjóðarinnar ef ný kynslóð hefði jafnframt tekið við keflinu í VG og Samfylkingu fyrir síðustu kosningar. Hætt er við að ungir stjórnmálamenn taki í arf þennan kúltúr þar sem enginn viðurkennir mistök, biður um aðstoð eða biðst afsökunar – sama hvað á dynur. Það væri enn einn skaðinn sem óþarft er að hljótist af því ástandi sem uppi er.

Óttinn við að viðurkenna opinberlega axarskaft hlýtur að byggjast á þeirri trú stjórnmálamanna að almenningur haldi í alvörunni að þeir séu jafnóskeikulir eins og allir héldu að Tiger Woods væri mikill fjölskyldumaður. Og að sjokkið við að komast að hinu sanna sé sambærilegt. En sem betur fer er þetta misskilningur. Þótt íslenskir stjórnmálamenn hafi lagt álíka mikið á sig við að halda á lofti þeirri tálsýn að þeir geri aldrei mistök, eins og kylfingurinn um að hann púttaði alltaf í sömu holu í persónulega lífinu, þá vitum við að forystufólk okkar er mannlegt eins og við hin og erum tilbúin að taka þeim með kostum sínum og göllum.

Í viðtali í áramótablaði Viðskiptablaðsins sagði Eiríkur Guðnason, fyrrverandi Seðlabankastjóri, viturlegan hlut. Efnislega var það á þá leið að stórmeistari í skák þyrfti ætíð að líta á stöðuna á borðinu eins og hún væri hverju sinni. Það væri til lítils að tefla út frá þeirri stöðu sem hann óskaði sér að væri uppi. Þetta á sannarlega við um stöðuna á Íslandi í dag – og sé líkingin tekin ögn lengra þá er augljóst að sá sem ekki horfist í augu við mistök sín mun aldrei ná árangri í skák.

Þráhyggja íslenskra stjórnmálamanna að reyna að halda hvítflibbanum sínum hreinum kann að hafa verið skaðlítil þegar allt var í góðu standi. En þegar á reynir þurfa forystumenn að hafa vit á því að spila úr þeirri stöðu sem er uppi en ekki þeirri sem þeir óskuðu sér. Og til þess þarf að hafa vit á því að viðurkenna eigin mistök. Annað er ábyrgðarlaust og heimskulegt. Og á hvorugu höfum við efni núna. Við höfum ekki heldur efni á því að forystumenn í samfélaginu hafi ekki nægan þroska til þess að forðast grjótkast – því enginn er algjörlega syndlaus eða algjörlega sekur.

Latest posts by Þórlindur Kjartansson (see all)

Þórlindur Kjartansson skrifar

Þórlindur var fyrsti og lengi vel eini lesandi Deiglunnar. Hann hóf að skrifa á Deigluna í mars árið 2000.