Völvuspá fyrir 2010

Framtíðin er ekki fyrirsjáanleg nema með augum Völu Kazcinski og það er löngu fyrirséð að blaðamenn Flugufótar Deiglunnar hitti þessa miklu spákonu um hver áramót. Spádómar hennar hafa aldrei verið jafn skýrir enda skellti Vala sér í laceraðgerð á augum nýverið og það kæmi ekki á óvart ef þriðja augað hefði notið góðs af því líka.

Splunkunýtt einbýlishús spámiðilsins Völu Kazcinski í Glæsihvarfi ber munaðinn utan á sér eins og Gunnar Birgisson ber góðærið. Lofthæðin í stofunni er líklega um fjórir metrar nema í miðjunni þar sem er hvelfing, eins og í kaþólskri kirkju, og í niður úr loftinu ganga þykkar marmarasúlur með jónískum stofni. Þar er lofthæðin nær sex metrum. Úr miðju hvelfingarinnar liggur þráður niður á gólf, í enda hans hangir Fabergé egg í um það bil 70 sentimetra hæð yfir persnesku teppinu á gólfinu.

Íburðurinn er ævintýralegur. Þegar gengið er inn í íbúðina er gengið beint undir hvelfinguna og sitthvorum megin, milli marmarasúlnanna, eru tveir Egg-stólar eftir Arne Jakobsen. Þeir eru klæddir sérstöku vínrauðu og svörtu leðri sem tóna einstaklega vel við Fabergé eggið.

Innanaf hvelfingunni er útskot – eins konar altari – þar sem hangir ferningslaga portrett mynd af Gunnari Birgissyni, tveir metrar á kant inni í ramma sem virðist vera úr skíragulli. Það var einmitt Gunnar sem úthlutaði Völu lóð á þessum fallega og eftirsótta stað. „Ég spái því að Gunnar Birgisson verði aftur bæjarstjóri í Kópavogi í vor. Hann er stórbrotinn leiðtogi – sá besti síðan Franco,“ segir hin óskeikula völva sem jafnframt er mjög valdamikil í Sjálfstæðisflokknum í Kópavogi.

Blaðamenn Flugufótarins eru undrandi á hinum stórkostlegu heimkynnum Völu. Frá því samstarf hennar og Deiglunnar hófst hefur gengið á ýmsu í lífi hennar. Skin og skúrir hafa skipst á. „Já. Þetta var gott ár hjá mér,“ segir hún. „Ég er búin að græða meira á kreppunni heldur en Finnur Ingólfsson græddi á að ganga í Framsóknarflokkinn,“ segir grafalvarleg. Útsendarar Flugufótarins geta heldur ekki komist hjá því að taka eftir því að gróðinn hefur ekki aðeins farið í að bæta umhverfi völvunnar. Hún lítur út fyrir að hafa yngst um tuttugu ár, hárugar vörtur hafa verið fjarlægðar og nefið minnkað og níðþröngur leðurgallinn felur ekki mikið af nýfengnum bombuvexti völvunnar sem hefur ætíð áður klæðst þunglamalegum sígaunamussum.

Við setjumst niður í Arne Jacobsen eggin og Vala kemur sér fyrir á persneska teppinu. Hún leggst munúðarlega á bakið beint undir Fabergé egginu og sveiflar því í áttina að portrettinu af Gunnari Birgissyni. Hún fellur í trans og byrjar að spá.

Veður og hagtölur

„Ég hef alltaf haft gaman að því að spá fyrir um veður og hagstærðir því þetta er nú það sem venjulegu fólki gengur hvað verst að spá um – og raunar verr eftir því sem það lærir meira á sínu sviði. Ég get hins vegar sagt ykkur að með vorinu fer að hlýna mjög og ég sé f yrir mér marga sólríka daga í sumar – og mér finnst eins og dagarnir verði langir en næturnar stuttar. Hagkerfið mun verða í erfiðleikum á yfirborðinu en hagur ýmissa mun þó líklega vænkast – þótt enginn muni græða eins mikið á kreppunni og ég. Ég sé fyrir mér að gjaldeyrishöftin haldi áfram að mala gull fyrir fyrrverandi Herbal-Life sölumenn og fasteignasala – en allur almenningur mun tapa á þeim.“

Stjórnarfar og kosningar

„Það verður hart tekist á um ýmis mál á Alþingi. Ég sé fyrir mér átök – myndin sem birtist mér er af tveimur höfuðlausum hænum sem slást úti í miðri eyðimörk og áhorfendur snúa við þeim baki,“ segir Völvan. „Einhverjir munu þó láta sig hafa það að mæta í kosningar til sveitarstjórna. Þar verður hart tekist á, einkum í höfuðborginni…ég sé fyrir mér að sólsetur, dagur er að kveldi kominn, og í fjarska sé ég eins konar valkyrju og bjarndýr. Og ég sé mann með hlustunarpípu um hálsinn – það er eins og hann sé að gufa upp og hverfa.“

Hún vindur sér að Kópavogi. „Ég sé fyrir mér tröll í Kópavogi. Þetta tröll er með stórar hendur og heldur á hamri og sög. Ég sé fyrir mér landið í kringum Kópavog sökkva en tröllið mun lyfta Kópavoginum upp þannig að hann standi eftir sem skínandi borg á hæð,“ hún andvarpar – „Ó, Gunnar – foringi foringja.“

Vala telur að í lok janúar og byrjun febrúar verði mikil átök. „Ég sé fyrir mér stjörnu – Davíðsstjörnuna – allir munu horfa á hana í febrúar. Í kringum hana á himnum lýsir eins konar baugur og ég sé að þetta tvennt mun viðhafa mikið sjónarspil og átök verða hatrömm. Ég sé fylkingar takast – ég sé bók – hvíta á litinn, nema hvað fylkingarnar halda ýmist fram að hún sé blá eða rauð. Þetta er ákaflega einkennilegt – það er eins og enginn sjái að hún sé hvít,“ bætir hún við.

Íþróttir, menning og mannlíf

Vala er mikill íþróttaaðdáandi en fylgist ekkert með íþróttum. „Það er mjög leiðinlegt að fylgjast með íþróttum þegar maður veit nákvæmlega hvað er að gerast. í þau fáu skipti sem ég horfi á íþróttir er það einungis til að skoða vöðvabyggingu íþróttamannanna,“ segir hún. „En árið 2010 verður gjöfult. Ég sé fyrir mér knetti – það verða margir sem sparka í knetti á árinu. Ég sé fimleikamenn á knattspyrnuvelli vinna mikla sigra,“ en meira vill hún ekki segja um íþróttaárið framundan. „Ég get þó sagt að ég sé fyrir mér mann sem stendur á handboltavelli og fer með þulur. Og í kringum hann horfir fólk andaktugt á en skilur ekki hvað hann segir – bíp.“

Völvan okkar telur að menningin muni blómstra. „Þetta er ár menningar. Ásdís Rán og Gillz munu verða á allra vörum og vinna sigra. Ég sé fyrir mér að þau muni flytja hróður íslensku þjóðarinnar víða. Ég sé fyrir mér vöðvastæltan karlmannslíkama – algjörlega hárlausan – hann er ekki með höfuð heldur risastórt handlóð sem stendur upp úr herðum hans. En ég sé að hann heldur á penna. Ég sé hann uppi á sviði og í kringum hann er töluð sænska – hann tekur við verðlaunum og verðlaunin eru dýnamít-túpa. Ég sé hann svo sigla heim á sæketti og að þjóðin hylli hann.“

Að þessu loknu kveðjum við völvuna okkar. Hún býður upp á espresso kaffi, pestó og kavíar. „Þetta er munaður sem ég get leyft mér eftir að ég fór að græða svona mikið á gjaldeyrishöftunum;“ segir völvan. Við fáum okkur smá snarl en er ekki til setunnar boðið. Völvan fylgir okkur til dyra – í heimreiðinni getur að líta hvítan Range Rover jeppa og Bentley. Það er fullt tungl og frost. Lífshamingjan býr í Glæsihvarfi – það er blaðamönnum ljóst eftir þessa heimsókn. Þar sem við kveðjumst sjáum við að næstu gesti ber að garði – þetta eru miðaldra hjón. Hann er hávaxið glæsimenni og hún smávaxin og tignarleg. Bíllinn þeirra er með skjaldarmerki í stað númers. Hann heilsar Völu með virktum og spyr hana – „Jæja Vala, ertu búin að ákveða hvað ég á að gera við þetta frumvarp?“

thorlindur@deiglan.com'
Latest posts by Flugufóturinn (see all)