Fjölmiðlar falla á eigin bragði

Fullvíst er nú talið að ein æsilegasta frétt síðustu missera vestan hafs – af sex ára gömlum dreng sem heimsbyggðin fylgdist með og taldi vera fastan um borð í heimatilbúnum loftbelg föður síns – hafi verið útsmogið ráðabrugg foreldra drengsins. Reynist þessar ásakanir réttar þá er vonandi að Richard Keene hljóti makleg málagjöld. Hitt er þó hjákátlegt að fylgjast með viðbrögðum og hneykslan bandarískra fjölmiðla í málinu.

Fullvíst er nú talið að ein æsilegasta frétt síðustu missera vestan hafs – af sex ára gömlum dreng sem heimsbyggðin fylgdist með og taldi vera fastan um borð í heimatilbúnum loftbelg föður síns – hafi verið útsmogið ráðabrugg foreldra drengsins. Bandaríska pressan sem hafði kokgleypt agnið hringsnýst nú í fordæmingu sinni á foreldrunum, þeim Richard og Mayumi Heene.

Málavextir eru flestum ljósir sem eitthvað fylgjast með fréttum. Richard Heene hafði samband við Neyðarlínuna þar vestra og sagði sex ára gamlan son sinn hafa tekist á loft í heimatilbúnum loftbelg. Innan fárra mínútna voru sjónarpsþyrlur komnar á loft og fylgdist heimsbyggðin öll með flugi loftbelgsins yfir Bandaríkjunum þar sem hann sveiflaðist fram og til baka í mörg þúsund metra hæð uns hann kom niður á akri hundruðum kílómetra frá heimili drengsins. Þegar að var komið reyndist belgurinn mannlaus og allt leit út fyrir að um harmleik væri að ræða, þar sem drengurinn hefði fallið úr belgnum áf flugi.

En þegar leitin að drengnum stóð sem hæst á þeim slóðum þar sem loftbelgurinn hafði farið yfir, þá skreið sá stutti ofan af háalofti í bílskúrnum heima hjá sér og lögregluyfirvöld tilkynntu yfirspenntum fjölmiðlahópnum fyrir utan heimili hjónanna um hinar farsælu málalyktir. Hafði drengurinn að sögn verið að fikta í loftbelgnum sem þá hafði tekist á loft , hann hafi falið sig upp á lofti, logandi hræddur, sofnað þar og sofið þar til belgurinn var lentur.

Efasemdaraddir heyrðust fljótlega eftir að heimsbyggðin hafði varpað öndinni léttar og fljótlega kom í ljós að ekki var allt með felldu í frásögn foreldranna eða hins sex ára gamla Falcons Heene. Hinn æsilega og dramatíska atburðarás virðist hafa verið hönnuð að Richard Heene og hugsanlega einhverjum vitorðsmönnum til að vekja athygli á þeim hjónum sem efnivið í raunveruleikaþætti.

Það er vissulega algjört hneyksli og ólíðandi að menn villi um fyrir yfirvöldum og samborgurum sínum með þeim hætti sem hér virðist hafa verið gert og reynist þessar ásakanir réttar þá er vonandi að Richard Keene hljóti makleg málagjöld. Hitt er þó hjákátlegt að fylgjast með viðbrögðum og hneykslan bandarískra fjölmiðla í málinu. Málið er nefnilega fyrst og fremst vitnisburður um hversu fjölmiðlun og fréttaflutningur er almennt séð á lágu plani í Bandaríkjunum – og raunar þótt víða væri leitað.

Á síðustu árum hafa skilin á milli fréttaflutnings og afþreyingar orðið æ óljósari. Raunveruleikaþættir hafa tröllriðið öldum ljósvakans og meira að segja viti borið fólk á fullt í fangi með að greina á milli þess sem er plat og hins sem er raunverulegt. Fréttaflutningur verður sífellt yfirborðskenndari þar sem fyrir öllu er að halda fólki við skjáinn. Papparazzi-fréttamennskan er það sem helst selur fréttirnar og það smitar jafnvel yfir í fréttaflutning af alvarlegri málum, þar sem fréttamannastóðið hleypur til eins og hundar á eftir kjötstykki sem aðilar máls fleygja sín á milli.

Skrípaleikurinn sem Richard Heene setti svið ber honum vitni sem veruleikafirrtum og siðlausum einstaklingi. En þessi skrípaleikur endurspeglar jafnframt hversu djúpt fréttaflutningur og fjölmiðlun er sokkin í pytt fáránleika og fyrringar. Fjölmiðlar ættu almennt að líta sér nær í hneykslan sinni yfir málinu.

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.