Fangi væntinga

Sú ákvörðun norsku Nóbelsverðlaunanefndarinnar að veita Barack Obama friðarverðlaunin er fráleit með öllu. Raunar má halda því fram að þessi verðlaun hafi glatað gildi sínu fyrir mörgum árum þegar hryðjuverkamaðurinn Yasser Arafat fékk þau afhent.

Sú ákvörðun norsku Nóbelsverðlaunanefndarinnar að veita Barack Obama friðarverðlaunin er fráleit með öllu. Raunar má halda því fram að þessi verðlaun hafi glatað gildi sínu fyrir mörgum árum þegar hryðjuverkamaðurinn Yasser Arafat fékk þau afhent. En burtséð frá því hvort einhver nefnd í Osló ákveði að gera í buxurnar með reglulegu millibili, þá mun þessi útnefning nú gera nýkjörnum Bandaríkjaforseta mjög erfitt fyrir á komandi misserum.

Miklar væntingar hafa verið bundnar við Obama og eins sakir standa er ekki margt sem bendir til þess að hann muni standa undir þeim. Honum hefur víða verið fagnað sem hálfgerðum frelsara og virðist hann hafinn til skýjanna af sumum fyrir það eitt að vera ekki George W. Bush – er útnefning Nóbelsverðlaunanefndarinnar nokkuð skýrt dæmi um það.

Enginn þarf að efast um að Barack Obama er í mörgu tilliti afburðamaður, greindur og vel máli farinn. Boðskapur hans um breytingar var þungamiðjan í kosningabaráttu hans um völdin í Hvíta húsinu. En nú þegar sigurviman er runnin af mönnum og tími til kominn að láta verkin tala, þá er Obama strax lentur í vandræðum. Frumvarp hans um breytingar í heilbrigðismál er um margt vanhugsað og hefur reynst auðvelt skotmark fyrir pólitíska andstæðinga hans. Raunar má segja að Joe Wilson, þingmaður og furðufugl frá Suður-Karólínu, hafi bjargað Obama fyrir horn í þessu máli með því að gera að honum hróp í umræðum á þinginu.

Eitt helst kosningamál Obama var að endurheimta virðingu og traust Bandaríkjanna með þjóða heimsins. Vafalítið nýtur Obama meiri velvildar víða um heim en forveri hans í embætti. Sú velvild er hins vegar býsna létt í vasa. Obama hugðist leggja meiri áherslu á að halda talibönum í skefjum í Afganistan en stríðsreksturinn þar virðist vera kominn í þrot og vaxandi þunga gætir í aðgerðum talíbana. Friðarverðlaunahafi Nóbels hefur því ákveðið að senda nokkra tugi þúsunda hermanna til viðbótar þarna austur eftir.

Eitt stærsta áhyggjuefni forseta Bandaríkjanna á alþjóðavettvangi hlýtur hins vegar að vera vaxandi samstaða þjóða heims gegn bandaríkjadollar sem eins konar heimsgjaldmiðli. Glati dollarinn þeirri stöðu munu áhrif Bandaríkjanna fara þverrandi. Stjórnvöld í Kína, Rússlandi, Íran og víðar hafa talað fyrir þessu afnámi dollarans og að jafnvel verði tekinn um nýr heimsgjaldmiðill. Þetta er ekki gjaldeyrismál heldur heimspólitísk valdabarátta.

Friðarverðlaunahafi Nóbels fer í slíka baráttu með báðar hendur bundnar fyrir aftan bak. Hann lofaði að vera allt sem George W. Bush var ekki. Þær væntingar sem bundnar hafa verið við Barack Obama eru að verða honum fjötur fót og undirstrikar útnefning hans sem friðarverðlaunahafa Nóbels þá firringu sem umvefur hann sem þjóðarleiðtoga. Obama er í raun fangi væntinga – væntinga sem hann sjálfur bjó til.

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.