Flótti til frelsis

Að mati ráðamanna er fólksflótti eðlilegur og óumflýjanlegur og þeir sem upplifa að fólk í kringum sig sé að flytja af landi brott fyllast öfund, hvers vegna? Ber þetta vott um minni þjóðerniskennd ungs fólks eða hefur fólk enga trú á framtíðinni á Íslandi?

Það er því umtalsverð hætta á fólksflótta með tilheyrandi vítahring niðursveiflu. Á einföldu máli: Þessi Icesave-samningur tekur á engan hátt tillit til hinnar fordæmislausu stöðu á Íslandi.” Svo kemst Pétur H. Blöndal að orði í grein sinni í Morgunblaðinu í gær.

Að mati greinarhöfundar er fólksflóttinn þegar byrjaður og þeir sem upplifa að fólk í kringum sig sé að flytja af landi brott fyllast öfund, hvers vegna? Ber þetta vott um minni þjóðerniskennd ungs fólks eða hefur fólk enga trú á framtíðinni á Íslandi?

Íslenskt samfélag byggir í raun og veru á þrem höfuðstoðum. Þessar stoðir halda undir þá sterku þjóðerniskennd og samhug sem einkennir Íslendinga. Við höfum í fyrsta lagi þetta stórkostlega land, sem hefur upp á allt að bjóða. Í öðru lagi þá höfum við okkar sögu, ekki langa en sterka, sem bindur okkur saman, sjálfstæðisbaráttan, handritin, íslensk menning, ljóð, myndlist og svo lengi mætti telja. Síðast en ekki síst þá er það framtíðin. Framtíðin og framtíðarsýnin sem tengir okkur saman sem íslenska þjóð. Framtíðarsýnin fær okkur til að sýna samstöðu og vinna saman að sameiginlegum markmiðum þjóðarinnar, laust við alla kredduflokkspólitík. Er það ekki einmitt framtíðarsýn ungs fólks sem er í móðu? Eins útjaskað og það hljómar, þá er staðreyndin sú að það vantar ljósið í enda ganganna. Það vantar traustið á ríkið leysi málin á þann hátt að íslenskir borgarar verði ekki gerðir að þrælum stórvelda sem annað hvort hafa engan skilning á stöðunni sem við erum í, eða njóta þess að blóðmjólka okkur fyrir það sem „við“ gerðum.

Auðvitað fylgir visst frelsi í flóttanum. Frelsi að komast frá þeim yfirvofandi þrældóm sem virðist bíða þeirra sem verða eftir. Frelsi að losna úr miðri hringiðju fellibylsins áður en hann verður verri meðan framtíðin hér á landi virðist ekkert nema svört. En hvernig er hægt að öfundast út í þá sem leggja leið sína út í hið óþekkta? Margir ungir íslendingar flykkjast nú erlendis í nám eða til að leita sér að atvinnu. Sumir hafa einungis enga trú á framtíð landsins og svo eru aðrir tilneyddir að flýja til þess eins að sjá fyrir sér. Öfundin felur í sér þá trú að grasið sé grænna hinu megin, fyrir suma þá er það rétt, aðrir örugglega ekki jafn lánsamir. Enginn vill aftur á móti sitja eftir einn í súpunni með skuldir þjóðarbúsins á herðum sér.

Þjóðin virðist vera að skilja sig frá ríkinu, en hversu lengi stendur þjóðerniskenndin án þriðju stoðarinnar? Íslendingar, hvar sem þeir eru, og verða eftir nokkur ár, þurfa á skýrri framtíðarsýn að halda. Réttlætið þarf að virka og íslenskir stjórnmálamenn þurfa að vinna sér traust þjóðarinnar aftur. Að mati ráðamanna er fólksflóttinn eðlilegur og óumflýjanlegur, en stjórnendur þessa lands mega ekki missa sjónar á þeirri staðreynd að framtíð Íslands skiptir höfuðmáli í því hvort ein af auðlindum þjóðarinnar, ungt menntað fólk, snúi aftur til þess að byggja upp landið í sameiningu.

Latest posts by Erla Margrét Gunnarsdóttir (see all)