Fjölmiðlalist

Eiga listamenn að setja upp sýningar um hvað gengur á í okkar samfélagi eða eiga þeir bara að vera að skemmta okkur? Hefur listamaðurinn í raun eitthvað hlutverk?

Í samfélagi dagsins í dag þar sem við vitum ekki hvað morgundagurinn ber í skauti sér, verður ICESAVE samþykkt, göngum við í ESB, springur ríkisstjórnin, missi ég vinnuna, get ég borgað reikningana þennan mánuðinn og spurningin sem við hljótum öll að spyrja okkur verður þetta ekki allt í lagi? Þegar allar þessar spurningar koma upp á yfirborðið þá er oft ekkert verra en að kveikja á sjónvarpinu til að hlusta á fréttir að hlusta á alla sérfræðingana með sitt álit á því hvort við getum borgað, hvort við eigum að borga eða til að segja okkur að við séum gjaldþrota, hverju á maður að trúa? Ég persónulega get oft ekki hugsað mér að hlusta á einn annan fréttatíma um stöðu mála en maður verður að gera það því það er manns siðferðilega skylda að fylgjast með, við verðum að vera með skoðun ekki satt?

Mín skoðun á málefnum líðandi stundar er ekki efni þessa pistils heldur ætla ég að tala um list og hvert hlutverk listamanna er á tímum sem þessum.

Í gegnum árin hafa listamenn verið gagnrýnt auga á samtíma sinn, tónlistarmenn hafa samið texta sem eru með friði og gegn stríði, leiklistarfólk hefur sýnt veruleikan á sviði og komið skilaboðunum að þetta eigi ekki að vera svona áleiðis, gjörningalistamenn hafa gert eitthvað sem enginn skilur nema þeir sem hafa helst lært það að verða listamenn og síðan hafa listamenn oft safnað saman liði til þess að vekja fólk til umhugsunar eins og Live Aid var á sínum tíma. Hlutverk listamannsins er vissulega að skemmta okkur en listamenn geta samt líka gegnt svipuðu hlutverki og fjölmiðlamenn það er að upplýsa fjöldann um eitthvað.

Mín skoðun er sú að það listform að vera að gagnrýna samfélagið sé oft ekkert rosalega skemmtileg en hún getur verið þörf, hún getur opnað augu fólks sem kannski fylgist ekki með fréttum eða hin hliðin sem er nú mun mikilvægari að fjölmiðlar tali bara ekki um það. Eitt dæmi um það er sýning sem ég sá í Lundúnum á haustdögum sem bar nafnið Fair Trade sýning fjallaði ekki um fair trade á kaffi heldur um mansal á konum til kynlífsþrælkunar. Um var að ræða konur sem voru fengnar til að koma til Lundúna í von um betra líf, þegar svo var komið til borgarinnar var vegabréf þeirra tekið og þær fluttar í húsnæði þar sem þær skyldu borga skuld sína með því að þjónusta kúnna sem kæmu inn. Sýningin var ekki uppspuni heldur var þetta saga sex kvenna sem allar höfðu losnað úr viðjum mansalsins. Fjölmiðlar í Bretlandi á þeim töluðu ekki mikið um þetta málefni, þó svo að útlit sé fyrir að á næstkomandi Ólympíuleikum muni borgin ekki bara fyllast af íþróttamönnum og fréttamönnum heldur líka konum sem eru fluttar inn í þeim tilgangi að þjónusta kynlífsþarfir karlmanna, konur sem eru ýmist fluttar gegn sínum eigin vilja. Ekki heyrist PÍP um það.

Í þessu tilviki getur leikhús og þeir listamenn sem standa á bak við gert svo mikið, þessi sýning var m.a. unnin af Emmu Thompson sem er heimsþekkt leikkona. Með Emmu í farabroddi var hægt að koma þessari sýningu í fjölmiðla sem hún hefði eflaust ekki gert ef hún væri ekki því þetta var bara lítil sýning með svo stóran málstað og þegar svona kemst í fjölmiðla kveikja fjölmiðlarnir kannski á að þetta sé eitthvað vert að skrifa um og skoða nánar og þá er boðskapurinn farinn að hafa áhrif á mun fleiri.

Nú á Íslandi er ný kynslóð listamanna að líta dagsins ljós, sviðslistamenn sem hafa lært hér á landi og líka utan landssteinana. Þessir listamenn hafa margir hverjir aðra sýn á hvað listin á að vera að gera, þeir vilja margir hverjir fara út fyrir ramman og reyna að skapa eitthvað nýtt á sviðinu. Jafnframt að koma með málefni líðandi stundar og gefa áhorfendum nýja sýn á hlutina í gegnum augu listamannsins, það er ekki endilega sannleikurinn en það er gert til þess að opna huga fólks er það ekki það sem við viljum öll hafa? Opinn huga fyrir sem flestu.

Auðvitað hafa margir listamenn hérna heima sett upp sýningar sem hafa ögrað okkur og sem hafa hleypt einhverju nýju inn en kannski er þetta að fara að koma í meira magni vegna kreppunnar sem hefur eflaust mikil áhrif á fjármagn leikhúsa og þá fá ekki eins margir listamenn vinnu og þá verða þeir að skapa eitthvað þeir geta ekki beðið eftir verki í hendurnar og í dag ætti að vera nægt efni til að vinna úr eins og spurningarnar hérna efst gefa til kynna.

Talandi um þessa listamenn þá hefst í dag sviðslistahátíð á höfuðborgarsvæðinu, hátíðin heitir ARTFART og er hún sett af stað í nýju leikhúsi sem ber nafnið Leikhús Batteríið.

Vonandi heldur útrás íslensks leikhúss áfram og vonandi verður líka innrás frá öðrum löndum.

Eigið góða verslunarmanna helgi.

Latest posts by Stefanía Sigurðardóttir (see all)

Stefanía Sigurðardóttir skrifar

Stella hóf að skrifa á Deigluna í nóvember 2004.