F-listi óháðra sérhagsmuna

Deiglan mun ekki styðja F-listann í komandi kosningum. Þá er það komið á hreint og enginn af okkar lesendum þarf að hafa áhyggjur af því að á þessari síðu birtist pistlar sem hampa þeirra stefnu. Reyndar er varla tímabært að fjalla um þann flokk enda hefur hvergi komið fram hvað þeir ætla sér í raun og veru nái þeir inn manni. Í fyrstu virðist hér um að ræða framboð mismunandi hagsmunaafla sem munu í krafti hótana reyna að ná árangri í ýmsum málum. Þannig eru saman komnir á einum stað frjálslyndir, óháðir, öryrkjar, ellilífeyrisþegar og listamenn sem allir vilja sinn skerf af borgarkökunni.

Auðvitað er ekkert athugavert við það að ákveðin samtök bjóði fram. Þannig er framboð ellilífeyrisþega ekkert fráleit hugmynd enda góð aðferð til að vekja athygli á bágum kjörum margra eldri borgara. Hins vegar held ég að fæstir hafi hugsað þennan F-lista til enda. Hvað gerist til dæmis þegar taka þarf ákvarðanir um einstaka hluti? Verður kallaður saman fundur hjá flokknum? Eða munu samtökin sem standa að listanum hittast hvert fyrir sig og senda síðan fulltrúa í viðræðunefnd? Eða ætlar kannski Ólafur F. að ákveða stefnu F-listans þegar hann situr einn í sölum ráðhússins?

Líklegast verður það Ólafur F, maður ársins í fyrra, sem ákveður stefnuna enda nokkrar líkur á því að þessi blessaði flokkur nái inn einum manni. Þá verður Ólafur hugsanlega í oddaaðstöðu í borginni og með fáheyrilega mikil áhrif á málefni borgarinnar. Það eru ekki góð tíðindi fyrir hinn almenna borgara sem býst við því að stjórnmálamenn hafi heilstæðar hugmyndir um framtíðina. Að vísu má ekki líta fram hjá því að F-listinn mun vekja athygli á málefnum þeirra sem minna mega sín. Það eitt og sér er hins vegar ekki ástæða til að greiða honum atkvæði, sérstaklega þar sem við getum búist við því að stóru flokkarnir taki þessi mál upp á næstu vikum.

Kjörfylgi F-listans mun líklega koma frá ellilífeyrisþegum, öryrkjum og Vinstri-grænum sem eru fúlir yfir því að þeirra flokkur hafi ákveðið að halda í pilsfald Ingibjargar Sólrúnar. Hvort það nægir skal ósagt látið því bæði Sjálfstæðisflokkurinn og R-listinn munu leggja allt kapp á að tryggja að þeir missi ekki gamla kjósendur frá sér í kosningum þar sem hvert einasta atkvæði gæti ráðið úrslitum.

baldvin@deiglan.com'
Latest posts by Baldvin Þór Bergsson (see all)