Nafngreining sakborninga í fjölmiðlum

Tjáningarfrelsið er ákaflega mikilvægur réttur í opnu og frjálsu þjóðfélagi og raunar grunnur allra annarra réttinda sem lýðræðisþjóðfélög byggast á. Öllu frelsi fylgir hins vegar mikil ábyrgð og mikilvægt er að fjölmiðlar hafi dómgreind til þess að höndla það frelsi sem þeir hafa og því valdi sem því fylgir.

Þann 26. september síðastliðinn var framið morð í Reykjavík. Daginn eftir greindi DV frá því að maður á fertugsaldri, sem áður hefði komið við sögu lögreglu í tilteknu máli, væri grunaður um morðið. Einnig var þess getið í hvaða húsi morðið hefði verið framið. Næsta dag var birt mynd og nafn mannsins. Það eina sem þá lá fyrir um tengsl mannsins við málið var að hann hefði verið í sömu íbúð og hinn myrti, og að lögreglan hefði krafist gæsluvarðhalds yfir honum.

Fjölmiðlar hafa afar mikilvægu hlutverki að gegna í þjóðfélaginu. Það er bæði réttur þeirra og skylda að upplýsa og fræða almenning. Þessi réttur þeirra sækir styrk í tjáningarfrelsið sem er verndað í stjórnarskránni og ýmsum alþjóðlegum sáttmálum. Í Mannréttindasáttmála Evrópu segir m.a. skýrt að í tjáningarfrelsinu felist frelsi til að miðla vitneskju og hugmyndum.

Tjáningarfrelsið er þó ekki ótakmarkað, og eru fjölmiðlar bundnir af ýmsum reglum. Í ákvæðum um tjáningarfrelsi kemur fram að það megi takmarka að nánar tilgreindum skilyrðum uppfylltum. Ein þessara takmarkana er þegar um er að ræða réttindi eða mannorð annarra.

Í siðareglum Blaðamannafélags Íslands er að finna þau atriði sem blaðamenn ættu að hafa að leiðarljósi í starfi sínu. Í 3. grein þeirra segir að blaðamaður skuli forðast allt sem valdið getur saklausu fólki, eða fólki sem á um sárt að binda, óþarfa sársauka eða vanvirðu. Í 4. grein reglnanna er fjallað sérstaklega um nafnbirtingar, en þar segir að blaðamenn skuli hafa sérstaklega í huga hvenær almennt öryggi borgaranna, sérstakir hagmunir almennings eða almannaheill krefjist nafnbirtingar.

Það verður að gera þá kröfu til fjölmiðla að þeir taki mið af þeim takmörkunum sem gerðar eru á tjáningarfrelsinu vegna réttinda eða mannorðs annarra. Rétti fjölmiðlanna til að upplýsa og fræða almenning, fylgir einnig ábyrgð. Það að greina frá nafni manns sem grunaður er um glæp, er aðeins réttlætanlegt í undantekningartilvikum, t.d. ef maðurinn er ekki í haldi lögreglu og talinn hættulegur almenningi. Það verður að meta í hvert sinn þá hagsmuni sem eru í húfi. Hvað varðar fréttir DV af voðaverkum liðinnar viku, virðist þetta hagsmunamat ekki hafa farið fram, nema það séu hagsmunir blaðsins sem einir ráði.

Latest posts by Drífa Kristín Sigurðardóttir (see all)