Hvernig hefði Truman farið að?

Eftir góða spretti í kjölfar hryðjuverkaárásanna í fyrra er alþjóðastefna Bush-stjórnarinnar komin í nokkrar ógöngur. Leiðina út úr þeim ógöngum gæti verið að finna á bókasafni Hvíta hússins, í stjórnarháttum forvera Bush, Harry S. Trumans.

Fyrir réttum 55 árum, þann 5. október 1947, hélt þáverandi forseti Bandaríkjanna, Harry S. Truman, sjónvarpsávarp til bandarísku þjóðarinnar. Þetta var í fyrsta sinn sem slíku ávarpi var sjónvarpað úr Hvíta húsinu, en slíkt ávörp eru algeng nú á síðari árum.

Í þessu ávarpi bað Truman forseti bandaríska þegna að hætta að neyta kjötmetis á þriðjudögum og kjúklinga og eggja á fimmtudögum. Um þessar mundir stóð sem hæst matarsöfnun í Bandaríkjunum fyrir Evrópubúa, sem sultu heilu hungri í stríðshrjáðri álfunni.

Í næstu viku mun eftirmaður Trumans, George W. Bush, einnig flytja sjónvarpsávarp úr Hvíta húsinu. Þar mun hann leggja línurnar fyrir hugsanlega innrás Bandaríkjamanna í Írak og nauðsyn þess að gripið verði til aðgerða gegn Saddam Hussein.

Í grein eftir Thomas E. Mann í bandaríska stórblaðinu New York Times er dreginn upp fróðlegur samanburður á þessum tveimur forsetum Bandaríkjamanna og leggur greinarhöfundur út af því að Bush gæti ýmislegt af forvera sínum lært.

Segir Mann að þeir Truman og Bush eigi margt sameiginlegt. Þeir hafi báðir tekið við embætti forseta á fremur veikum grunni; Truman eftir dauða Roosevelts í embætti og Bush í umdeildri kosningu þar sem hann fékk færri atkvæðí á landsvísu en keppinautur hans. Þeir hafi báðir mátt þola gagnrýni fyrir skort á leiðtogahæfileikum en báðir þurftu þeir að takast á við afar erfið viðfangsefni í alþjóðamálum skömmu eftir embættistöku sína.

Það kom í hlut Trumans að leiða seinni heimsstyrjöldina til lykta, m.a. með því að beita ægilegasta vopni allra tíma í stríðinu við Japan. Hann tók líka ákvörðun um að beita bandaríska hernum á Kóreuskaga til að halda aftur af útþenslu kommúnismans.

En Truman var ekki bara stríðshaukur og harðnagli. Hann hafði mikla trú á reglum þjóðaréttarins og mikilvægi þeirra fyrir frið og velmegun í heiminum. Truman lagði mikla áherslu á alþjóðlega samvinnu, m.a. innan Sameinuðu þjóðanna og NATO. Hann leitaði stuðnings í samfélagi þjóðanna við stefnu Bandaríkjamanna og var þátttaka bandaríska hersins í Kóreustríðinu grundvölluð samþykkt Sameinuðu þjóðanna, svo dæmi sé tekið.

En alþjóðapólitík Trumans náði lengra en bara að tryggja samstöðu um tilteknar aðgerðir. Truman lagði ríka áherslu á að byggja upp þjóðir, því þannig yrði öryggi Bandaríkjamanna best tryggt. Og engu skipti í því tilliti hvort um væri að ræða vini eða fjendur. Þannig kom Marshall-aðstoðin til sögunnar og með henni tókst að reisa Evrópu úr öskustónni á ótrúlega skömmum tíma. Það var auðvitað í þágu bandarískra hagsmuna, bæði öryggishagsmuna en ekki síður viðskiptahagsmuna, að byggja þjóðir Evrópu upp á ný. Þá lagði Truman allt kapp á að byggja japanskt samfélag upp og leggja grunninn að lýðræðislegu markaðsskipulagi þar á bæ – sem örfáum mánuðum áður hafði fengið aðrar og miður skemmtilegar sendingar frá Washington.

Truman var auðvitað líka einn af aðalarkitektum Kalda stríðsins en afstaða hans gagnvart Sovétríkjunum var grundvölluð á þeirri hugsun að þolinmæði þjónaði bandarískum hagsmunum best til lengri tíma litið. Hann vildi forðast beina árekstra við Sovétríkin en var þó fastur fyrir þegar á reyndi.

Hvað Bush varðar, þá er engum blöðum um það að fletta að hann þótti vaxa mjög af verkum sínum í kjölfar hryðjuverkaárásarinnar 11. september 2001. Hann þjappaði bandarísku þjóðinni saman og stýrði vendi reiðinnar af einurð og festu í stríðinu við talibana í Afganistans. Bush hafði á stuðnings flestra þjóða heims og setti þeim raunar sjálfur ákveðna úrslitakosti – annað hvort eruð þið með okkur í stríðinu gegn hryðjuverkum eða með óvinunum.

Hins vegar hefur hallað talsvert undan fæti hjá Bush á alþjóðavettvangi síðustu mánuði og liggur sökin við því í hans eigin stefnu. Stefna Bush í alþjoðamálum hefur fjögur megineinkenni: í fyrsta lagi er það réttur Bandaríkjamanna til að grípa til aðgerða einir síns liðs, í öðru lagi er það vantraust bandarískra stjórnvalda á alþjóðstofnunum og -samningum, í þriðja lagi óþolinmæði þegar kemur að því að mynda og viðhalda bandalögum og að byggja upp þjóðir, og í fjórða lagi sýnilegur vilji bandaríkjastjórnar til að kollvarpa stjórnvöldum í öðrum löndum.

Hér verður því ekki haldið fram að ekki sé ástæða til að fara fram af fyllstu hörku gagnvart Saddam Hussein. Spurningin snýst hins vegar um hvað gerist eftir sprengjuregnið og leisersjóvið? Bush-stjórnin hefur ekki hingað til sýnt að henni sé treystandi fyrir því að vera leiðandi afl í þeirri uppbyggingu sem nauðsynleg er í mörgum heimshlutum svo að auka megi frið og velsæld. Hún er miklu meira í ætt við hernaðarlegan yfirverktaka, sem kemur með jarðýturnar og vinnur jarðvegsvinnuna fljótt og örugglega, en hvort gróðurinn nær síðan að dafna í garðinum kemur verktakanum ekkert við – en er það ekki einmitt tilgangurinn með framkvæmdunum?

Bush gæti því lært margt af stjórnarháttum forvera síns Trumans. Langtímahagsmunir Bandaríkjanna eru einmitt í því fólgnir að alþjóðalög- og sáttmálar séu hafðir í heiðri, að þjóðir búi við þá velsæld sem friður, frelsi og lýðræði leiða af sér, og að mótun Bandaríkjanna á alþjóðasamfélaginu sé ekki einungis grundvölluð á hernaðarstyrk stórveldisins.

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.