Góða ferð!

Síðustu daga hefur veðrið leikið við íbúa höfuðborgarsvæðisins og ungir sem aldnir hafa flykkst í Nauthólsvík og á Austurvöll til að njóta blíðunnar. Sólardagarnir eru svo sannarlega kærkomnir því þrátt fyrir að veturinn hafi ekki verið sem verstur með tilliti til snjóþunga og kulda, var hann mörgum erfiður vegna bankahrunsins.

Síðustu daga hefur veðrið leikið við íbúa höfuðborgarsvæðisins og ungir sem aldnir hafa flykkst í Nauthólsvík og á Austurvöll til að njóta blíðunnar. Sólardagarnir eru svo sannarlega kærkomnir því þrátt fyrir að veturinn hafi ekki verið sem verstur með tilliti til snjóþunga og kulda, var hann mörgum erfiður vegna bankahrunsins.

En fátt er svo með öllu illt að ekki boði eitthvað gott því samkvæmt könnun sem Ferðamálastofa lét framkvæma, og kynnti í miðjum mánuðinum, hyggjast 90% Íslendinga ferðast innanlands í sumar. Er þetta þónokkur aukning miðað við fyrri ár og því mikið fagnaðarefni fyrir þá sem starfa við ferðaþjónustu.

Af þessu tilefni sem og því að fyrsta ferðahelgi ársins, hvítasunnuhelgin, er handan við hornið mælir höfundur hér með nokkrum áfangastöðum sem tilvalið er að sækja heim í sumar:

Skaftafell: Þjóðgarðurinn á suðausturhorni landsins er með fallegri stöðum á Íslandi. Návígið við Vatnajökul er auðvitað hádramatískt og ægifagurt en höfundur mælir sérstaklega með göngunni upp að Svartafossi og því að skjótast bak við fossinn þar sem fátt er skemmtilegra, eða fallegra, á góðum sumardegi.

Flatey á Breiðafirði: Það er allt ævintýralegt við Flatey á Breiðafirði. Siglingin með Baldri, tjaldsvæðið, öll gömlu húsin að ógleymdri kirkjunni og kyrrðinni. Veðrið er kannski ekki alltaf það besta en ferð út í eyjuna er vel þess virði sama hvernig viðrar.

Hallormsstaðaskógur og Atlavík: Eini almennilegi skógurinn á Íslandi og sögufræg stuðvík. Það má sóla sig á tjaldsvæðinu, fara í endalausar gönguferðir um skóginn og jafnvel fá sér sundsprett í Lagarfljóti og heilsa upp á orminn. Það er víst alltaf gott veður á þessum slóðum og ef maður fer hringinn er nauðsynlegt að stoppa hér.

Eyjafjörður: Við þennan fallega fjörð stendur höfuðstaður Norðurlands, Akureyri. Ætla má að þangað hafi flestir Íslendingar komið enda nóg um að vera í kaupstaðnum sem hefur einstakt lag á að slá hitamet. Höfundur mælir með sundlauginni við Hrafnagilsskóla, nokkuð innarlega í Eyjafirðinum, þar sem finna má ró og kyrrð með góðu útsýni til fjalla, og bíltúr/gönguferð um fjörðinn að kvöldlagi.

Hornstrandir: Höfundur þekkir þennan áfangastað einungis af frásögnum annarra sem eru svo stórbrotnar að Strandirnar fá sinn sess í þessari umfjöllun. Þær hafa víst upp á svo margt að bjóða að möguleikarnir virðast endalausir en gönguferðir um Hornstrandir njóta sívaxandi vinsælda. Höfundur hyggst skella sér í eina slíka þegar hún kemst í form sem verður vonandi í sumar…

Og þá er ekkert eftir en að pakka niður svefnpoka, tjaldi, gönguskóm og sundfötum og halda af stað. Góða ferð!

Latest posts by Sunna Kristín Hilmarsdóttir (see all)

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar

Sunna Kristín hóf að skrifa á Deigluna í mars 2009.