FH mun fatast flugið

Um síðustu helgi var flautað til leiks í efstu deild karla í knattspyrnu. Mótið verður spennandi sem aldrei fyrr og þrátt fyrir verri fjárhagsstöðu en síðustu ár virðast flest félögin ætla sér stóra hluti. En hvaða lið ætli verði hlutskörpust þetta árið?

Um síðustu helgi var flautað til leiks í efstu deild karla í knattspyrnu. Mótið verður spennandi sem aldrei fyrr og þrátt fyrir verri fjárhagsstöðu en síðustu ár virðast flest félögin ætla sér stóra hluti. En hvaða lið ætli verði hlutskörpust þetta árið?

Liðin tólf eru jafn misjöfn og þau eru mörg. Fjögur þeirra, Valur, FH, Keflavík og KR þykja sigurstrangleg en nýliðarnir í deildinni, ÍBV og Stjarnan, eiga á brattann að sækja. Þá gætu spútnikliðin frá því í fyrra, Breiðablik, Fram og Fjölnir, fylgt eftir góðu gengi í fyrra og blandað sér í toppbaráttuna. Staða liðanna í lok móts ætti þó að líta nokkurn veginn svona út:

Fallsæti deildarinnar munu Þróttur og Stjarnan hljóta. Þróttur voru ansi nærri falli í fyrra og Hjörtur Hjartarson, þeirra helsta innspýting, yngist ekkert með árunum. Stjarnan mun svo gera öllum liðum deildarinnar greiða með því að falla, þar sem lítil stemning virðist vera fyrir því að fara í Garðabæinn og spila á gervigrasi þeirra Stjörnumanna. ÍBV og Grindavík munu svo taka þátt í botnbaráttunni.

Í miðjumoði deildarinnar verða svo Fram, Fylkir, Fjölnir og Breiðablik. Breiðablik missti þrjá af sínum sterkustu leikmönnum, Jóhann Berg, Prince Rajcomar og Marel Baldvinsson. Þá hefur Fjölnir einnig misst sterka leikmenn, Pétur Markan og Ólaf Pál í Val og Óla Stefán Flóventsson til Noregs. Erfitt verður að fylla skarð þessara leikmanna. Fram og Fylkir hafa ekki sýnt neina meistaratakta síðustu ár og eru engar vísbendingar um að þar verði breyting á.

Toppbaráttan verður svo æsispennandi þetta árið. Keflavík, sem hikstaði í lokaumferðum síðasta árs, mun gera harða atlögu að titlinum í ár. Þeir hafa misst mikið af lykilmönnum og mun það koma niður á frammistöðu liðsins. Þeir ná ekki fylgja eftir góðu gengi frá því í fyrra og spilamennska liðsins mun valda vonbrigðum.

Valur hefur einnig misst mikið af mönnum en bætt öðru eins við sig. Ekki er alveg ljóst hvort um er að ræða „dýrasta lið Íslandssögunnar“ en ljóst er að hópurinn er ansi sterkur. Þetta sést ágætlega þegar skoðaður er varamannabekkur liðsins í síðasta leik. Þar sátu Helgi Sigurðsson og Marel Baldvinsson ásamt Pétri Markan og Sigurbirni Hreiðarssyni. Þar liggur e.t.v. Akkilesarhæll þeirra Valsmanna, með slíkan hóp verður pressan nánast óbærileg. Valur munu ekki standast álagið og skilar engum titli í hús þetta árið.

Meistarar síðustu ára, FH, eru í ár metnir sigurstranglegasta liðið af helstu knattspyrnuspekingum landsins. Liðið er með nánast óbreyttan hóp frá því í fyrra og ættu FH-ingar því að vera jafnsterkir ef ekki sterkari en í fyrra. Nú kveður þó við nýjan tón því lið geta ekki verið alltaf á toppnum. FH mun fatast flugið þetta árið og gefur eftir á lokasprettinum.

Íslandsmeistarar þetta árið verða KR-ingar. Liðið er talsvert breytt frá því í fyrra. Margir leikmenn hafa farið og aðrir komið í þeirra stað. Þar ber helst að nefna gömlu goðsögnina Guðmund Benediktsson sem mun drífa liðið áfram innan sem utan vallar. Félagið heldur upp á 110 ára afmæli sitt þetta árið og munu leikmenn liðsins því spila með hjartanu og tryggja að titillinn skili sér í Frostaskjólið. Þeir munu heldur ekki vilja vera minni menn en liðsfélagar þeirra í körfuboltanum, sem tryggðu sér Íslandsmeistaratitilinn nú nýverið.

Tekið skal fram að höfundur er fæddur og uppalinn í vesturbæ Reykjavíkur