Á hjóli skemmt’ég mér trallallalala

Fyrirtækjakeppni ÍSÍ, Hjólað í vinnuna, gerir meira en að hvetja fólk til að leggja bílnum til hliðar og taka fram hjólið, eigin heilsu, buddunni og umhverfinu til heilla. Hún er líklega eitt mesta framlag til mannlífs í Reykjavík og öðrum byggðum bólum á Íslandi. Það er því óskandi að sem flestir taki þátt svo borgin geti orðið virkileg hjólaborg og bæirnir hjólabæir … á sumrin allavega.

Það verður seint sagt að Reykjavík né önnur byggð ból á Íslandi séu sérstaklega hjólavæn. En það aftrar ekki fjölda manns frá því að taka hjólfákinn fram þegar vora tekur og leggja bílinn til hliðar. Um þessar mundir sést fjöldi manns þeysast um götur, gangstéttir og einstaka hjólastíga til og frá vinnu eða í öðrum erindagjörðum, til hliðar við þá sem það gera í tómstundaskyni.

Því er ekki síst að þakka fyrirtækjakeppninni „Hjólað í vinnuna“ sem ÍSÍ staðið fyrir frá árinu 2003. Markmið keppninnar hefur ætíð verið þau að vekja athygli á umhverfisvænum, ódýrum og heilsusamlegum ferðamáta. Og vinsældir keppninnar hafa aukist ár frá ári. Á síðasta ári voru þáttakendur t.a.m. rúmlega 7 þúsund, hjólaðir voru rúmlega 400 þúsund kílómetrar, sem eru um 10 hringir í kringum jörðina, samanborið við rúmlega 500 þáttakendur og 21 þúsund kílómetrar árið 2003. Í ár eru að sögn fleiri keppendur en áður.

Það er nefnilega svo að reiðhjólið er ótrúlega samkeppnishæfur fararskjóti þegar á hólminn er komið. Sem farartæki hefur það notið mikilla tækniframfara á síðustu áratugum, með gírum, bremsum og jafnvel hjálparmótorum ef því er að skipta. Farangur? Ekki vandamálið. Þú kaupir bara aftanívagn. Rigning? Hefurðu heyrt um GoreTex?

Helsti óvinurinn er þó alltaf veðrið, ekki síst vetrarveðrið, sem er líklega helsti þrándur í götu almennrar notkunar reiðhjólsins yfir allt árið. Þó virðist þeim fjölga sem kaupa nagladekk undir hjólið og hjóla jafnvel að vetrarlagi. Alvöru naglar þar á ferð.

En hjólakeppni ÍSÍ gerir meira en að efla heilsu og létta lund þeirra sem taka þátt. Það sem gerist einnig er að borgin sannarlega lifnar við. Göturnar og umferðarljósin eru ekki lengur samansafn þunglyndra ökumanna með skeifu eitt í bíl bíðandi eftir næsta ljósi í miðjum umferðarreyknum. Nei, allt í einu er stéttarnar orðnar fullar af lífi og gott ef bílunum fækkar ekki að sama skapi. Og hjólreiðafólk er sjaldan með skeifu á munni eða yfir sig stressað að komast ekki á áfangastað á 5 mínútum. Það hefur yfirleitt skipulagt sig vel og tekur sér tíma í ferðalagið. Og það getur því leyft sér að brosa og tekið því rólega.

Það er því óskandi að sem flestir taki sér hjólafólkið til fyrirmyndar, leggi bílnum og taki upp á þeim óíslenska sið sem felst í því að skipuleggja tímann sinn og taka sér góðan (gæða)tíma í samgöngurnar. Hvort sem það er á hjóli, línuskautum nú eða þessum tveimur jafnfljótu og strætókort, en gula limman er einnig tekin gild í keppninni. Og borgaryfirvöld mega gjarnan halda áfram þeirri góðu en (óþarflega) seinlegu vinnu sem felst í að útbúa góða hjólastíga og mála hjólareinar í göturnar. Með því áframhaldi verður Reykjavík sannarleg hjólaborg … á sumrin allavega.

Latest posts by Samúel T. Pétursson (see all)

Samúel T. Pétursson skrifar

Sammi hóf að skrifa á Deigluna í maí 2005.