Hún fyrnir hann… hún fyrnir hann ekki… hún fyrnir hann…

Fréttir af örlögum fyrningarleiðarinnar í stjórnarmyndun vinstristjórnarinnar hafa verið misvísandi en forsætisráðherra fullyrti í gær að þessi leið yrði farin. Henni er ætlað að vinda ofan af því sem sumir telja óréttláta úthlutun kvótans upphaflega en aðrir telja að hafi verið skynsamlegt fyrirkomulag. Ljóst er að svo róttæk aðgerð mun setja útgerðarfyrirtæki í mikinn vanda og gæti leitt til mikilla afskrifta í bankakerfinu.

Útgerðarmönnum um land allt hefur sjálfsagt svelgst nokkuð á kaffibollanum síðdegis í gær þegar þeir lásu um yfirlýsingar Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra í fjölmiðlum um að kvótinn yrði innkallaður með svokallaðri fyrningarleið. Þar hafði forsætisráðherrann eflaust í huga að leiðrétta frétt Morgunblaðsins frá því um morguninn, en þar sagðist blaðið hafa heimildir fyrir því að fyrningarleiðin yrði ekki að veruleika að þessu sinni. Steingrímur J. Sigfússon formaður VG tók reyndar fram í kvöldfréttum að stjórnarmynduninni væri ekki lokið og engin endanleg niðurstaða lægi fyrir.

Stefna flokkanna samhljóða
Fréttirnar eru því nokkuð misvísandi en fyrning kvótans er greinilega eitt af því sem flokkarnir velta fyrir sér. Í stefnu beggja flokka kemur fram með nokkuð skýrum hætti að þessi leið verði sett á oddinn í sjávarútvegsmálum.

Vinstri grænir segja í landsfundarályktun um sjávarútvegsmál að nærtækasta leiðin „til að tryggja réttlátari skiptingu fiskiauðlindarinnar er að undirbúa og hefja innköllun og endurráðstöfun heildaraflaheimilda stig af stigi“ í samræmi við stefnu flokksins frá 2003 þar sem gert er ráð fyrir að 5% aflaheimilda verði innkallaðar árlega. Kvótanum á svo að endurúthluta þannig að þriðjungur fari á leigumarkað, þriðjungur til sveitarfélaga og bundinn við sjávarbyggðir umhverfis landið og síðasti þriðjungurinn verði boðinn þeim sem kvótinn var tekinn frá á „hóflegu kostnaðargjaldi“.

Í stefnu Samfylkingarinnar, sem nefnist „Sáttagjörð um fiskveiðistefnu“, segir að allar aflaheimildir verði innkallaðar á næstu 20 árum, stofnaður svonefndur Auðlindasjóður, sem hafi það hlutverk að sjá um „að varðveita og ráðstafa fiskveiðiréttindum í eigu þjóðarinnar“. Arður af rekstri Auðlindasjóðs á einkum að renna til sveitarfélaga, að því er fram kemur í sáttagjörðinni, en sjóðurinn á að bjóða aflaheimildir til leigu.

Fyrning eða ríkisvæðing?
Flokkarnir eru því nokkurn veginn á sama báti varðandi stefnu sína gagnvart kvótakerfinu. Hugtökin „fyrning“ eða „innköllun“ kvóta eru auðvitað pólitískir frasar yfir ríkisvæðingu kvótans en sú útfærsla að aðgerðin taki t.d. 20 ár, er fyrst og fremst hugsuð sem ákveðin viðleitni og aðlögunartími gagnvart útgerðunum. Svo gæti farið að á það yrði látið reyna fyrir dómstólum hvort um eignarnám væri að ræða sem þyrfti að mæta með fullum eignarnámsbótum af hálfu ríkisins, eins og kveðið er á um í eignarréttarákvæði 72. gr. stjórnarskrárinnar. Ákvæði 1. gr. fiskveiðistjórnunarlaganna veikja þá kröfu aftur á móti en þar segir að úthlutun veiðiheimilda samkvæmt lögunum myndi ekki varanlegan eignarrétt og jafnvel þótt farið hafi verið með kvótann sem eignarréttindi í reynd, þar sem hann gekk kaupum og sölum og var veðsettur, þá er á það bent að mikið þurfi til að hnekkja svo skýru lagaákvæði. Úr þessu yrði skorið fyrir dómstólum.

Réttlæti og tímasetning
Tvær pólitískar spurningar standa aftur á móti eftir; í fyrsta lagi hvaða stefna er sanngjörn varðandi nýtingu auðlindarinnar og í öðru lagi hvort tímasetningin fyrir fyrningarleiðina sé heppileg núna.

Það sem í daglegu tali kallast nú kvótakerfið komst á í nokkrum skrefum frá 1983 til 1990 og athyglisvert er í ljósi sögunnar að kerfinu var meðal annars komið á í tíð vinstristjórnarinnar sem sat 1988-1991. Upphaflega kom til sú nauðsyn að takmarka sókn í fiskistofnana eftir mikla ofveiði og varð ofan á að setja heildarkvóta fyrir hvert fiskveiðiár. Eftir stóð þá spurningin um hvernig útdeila ætti þeim takmörkuðu gæðum sem hlutdeild í heildaraflanum voru. Til að byrja með var ákveðið að þeir sem höfðu veiðireynslu þrjú árin áður en kvótakerfið var tekið ættu rétt á kvóta. Smám saman þróaðist kerfið þannig að kvótinn (þ.e. hlutdeild hvers og eins) mátti ganga kaupum og sölum frá hinum upphaflegu handhöfum kvótans til þeirra sem vildu kaupa en með því skapaðist hagræðing innan greinarinnar og mikil verðmæti tóku að skapast. Ennfremur er heimilt að leigja kvóta en ákveðin veiðiskylda er fyrir hendi, þannig að eigendur kvóta verða að veiða amk. 50% af sínum kvóta sjálfir.

Grætt á sameign þjóðar?
Þegar farið að kanna rökin á bak við kvótakerfið kemur fljótt í ljós að undir krauma afar ólík sjónarmið um réttlæti, eignarrétt og hlutverk ríkisvaldsins. Um það mætti skrifa langar greinar en í stuttu máli má segja að gagnrýnendur kerfisins leggi áherslu á að fiskiauðlindin í sjónum sé sameign þjóðarinnar og ekki gangi að ákveðnum hópi manna hafi verið gefinn endurgjaldslaus aðgangur að auðlindinni í formi veiðiréttinda sem þeir geti svo grætt á með því að selja eða leigja frá sér kvótann, oft fyrir mikla fjármuni.

Verðmætasköpun og nýtingarsaga skipta máli
Fylgjendur þessa fyrirkomulags benda á móti á að þótt þjóðin hafi að sjálfsögðu yfirráðarétt yfir auðlindinni hafi þeir sem sóttu sjóinn í gegnum tíðina, m.a. með því að leggja í mikinn kostnað við að byggja upp sinn skipaflota, greiða laun til starfsmanna og taka á sig alla almenna áhættu af rekstrinum, skapað verðmætin í sjávarútveginum. Það sé því ekkert óeðlilegt við að þessir aðilar fái hlutdeild í heildaraflanum og njóti ávaxta síns erfiðis. Þá verði að hafa í huga að þegar kerfinu var komið upp var fyrir hendi löng nýtingarsaga og hæglega mætti snúa spurningunni við og spyrja hvort það væri sanngjarnt að láta þá sem hafa byggt afkomu sína á sjósókn og farið út í fjárfestingar í greininni skyndilega borga fyrir aðgang að auðlindinni, samhliða því að sóknin í hana var takmörkuð.

Aflaheimildir nánast allar gengið kaupum og sölum
Frá því að kvótakerfinu var komið á og framsal aflaheimilda gefið frjálst hefur það svo gerst að yfir 90% allra veiðiheimilda hafa gengið kaupum og sölum. Það óréttlæti, sem margir telja að hafi átt sér stað þegar veiðiheimildunum var úthlutað án endurgjalds, hefur því verið leiðrétt að því leyti að handhafar kvótans í dag hafi allir greitt fyrir sínar heimildir og sumir hafa meira að segja keypt þær nokkuð dýru verði. Handhafar kvótans í dag eru einfaldlega fyrirtæki og einstaklingar sem fjárfestu í kvóta en fengu ekkert gefins eða upp í hendurnar.

Umdeilt kerfi meðal almennings
Kvótakerfið hefur alla tíð verið umdeilt og ýmsar tilraunir til þess að ná sátt um kerfið, t.d. með upptöku auðlindagjalds, sem útgerðir landsins greiða fyrir afnot af auðlindinni, hafa ekki borið tilætlaðan árangur. Skoðanakannanir sýna ítrekað að kerfið mætir andstöðu meðal almennings og sögur og einstök dæmi um menn sem hafa t.d. selt kvóta og skilið heilu byggðalögin eftir í sárum eða hagnast á því að leigja afnotin af kvótanum án þess að veiða sjálfir, hafa skapað reiði og gremju. Því verður eflaust töluverður stuðningur við þær hugmyndir sem ríkisstjórnin boðar, burtséð frá því hvort þær eru réttmætar eða ekki.

Áhrif á útgerðir landsins
Það sem vefst sjálfsagt fyrir stjórnarflokkunum núna er hvaða áhrif þessi breyting myndi hafa á efnahagslífið núna. Fyrning aflaheimildanna myndi setja útgerðir landsins í mikinn vanda þar sem ofan á erfiða stöðu núna myndi bætast að útgerðirnar yrðu í mikilli óvissu um sinn tilverugrundvöll og þyrftu að leggja út í mikinn aukakostnað við að leigja til sín aflaheimildirnar aftur. Þetta kemur meðal annars fram í skýrslu sem Sigurgeir Brynjar Kristgeirsson, framkvæmdastjóri Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum, tók saman um áhrif fyrningarleiðarinnar. Sú samantekt byggir á yfirferð á ársreikningum 15-18 stórra sjávarútvegsfyrirtækja sem eru með 51-62% markaðshlutdeild. Mat Sigurgeirs er að ef farið verði að fyrna aflaheimildir frá fyrirtækjum muni það ríða þeim að fullu og setja þau á hausinn. Sjávarútvegurinn sé afar skuldsettur en standi þó undir sér, m.a. með því að lengt hafi verið í lánum fyrirtækja en ef það bætist hins vegar ofan á reksturinn að endurleigja aflaheimildir, muni það ríða útgerðunum að fullu.

Hagsmunir bankanna
Ennfremur þarf að horfa til áhrifa þessarar breytingar gagnvart bönkunum sjálfum. Bankarnir eru stórir lánadrottnar gagnvart sjávarútveginum og eiga veð í kvótanum, sem yrðu þá afskrifuð á ákveðnum tíma. Í ljósi viðkvæmrar stöðu bankakerfisins núna gætu slíkar afskriftir verið gríðarlegt högg fyrir bankana.

Kollsteypur eða sögulegt tækifæri?
Stjórninni er því vandi á höndum. Innan flokkanna er án efa þrýst mjög á að þetta gamla baráttumál verði að veruleika, enda séu vinstriflokkarnir í einstakri stöðu núna með meirihluta á þingi og fylgi þeirra flokka sem staðið hafa vörð um kerfið í sögulegu lágmarki. Á móti kemur að kollsteypurnar sem kynnu að verða í þessu erfiða árferði eru slíkar, ekki síst gagnvart sjávarbyggðunum úti á landi en einnig fyrir viðkvæma stöðu bankanna, að það er eflaust umdeilt innan flokkanna hvort tímapunkturinn sé heppilegur.