100 dagar með Obama

Nú eru liðnir rúmir hundrað dagar síðan Barack Obama tók við embætti forseta Bandaríkjanna. Miklar væntingar voru gerðar til Obama og svo virðist sem að Bandaríkjamenn séu ánægðir með fyrstu skref hans í embætti.

Nú eru liðnir rúmir hundrað dagar síðan Barack Obama tók við embætti forseta Bandaríkjanna. Miklar væntingar voru gerðar til Obama og svo virðist sem að Bandaríkjamenn séu ánægðir með fyrstu skref hans í embætti.

20. janúar sl. hófst pólitískt maraþon Barack Obama. Þá tók hann við stjórn stærsta og valdamesta ríki heims. Ljóst var frá upphafi að Obama sæi fram á gríðarlega krefjandi og erfitt verkefni. Bandaríkin hafa verið að sigla inn í eina mestu kreppu allra tíma og nú þegar hafa milljónir manna í Bandaríkjunum misst vinnu sína. Bundnar voru miklar vonir við að Obama mundi grípa til ráðstafana um leið og hann kæmist í embætti.

Það hafa einmitt verið efnahagsmálin sem hafa verið algjört forgangsatriði hjá nýrri stjórn Obama síðustu hundrað daga. Obama mætti vel undirbúinn til leiks og hafði áður en hann sór embættiseið, skipað öflugt teymi ráðgjafa í efnahagsmálum. Um miðjan febrúar var síðan björgunarpakki að andvirði 787 milljarða Bandaríkjadala samþykktur. Björgunarpakkanum var þannig skipt að tæplega helmingur var ætlaður til skattalækkana og hinn helmingurinn beinum útgjöldum ríkisins Áhrif björgunarpakkans eiga þó eftir að koma í ljós en gríðarlega mikið verk er ennþá framundan í þessum málaflokki hjá Obama.

Stefna Obama í utanríkismálum hefur einnig vakið mjög mikla athygli. Hann hefur hafið vinnu við að að fækka bandarískum hermönnum í Írak, fjölgað bandarískum hermönnum í Afganistan, stuðlað að meira samstarfi um fækkun kjarnorkuvopna og leitt bandarísku þjóðina í baráttunni gegn gróðurhúsaáhrifum. Einnig hefur hann lýst yfir vilja til viðræðna við írönsk stjórnvöld og tekið í spaðann á Hugo Cháves sem vakti mikla athygli heimspressunnar.

Obama hefur einnig hefur einnig fengið mikið lof í Bandaríkjunum fyrir áherslur sínar í menntamálum, jafnréttismálum, heilbrigðismálum, umhverfismálum og fleiru.

Mælingar sýna að Bandaríkjamenn eru mjög ánægðir með störf Obama. Að meðaltali hafa 63% Bandaríkjamanna verið ánægðir með Obama fyrstu 100 daganna. Síðasta mæling sem gerð var fyrir fjölmiðlana New York Times og CBS sýna að 68% Bandaríkjamanna voru ánægðir með störf Obama, til samanburðar voru 56% ánægðir með George W. Bush eftir hundrað daga í starfi.

En þrátt fyrir að Obama hafi byrjað valdaferill sinn vel og staðið undir þeim kröfum sem til hans voru gerðar í upphafi þá er ljóst að næstu ár verða mjög erfið fyrir hann. Hann þarf að taka margar sársaukafullar ákvarðanir á næstu mánuðum sem munu án efa hafa áhrif á fylgi hans. Því verður forvitnilegt að vita hvort að hann nái að halda þeim dampi sem hann hefur byrjað á og hvort bjargvættarljóminn haldist á þessum vinsæla forseta.

Latest posts by Jan Hermann Erlingsson (see all)